Skírnir - 01.01.1928, Side 170
Skirnir]
Jótland og Jótar.
163
V.
Almennt er litið svo á í Danmörku, að Jótar séu svart-
sýnir og þunglyndir, gagnstætt hinum fjörugu og glaðlyndu
Eydönum, og til sönnunar má benda á Sören Kierkegaard
og á lýsingar í bókum Jacobs Knudsens. Um Sören Kierke-
gaard á þetta við og þó aðeins að nokkru leyti. En um
margar bændalýsingar Jacobs Knudsens er það efasamt,
að þær séu nærri sanni, og loks er sumt af því, sem rétt
er athugað, ef til vill fremur einkenni alþýðunnar almennt
heldur en józk séreinkenni. Þegar benda skal á józk sér-
einkenni. verður mönnum sem sé oft á að bera saman
józka bændur og Dani frá öðrum landshlutum, er fengið
hafa mikla bókmenntun og menningarbrag. Það ranglæti
hefir verið Jótum þrándur í götu, að biblían var á sínum
tíma þýdd á eydönsku, sem með þeim hætti varð ríkismál
og einvalda menningarmál, og að það atvikaðist svo, að
höfuðstaður ríkisins með öllum sínum menningartækjum
varð á svæði Eydana og þó í útjaðri þess.
En víkjum aftur að tilfinningalífi Jóta og þunglyndinu,
sem þeim er eignað.
Þunglyndið er naumast upphaflegt, heldur afleiðing af
dýpri eiginleika, sem sé næmleik taugakerfisins, er verður
mikið um áhrifin og býr að þeim; við það festist tilfinn-
ingin, verður djúp og varanleg, með öðrum orðum »þung«.
í þessu og óbeit á því að tala um tilfinningamál sín, lík-
jast Jótar frændum sínum vestan við hafið. En eins og hjá
þeim getur hið næma tilfinningalíf birzt í kímni og fyndni.
Næmleikinn einkenndi og Sören Kierkegaard fremur en
þunglyndið. Þunglyndið — er hann sjálfur setti í samband
við nokkur heldur lítilfjörleg atvik — og hin frábæra geðfesta
hans, »tryggð í minningunni«, var afleiðing af óvenjulegum
næmleik og skerpu í taugastarfi hans. En raunar koma fyrir
hjá honum öll blæbrigði tilfinninganna, frá góðlátlegasta
gamni til sárustu örvilnunar. Hann var í engu meðalmaður
og getur þvi ekki verið allsherjardæmi um tilfinningalíf
Jóta; en hann getur hjálpað til að skilja það.
11*