Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 7

Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 7
„Einar H. Kvaran áleit að þessar sýnir væru fjarsýni, en aldrei gat ég fallist á það.“ (Skyggna konan, bls. 29). Þegar menn dreymir huldufólk er atburðarásin oft mjög skýr og eftirminnileg, líkari því að um vökureynslu sé að ræða en venjulegan draum, enda kalla menn slíka drauma oft draumleiðslur, og finnst stundum eins og þeir hafi farið þetta og þetta í eigin líkama, og þykjast jafnvel sjá þess greinileg merki, svo sem á snjóugum eða moldugum skóm. Þetta er t.d. mjög algeng reynsla þegar menn dreymir að þeir séu sóttir í híbýli huldufólks, til að hjálpa huldukonum að fæða. Sjást þá líka stundum blóðblettir á fötum og tækjum ljósmæðra, er fara í slíkar leiðsluferðir. Skoðanir manna á eðli drauma eru þó ekki síður marg- víslegar, og liggur nærri að þar hafi hver fræðimaður sina eigin kenningu. Helgi Pjeturss taldi drauma ótvírætt vitni um fjarsamband við fólk á öðrum jarðstjörnum, og út frá þvi er svo sprottin kenning Nýalssinna um tilveru huldu- fólksins og hulduheimsins, sem um var getið í upphafi greinarinnar. SKOÐANIR DULSPEKINGA í þessu sambandi er fróðlegt að kynnast skoðunum hinna svonefndu „dulspekinga“ á slíkum fyrirbærum, en þær hafa á síðari tímum verið túlkaðar af „guðspekingum“ (félögum í Guðspekifélaginu eða Heimssambandi þeirra), svo sem C.W. Leadbeater. Verður hér stuðst við rit hans „Æðri heimar I. Geðheimar“, sem Sigurður Kr. Pétursson þýddi um 1920 (2. útg. 1975). Bók þessi er aðallega lýsing á framlífsheiminum, sem menn hverfa til eftir líkamsdauðann, og guðspekingar kalla „Geðheim“, og íbúum þess heims, sem eru ærið margvís- legir skv. henni. M.a. er þar að finna alls konar „náttúru- anda“, og þar á meðal flokka dulspekingar huldufólkið. Heim þennan telja þeir vera efniskenndan, ekki síður en okkar heim, og þá að sjálfsögðu íbúana líka, en efnið er í öðru ástandi en við þekkjum, og þessvegna ósýnilegt og óáþreifanlegt flestum. Sumir partar þessa dulheims skarast hins vegar við okkar heim, þannig að landslag og aðrar aðstæður þar geta verið nær alveg eins og í okkar veröld. Hins vegar er skynjun manna á ýmsan hátt ólík í þessum heimi. Menn sjá jafnvel í gegnum holt og hæðir, í raun- verulegri merkingu, eins og stundum kemur fyrir skyggnt fólk hér á jörð. Menn sjá ekki einungis yfirborð fastra hluta, heldur bakhlið þeirra, og það efni sem í þeim er. Kannske má líkja þessu við að hinir föstu hlutir þessa heims væru allir úr gegnsæum efnum eins og plasti eða gleri. í þessum framlífsheimi eru margs konar lífverur og líf- gervi. í fyrsta lagi er þar fjöldi af fólki sem enn er á lífi „hérna megin“, þ.e.a.s. sofandifólki. því draumar okkar eru ekki annað en sú lífsreynsla, er við verðum fyrir í þessum heimi. í öðru lagi eru þar nýlega dauðir menn, sem dveljast þar mismunandi lengi, áður en þeir flytjast til annarra staða. í þriðja lagi eru þar ýmsar gerðir af þessum svoköll- uðu náttúruöndum, en það eru vitsmunaverur, sem tilheyra öðrum þróunarbrautum en við mannfólkið. Þeim er oft skipt í flokka eftir bústöðum sinum, svo sem jarðanda, vatnsanda, loftanda, eldanda o.s.frv. Höfundur segir þá vera mjög sundurleitan veruflokk, og myndi þurfa sérstaka bók til að lýsa öllum þeirra afbrigð- um, en þó hafa þeir viss sameiginleg einkenni. Þeir geta farið allra sinna ferða í hinum föstu efnum og haft þar híbýli sín, eins og við getum farið um vatn eða loft, enda hafa þeir ekki líkama úr jarðneskum efnum, að öllum jafnaði. „Það má með sanni segja, að náttúruandar geti brugðið sér í allra kvikinda líki. Þó er allur fjöldi þeirra að einhverju leyti í mannsmynd að jafnaði. Þeir eru þó flestir nokkuð minni vexti en fulltíða maður. Þeir eru venjulega ekki sýni- legir líkamlegum augum, en þeim er innan handar að gera sig sýnilega, og geta birtst óskyggnum mönnum hvenær sem þeim býður svo við að horfa, og orðið þá meira að segja áþreifanlegir.“ (Æðri heimar I. Geðheimar, bls. 88). „Náttúru-andar greinast í geysimarga flokka og tegundir. Hinir ýmsu einstaklingar einnar og sömu tegundar, geta verið ærið mismunandi að vitsmunum og kostum, að sínu leyti eins og vér mennirnir. En allur þorri náttúruanda reynir að forðast menn. Þeim fellur illa hin sífellda ókyrrð, sem fylgir mönnum í geðheimum, og hafa megnan ýmigust á lifnaðarháttum manna og óhreinindum. Þeim finnst allt þetta trufla sig, og gera sér gramt í geði.“ (Sama rit, bls. 88-89). Þó telur höfundur þess allmörg dæmi, að náttúruandar hafi gerst einlægir vinir manna, og veitt þeim margvíslega aðstoð og hjálp, eins og sjá megi af huldufólkssögum ým- issa þjóða. En höfundur telur að sögur af álfum og huldufólki, og líklega af fleiri vættategundum, eigi rætur að rekja til nátt- úruandanna og aðgerða þeirra, sem leggi nokkra stund á að villa um fyrir mönnum og framkalla hjá þeim alls konar sjónhverfingar, láta þá sjá t.d. hús eða bæi þar sem engin byggð sé, o.s.frv. „Og stundum er þetta þá meira en augnabliks missýn- ing ... hann þykist þá sjá hina furðulegustu hluti og lenda í hinum kynlegustu ævintýrum, sem eru þá vitanlega ekki annað en ímyndun ein, af völdum náttúruandanna. Og ef til vill veit hann ekki fyrri til, en hinar glæsilegustu hallir, sem hann hefur þózt vera kominn í, eru horfnar allt í einu, og hann er í sama eyðidalnum eða flatneskjunni, sem hann var á, áður en hann sá þessar kynjasýnir.“ (Sama rit, bls. 123). Svo er að skilja sem þetta geti verið skemmtun eða dægrastytting náttúruandanna. Höfundur telur náttúruandana ekki gædda neinum „innra manni“, og því geti þeir ekki endurholdgast eins og Heimaerbezt 327

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.