Skírnir - 01.01.1928, Side 216
Skírnir]
Menntamál Sovjet-Rússlands.
209
að svívirða öll trúarbrögð á allar lundir. Hins vegar leyfist
engum að andmæla stjórninni né gagnrýna gerðir hennar.
Prestum leyfist að prédika í kirkjum sínum og vitja sókn-
arbarna sinna, en ef þeir tala eitt öfugt orð um guðleysi,
ríkisheimspekina, stjórnina eða foringja Bolsjevíka, þá er
farið með þá eins og gagnbyltingarmenn. Talið er, að á
árunum 1917—1920 hafi 8050 klerkvígðir menn verið teknir
af lífi, þar á meðal fjöldi biskupa. í skólunum er vitanlega
bönnuð öll trúarbragða-kennsla, en hins vegar er ríkisheim-
spekin barin inn í unglingana. Á jólum 1924 börðust
Bolsjevíkar ákaft fyrir því, að haldin væru »guðlaus jól«.
Zinoviev komst þá svo að orði: »Vér skulum glíma við
guð drottinn á réttum tíma. Vér munum sigra hann á
hæstu hæðum og vér munum undiroka hann um eilífð,
hvar sem hann leitar hælis«.
Því miður er ekki kleift, rúmsins vegna, að rita hér
meira um þessa óðu ofsókn. En hvernig hefir þá kirkj-
unni reitt af? Áður en byitingin hófst, var þegar orðinn
nokkur órói í rússnesku kirkjunni. Margir kirkjumenn sáu,
að við svo búið mátti ekki standa, og vildu hafa fram
margvíslegar umbætur, sem meiri hluti klerkadómsins vildi
þó hvorki heyra né sjá. Bolsjevíkar hafa notað sér þessa
misklíð kænlega og stutt umbótamenn. Eru því taldar
nokkrar líkur til að kirkjan muni klofna.
En þó er það flestra manna mál, að vald kirkjunnar
yfir sálum manna hafi vaxið til stórra muna á hinum síð-
asta áratug. Auðug, fjörlaus og makráð kirkja er ekki
hættuleg. En féflett og ofsótt kirkja er háskaleg, ekki sízt
i slíku almúgalandi sem Rússlandi. Líklega hefir rússneska
kirkjan veitt fleiri sálir á byltingarárunum heldur en Bolsje-
víkar. En væntanlega hafa þeir unnið það á, að hún verö-
ur aldrei aftur slík sem hún áður var. Bolsjevíkum virðist
áskapað, að öll þeirra framtíðar-áform verði að engu. En
plógjárn þeirra hafa rist í sundur hið gamla, helstirðnaða
þjóðfélag og þar með hafa þeir búið í hendur óvissrar
framtíðar, sem enginn veit, hvað ber í skauti sínu.
14