Skírnir - 01.01.1928, Side 12
Skirnir]
Finnur Jónsson sjötugur.
5
kennslu þeirrar, sem ég naut hjá honum, verður mér líka
oftar hugsað til skrifstofunnar heima hjá honum á Nyvej 4
en kennslustofunnar í háskólanum. Ég kom þrásinnis heim
til hans að leita ráða og bera upp efasemdir. Auðvitað
kom ég ekki að tómum kofunum. Þekking hans á fræðum
sínum er bæði nákvæm og víðtæk. Samt eru það ekki
svörin, sem mér eru minnisstæðust. Einn einfeldningur get-
ur spurt meira en sjö vitringar geta svarað. Og þegar út
í vafaefnin kemur, verður hver að finna sjálfum sér leið.
En ég minnist þess, hvernig ég gekk niður Frederiksbergs
Allé, léttari og stæltari í spori og gat ekki fengið af mér
að setjast upp í sporvagn. Ég hafði fengið nýja trú á fræði
mín, datt margt í hug, treysti sjálfum mér betur: »komi
nú einhver ok fáist við mik!« Ég hafði snert á andlegri
aflstöð og fór burt hlaðinn orku. Getur nokkur kennari gefið
lærisveini sínum betra vegarnesti frá stuttri heimsókn?
III.
Ok sólar sýn. Finnur Jónsson unir sér bezt við birtu
og heiðviðri. Mollurigningar og þokuloft Kaupmannhafnar
fyrra hluta vetrar þótti honum þungt að búa við. Og í
andlegum efnum er honum ljós hugsun fyrir öllu. Veldur
þessu bæði gáfnafar hans sjálfs, íslenzkt eðli, sem ber merki
skóglauss lands og tærs lofts, og efnishyggja og raun-
hyggja síðara hluta 19. aldar, sem hann er alinn upp við.
í trúarefnum er hann ákveðinn fylgismaður Brandesar, og
það er óhætt að segja um báða, að þeir hvorki skilji né
vilji skilja þau svið trúarlífs og bókmennta, sem liggja fyrir
utan landamæri skýrrar hugsunar. Finnur hefur oft sagt við
mig, þegar vísindaaðferðir hefur borið á góma, að ekki væri
til nema ein visindaaðferð: heilbrigð skynsemi. Mörg and-
ans stórmenni myndi vera á því máli, að ráðningu sumra
gátna yrði að sækja inn í skógarmyrkur drauma og djúp-
sýnar, og til væri sá sannleikur, sem óra mætti fyrir, án
þess skynsemin gæti náð fastatökum á honum. En hinu
verður ekki neitað, að það eru fulltrúar hinnar heilbrigðu
skynsemi, sem leggja grundvöll visindanna, og um gildi