Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 42

Heima er bezt - 01.11.1984, Blaðsíða 42
virði var það þá að giftast inn í einhverja stóra ætt? Danni hataði alla þessa vitleysu, sem hann hafði svo oft heyrt talað um og dásamaða sem horfnar dyggðir. Prest- arnir höfðu lagt blessun sína yfir þennan ósóma, og honum skildist, að sumir þeirra hefðu nú ekki verið nein guðsljós, svona í veraldlegum skilningi. Það var aðeins fyrir altarinu og uppi í ræðustólnum sem trúarhitinn náði verulegum tökum á þeim. Vitaskuld höfðu verið til undantekningar, en kennimenn þátíðar höfðu verið mannlegir og vel það, engu síður en nú. Það var í vikunni fyrir verzlunarmannahelgina, að gróður- húsabóndinn í Garði falaðist eftir honum í vinnu, þó ekki væri nema í tvo til þrjá daga. „Ég fyrir mitt leyti hef ekkert á móti því, en talaðu við húsbóndann. Hann ræður slíku.“ „Er ekki hentugast að síma til hans?“ spurði Garðs- bóndinn. „Jú, það ber bestan árangur. Því gæti allt eins verið synjað, ef þú bærir upp slíkt erindi persónulega," svaraði Danni. Garðsbóndinn gekk í burt og hló. Og þetta varð ofan á. Einmitt núna var svo mikið að gera í gróðurhúsunum, að hið fámenna starfslið hafði ekki undan. Það þurfti að vökva, tína af, flokka og pakka niður. I tvo daga var hann að aka mold. Þarna var stanzlaus straumur ferðafólks, og oft þurfti tvo við afgreiðslu á ben- zíni og í búðinni. Garðsbóndinn var vanur að vera þar sjálfur, en þessa daga mátti hann varla vera að því og fékk því Laugu sér til aðstoðar. Lauga var þar venjulega á sumrin og reyndar oftar, því að hún var einn af eigendum fyrirtækisins. Það var að kvöldi síðari dagsins, er hann var að leggja af stað heim, að kallað var til hans. „Danni. Heyrðu, talaðu við mig aðeins andartak." „Hvað viltu? Komdu þá hingað,“ anzaði hann. Hún kom og horfði þegjandi á hann sópa mold aftur úr vagninum. „Var það ekkert annað, sem þú vildir mér?“ spurði Danni og gaf henni gætur í laumi. „Jú, auðvitað. Viltu keyra mig og Steinku hérna á ball um helgina? „Á traktornum?“ spurði hann glettnislega. Hún skellti í góm og fór að hlæja. „Auðvitað ekki, en áttu ekki bílinn ennþá?“ „Jú, ég á hann, en það fer enginn á honum, eins og hann er.“ „Hvað kom fyrir hann? Er hann kannski hjólalaus eða alveg ónýtur?“ spurði Lauga. „Já, ég held það. Allavega ekki ökuhæfur,“ anzaði Danni. „En heyrðu. Hvar verður ball núna um helgina?" spurði hann. „í Kofanum,“ sagði hún eins og annars hugar. „Þá er það ekkert mál. Við förum bara labbandi,“ svar- aði hann. „Og syndum yfir vatnið? Nei, takk. Þú getur einsamall farið þá leið,“ sagði hún. „Það þarf ekkert að synda. Það eru að minnsta kosti þrír bátar þarna, og þegar komið er yfir, er örstutt upp í Kofa,“ sagði Danni. „Já, en hver heldur þó að nenni að labba, þegar allir fara á bílum? Getur þú ekki fengið þér almennilegan bíl, eins og allir hinir?“ spurði hún hálfsnúðugt. „Auðvitað gæti ég það, en þér eru öll mál kunnug, engu síður en mér, eða er það ekki?“ „Þú átt ekki að anza þessum gamaldags hugsunarhætti. Þú lætur útiloka þig frá þínum aldursflokki, mátt aldrei fara á ball eða skemmta þér á annan hátt. Hvaða vit er í þessu, ha?“ Danni hélt áfram að sópa vagnbotninn, þótt þar væri engin mold lengur. Hann fann, að hún hafði rétt fyrir sér, en átti þó bágt með að viðurkenna það. Hann þagði því og fór með kústinn niður að hjallinum, en þar hafði hann fengið hann að láni. En Lauga litla var ekkert að flýta sér, ekki núna. Eril- samur dagur var að baki og komið kvöld, en kvöldin átti hún sjálf. „Jæja. Þú kemur á laugardagskvöldið. Við getum hist hjá stóra klettinum þarna hinumegin,“ sagði hún brosandi. Hann leit til hennar hálf hissa. „Ætlar þú þá að fara á skemmtunina með mér?“ spurði hann. „Já, það geri ég og skammast mín hvergi fyrir. Það er ekkert athugavert við það, held ég, þótt við séum saman. Þarna verður alls konar fólk á ýmsum aldri, allt frá ungl- ingum eins og okkur upp í hálfgerða stafkarla.“ Og hún hélt áfram að hlæja. Hann vissi varla, hvernig hann átti að taka þessu. Var henni alvara, eða var hún bara að fíflast með hann? Hún var óútreiknanleg. Það var best að láta reyna á, hvort hún ætlaði sér í raun og veru að koma með honum og róa yfir vatnið. Kannski þætti henni eitthvert sport i því. í þetta sinn skyldi hann ganga hreint til verks og segja þeim heima, að hann væri að hugsa um að fara á dansleikinn í Kofanum um helgina. Það var svona hér um bil víst, að honum yrði bannað það, en það kom málinu ekkert við. Hann færi samt. Laugardagurinn boðaði komu sína með hægri suðvestanátt og súld. „Ekki er hann þurrklegur þennan daginn,“ sagði hús- bóndinn. „Það gæti nú stytt upp um hádegið,“ hélt Guðríður. Nei, og fjandakornið að hann stytti nokkuð upp. Það kæmi mér ekki á óvart að hann væri lagztur í alvarlega óþurrka. Það hefur þá skeð fyrr. „Danni. Við skulum koma og keyra í vothey það sem eftir er á litlu flötinni. Það verður ekkert gert þarfara í dag.“ Um sexleytið var því lokið. Þá fór Danni að búa sig fyrir kvöldið. Þau yrðu þó nokkra stund á leiðinni út í Kofa. Framhald í næsta blaði. 362 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.