Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 40

Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 40
Þau sátu dágóða stund yfir kaffinu, og margt bar á góma. Allt í einu rauk ljósmóðirin á fætur. „Hvað er ég að hugsa, að sitja hér og masa? Það er eins gott fyrir mig að gæta að sængurkonunni og barninu.“ Þorsteinn gekk út á hlaðið. Líklega var bezt að fara að mjólka kýrnar. Hann gat sótt þær sjálfur að þessu sinni, — sjálfsagt að lofa strákgreyinu honum Danna að sofa út. Hann kallaði á hundinn. Það var alltaf viss félagsskapur að hafa hann með sér. Þarna lá hann í króknum á bak við húsvegginn, stakk trýninu í rófubroddinn og svaf. Þor- steinn kallaði öðru sinni, og í þetta sinn bar það árangur. Ljósmóðirin fór á áttunda degi. Henni fannst alltaf vissara að leggja konunum strangar lífsreglur varðandi hinn nýja borgara og einnig hvað þær sjálfar snerti. En það var ekki svo að skilja að allar færu eftir því út í yztu æsar. Einkum og sér í lagi voru það yngri konurnar, er gerðust brotlegar, að henni fannst, og átti hún þá til að taka sængurkonuna og barnið heim á sitt eigið heimili um tíma. Hún húsvitjaði með nokkurra daga millibili og gerðist þá oft aðsópsmikil í orðum og gerðum, ef henni bauð svo við að horfa. Það hafði kvisazt fyrir löngu, að hún léti konurnar skrifta fyrir sér, einkum þær, er áttu börn i lausaleik eða voru nýlega giftar, en slíkri afskiptasemi var misjafnlega tekið, sem vonlegt var. Fólk skildi hreint ekki, hvers vegna hún hagaði sér svona, þar sem ekkert amaði að, hvorki konu né barni, og þó svo væri, sinnti hún þeim tilfellum ekkert fram yfir það venjulega. Hún gerði eiginlega ekkert upp á milli fólks. Sérstaklega lagði hún þó fæð á þær konur, er átt höfðu barn í lausaleik eða framhjáhaldi. Hún vissi hreint ekki, til hvers þær hefðu fæðzt inn í þennan heim. Það var ekki samkvæmt vilja Guðs að haga sér eins og skepnur, sagði hún. Fólk furðaði sig oft á hegðan hennar, jafn dagfarsprúðri manneskju og hún gat verið yfirleitt. Sumir litu á þetta sem ógerðarhátt, en öðrum fannst alveg sjálfsagt að hafður væri hemill á því siðleysi, sem virtist vera að færast í vöxt, sér- staklega meðal yngra fólks. En Þorsteinn í Miðbænum hafði sínar skoðanir á þessum hlutum. „Það er misjafnt, hvernig fólk bregst við andstreyminu,“ sagði hann. „Hún hefur farið á mis við þau lífsgæði, sem fjölskyldulífið veitir. Hún missti unnusta sinn, þegar hún var ung, og einhvern veginn hefur það atvikazt svo, að lifið hefur ekki orðið henni gjöfult á þessu sviði. „Já. En mörg manneskjan hefur nú mátt horfa á bak ástvinum sínum og ekki látið það bitna á öðrum, eins og hún gerir,“ sagði kona hans. „Einstaklingarnir eru svo misjafnir, góða mín, — ég hélt, þú vissir það. Sumum er bærilegt það sem öðrum er óþol- andi raun og brýzt þá upp á yfirborðið í ýmsum myndum,“ anzaði hann. Næstu daga og vikur komu frænkur og frændur í heim- sókn, og allir dáðust að nýfæddu manneskjunni. Sumum fannst hún lík föðurnum, öðrum móðurinni, og svo komu athugasemdirnar: „Hún hefur augun hans föðurbróður síns,“ sagði ein frænkan. Eins gott að yfirsetukonan heyrði þetta ekki, hugsaði Þorsteinn. „Mér finnst hún bera yfirsvipinn hennar langömmu sinnar,“ sagði móðuramman. Þeir, sem til þekktu, álitu það ekki fjarri lagi. „En sjáðu, hvað hún er lík í föðurættina á niðurandlitið. Kannski verður hún skáld, eins og svo margir, sem af þeim meiði eru komnir,“ sagði móðursystirin hlæjandi. „Já, kannski. Það veit enginn ennþá, hvað framtíðin ber í skauti sínu,“ sagði Þorsteinn og tók við barninu úr höndum móðurinnar. „Litli sólargeislinn hans pabba síns — sóleyjan hans pabba. Ert þú sóleyjan á bænum?“ tuldraði hann í gælutón Sú litla rýndi út í birtuna, er féll óhindruð inn um gluggann, og nú fékk hún ákafa hnerra. Það var eitt ágústkvöld, að húsfreyjan í Miðbænum kom að máli við bónda sinn og spurði, hvort ekki væri rétt að huga að einhverju nafni á litlu stúlkuna. „Jú. En hefur þér komið eitthvað í hug?“ spurði Þor- steinn. „Það er langt síðan. Þú áttir sjálfur hugmyndina, góði minn.“ „Ég? Og hvenær þá? Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni haft slíkt á orði.“ „Það er nú samt svo. Þú kallaðir hana Sóley, — manstu það ekki?“ „Þú ert aldeilis minnug, þykir mér,“ anzaði hann og hló. „En ég hef sagt þetta bara að gamni mínu. Ég meinti hreint ekki, að hún ætti að heita Sóley, þótt ég glopraði því út úr mér. Þú segir nokkuð, kona góð. Það er alls ekki svo vit- laust.“ Og svo var það ákveðið, að hún skyldi látin heita Sóley. Kannski var hún látin heita þessu nafni vegna þess að báðum foreldrunum fannst það fallegt og jafnframt við- eigandi. Hún var fædd á þeim tíma árs, er þetta fagra blóm var í skrúða, en því skyldi hún ekki einnig heita einhverju öðru nafni? Og þau ræddu um þetta aftur og fram. Svo var því slegið föstu, að hún skyldi heita nafni ömmu sinnar og skirast Elfa. Sóley Elfa Þorsteinsdóttir, — það var nákvæmlega það, sem við átti. Á votum engjum Veturinn áður hafði Daníel á Hálsi verið að heiman, meira að segja í öðrum landshluta. Skemmtilegt? Slíkt verður naumast talið, en kannski má alltaf læra af slíku, að minnsta kosti kvnnast nýju fólki, áður óþekktum siðum og uppátækjum, enda var Danni reynslunni ríkari um margt, þótt aldursárin væru ekki mörg. Meira að segja var mál- farið öðruvísi en í hans eigin sveit, hvað þá annað. En það var dálítið erfitt að sannfæra fólk um það, að héraðið þar sneri alveg öfugt við það, sem var hér. Sumir 360 Heima er bezl

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.