Heima er bezt - 01.07.1986, Blaðsíða 21
börnin sín „stafa“, sem kallað var,
þau urðu flest fljótt læs, en þú Sigga
litla, varst nú ansi löt. Það lagaðist,
þegar mamma þín Valgerður, sagði
eitt sinn við þig í gamansömum tón:
„Nú skaltu taka letina, Sigga mín,
binda stein við hana og sökkva henni
niður í Lómatjörnina.“ Þetta fannst
þér svo skemmtilegt og alveg tilvalið.
Eftir þetta fórstu alltaf á hverjum degi
til ömmu þinnar, enda varstu fljótt
læs, sex ára, minnir mig.
Guðrún mín dó í júlí 1924. Öllum
varð hún harmdauði, þessi góða og
greinda kona. Nú átti Valgerður dóttir
hennar mig, í nokkur ár, þar til þú,
Sigga litla, baðst um að fá að eiga mig.
Ég varð nú glöð, þegar þú fékkst
Baldvin Kristinsson smið, til að laga
mig til, það veitti ekki af því. Hann
bætti nýjum fjölum í skúffurnar mín-
ar, þar sem þurfti, málaði mig hvíta og
setti gyllt höld á þær. Já, þá var ég nú
fín og falleg. Svo áttir þú mig lengi,
fórst með mig suður á land og hvað
eina. Það var þegar þú varst ung og
ógift, en þegar þú giftist honum Helga
Schiöth, þá geymdi ég alltaf barna-
fötin fyrir þig. Já, ég hef nú séð sitt af
hvoru um dagana, en nú er ég komin í
eigu Valgerðar, dóttur þinnar, sem
býr á Rifkelsstöðum í Eyjafirði.
Skrítið, nú er ég á elliárum mínum
komin í eigu Valgerðar — og handa
Valgerði var ég smíðuð í fyrstunni.
Ég var orðin ellimóð og fína máln-
ingin víða molnuð af mér, þegar ég
komst í eigu Valgerðar III, en maður-
inn hennar, hann Gunnar Jónasson,
er svo mikill smiður, hann lagaði mig
og setti í mig nýtt bak, það var nú
munur. Og nú fékk ég aftur á ný að
geyma barnaföt, það þótti mér gam-
an. Valgerður III er mér góð og nota-
leg. hún gætir þess að vel fari um mig.
Mér þykir vænt um. þegar þú kemur
og strýkur hendi yfir mig, já, rnargar
mjúkar konuhendur hafa farið urn
mig höndum um æfina, en ég er líka
viss um, að hún Valgerður I. sú sem
átti mig í upphafi, er ánægð með það,
hvernig fer um mig — og að ég hef
alltaf verið hjá góðu fólki. Einhvern-
tíma líður að lokum fyrir mér, eins og
öllum dauðlegum hlutum.“
HALLGRÍMUR HELGASON,
Droplaugarstöðum
MINNINGAR ÚR FELLUM III
Fj allasels-Gunna
(draumur)
Nokkuð jafn snemma og ég skynjaði þá tilveru sem kring-
um mig er, hefur mig dreymí. Þetta hefur þó ágerzt eftir
55-60 ára aldur, og nú dreymir mig flestar nætur. Hingað til
hefi ég aldrei skrifað upp drauma mína, enda hef ég
sjaldnast getað ráðið þá. Þó hefur mig oft dreymt fyrir
gestakomum, og sagt heimafólki draum minn að morgni.
Aðfaranótt fyrsta vetrardags, 22. október 1977, dreymdi
mig, að ég var að ganga upp stigana hér á Droplaugar-
stöðum. Þeir eru tvískiptir af litlum palli, sem gengið er inn
á um útidyr.
Þegar ég kem upp á pallinn, verð ég var við hreyfingu úti
á tröppunum (án þess þó að sjá það gegnum glerið á
hurðinni). Þá er komið við hurðina, greinilega, en þó fannst
mér ekki vera drepið á dyr. Ég hafði þá mundað fótinn til
að stíga upp í neðstu rimina í efra stiganum, en hætti við
það, og ríf opna útihurðina, með snöggu handbragði.
Sá ég þá standa á tröppunum manneskju, rétt í meðallagi
háa og þéttvaxna. Sýnin varaði ekki nema sekúndubrot. Sá
ég þó greinilega fætur hennar, dálítið upp fyrir hné, um leið
og hún tekur með báðum höndum í pilsið, sem var blátt að
lit eða gráblátt (upplitað) og reigir sig snöggt dálítið aft-
urábak, en við það kom sokkafaldurinn í ljós, með ljósleita
eða hvíta tölu utanvert á hvorum sokk.
Ekki lék vafi á, að þetta voru konufætur, dálítið þreknir,
og sá niður á ristina. Hún var í yfirhöfn eða slopp, er náði
rétt ofan fyrir mjaðmir, virtist úr þykku, útlendu efni frekar
en ull (vaðmáli), grænn að lit, orðinn velktur fljótt á litið. Á
fótunum fannst mér vera þunnir sauðskinnsskór, heima-
gerðir, með þvengjabindingu. Ekki sá ég meira af verunni,
en glaðvaknaði við drauminn.
Daginn eftir, kl. 3-4 kvöddu tveir Jökuldæiingar dyra og
báðu um að komast í síma, þeir Eiríkur Sigfússon á Gili og
Kjartan Sigurðsson í Teigaseli.
Til skýringar má geta þess, að bein Guðrúnar sálugu
Magnúsdóttur frá Fjallsseli (Fellum), sem varð úti veturinn
1877-78 á leið að Hnefilsdal, fundust í landi Teigasels 1916.
Var það Þorleifur bóndi þar, sem beinin fann, en gleymdi
að merkja staðinn, svo hann týndist og fannst ekki aftur
fyrr en 1972.
(Sjá Þjóðsögur Sigfúsar Sigfússonar, 3. bindi (1. útg.),
bls. 259 og Múlaþing 5. árg. 1970, bls. 161-162).
Heimaerbezt 265