Skírnir - 01.01.1928, Page 110
Skírnir] Um rannsóknir i Öskju sumarið 1923. 103
En frá syðstu bæjum í Bárðardal bar mökkinn hér um bií
yfir miðbik Dyngjufjalla.
Á tveim bæjum í Bárðardal þóttust menn verða varir
við lítilfjörlegan landskjálftakipp um það bil sem gosið
byrjaði, en eigi er þess getið, að landskjálfta hafi orðið vart
annarsstaðar samfara gosinu.
Miðunin á gosinu frá Grimsstöðum á Fjöllum, Gríms-
stöðum í Mývatnssveit og Bárðardal virðast koma nokkurn
veginn vel heim við hinar umræddu gosstöðvar í Öskju,
miðað við jarðfræðiskort Þorv. Thoroddsens. En miðunar-
iínan frá Möðrudal kemur nokkru norðar. Þaðan hefði gosið
átt að bera heldur sunnan til við Herðubreið. En þetta
getur hafa haggazt í minni manna og eigi er heldur að
treysta miðunarlínum á kortunum, þegar um er að ræða
afstöðu fjalla og staða inni á öræfunum.
H. Spethmann hefur nefnt Öskjuvatn „Knebelsvatn“ og
vikurgíginn, er gaus 29. marz 1875, „Rudloffsgíg“, til minn-
ingar um Þjóðverjana, er drukknuðu í vatninu 10. júlí 1907.1)
Áður en þeir félagar komu til Öskju, nefndu Þingeyingar
vatnið Öskjuvatn og vikurgíginn Víti. Nöfn þessi hafa fyrir
löngu fengið festu og eru notuð enn í dag þar um slóðir,
eftir því sem kunnugir hafa skýrt mér frá. Það er því tæp-
ast réttmætt, að láta þau víkja fyrir öðrum yngri nöfnum.
í dagbók minni hef ég í þess stað nefnt hraunið, sem
lýst er hér að ofan, Þjódverjahraun, til minningar um þessa
suðrænu gesti, er létu hér líf sitt við rannsókn öræfanna.
Þeir félagar höfðu tjald sitt hjá vikurgígnum. Þeir höfðu
segldúksbát sinn vestanvert við vatnið og lögðu þaðan
undan landi, þegar þeir drukknuðu, þar sem Mývetninga-
hraun hefur fallið út í vatnið (sjá síðar). Báturinn, sem
fluttur var upp í Öskju og notaður, þegar leitin var gjörð
eftir þeim um vatnið, var settur upp í hvamminn þar sem
hraun það hefur fallið yfir, sem að ofan er lýst. Stóð
hann þar enn uppi 1910. Nú var hann horfinn; hefur hraun-
elfan fallið yfir hann eða eytt honum.
1) H. Spethmann: Islands grösster Vulkan. Leipzig 1913.