Muninn - 01.05.1997, Side 61
samþykktur þar fyrr en veturinn eftir. Traust mitt á
Framsóknarflokknum gufaði upp þennan maídag og haustið
eftir fór á sömu Ieið með barnatrúna án sýnilegs tilefnis. Ég
stóð hugmyndalega á berangri, vegarnesti æskuheimilisins
þrotið og við tók leit út í óvissuna. Sextánda aldursárið fór í
endurskoðun á sjálfum mér og tilverunni. Ég stældi við þá
skólafélaga mina fram og aftur sem höfðu gaman af
rökræðum en fast land var hvergi undir fótum.
Stuttu eftir skólabyrjun í fjórða bekk var mér boðið að
koma á svokallaðan leshring hjá Æskulýðsfylkingunni á
Akureyri, en svo hét ungliðahreyfing sósíalista. Ég þáði það
og upp frá því fóru mörg sunnudagssíðdegi í pólitíska
fræðslu- og umræðufundi niðri i húsnæði Sósíalistaflokksins
í Hafnarstræti. Ásamt nokkrum skólafélögum slóst ég með i
kröfugöngu verkalýðsfélaganna i. maí 1953 á Akureyri, þá
kominn inn í raðir þeirrar hreyfingar sem ég hef starfað með
síðan.
Dauðhreinsuð kennarastofa
Það var mikil pólitísk spenna hér á landi eins og úti í
heimi þessi árin. Kalda stríðið var komið langt niður fyrir
frostmark og gustinn frá því lagði inn á vinnustaði og
stofnanir. Flokksskrifstofur „lýðræðisflokkanna" miðluðu
fólki í vinnu suður á Keflavíkurvöli og þá var jafngott að
verða ekki uppvís að röngu hugarfari! Þetta andrúmsloft
grúfði einnig yfir framhaldsskólum landsins og við ráðningar
í opinbera stöður. Kennarastofan í M.A. mátti heita
dauðhreinsuð af fólki með vinstri sinnaðar
stjórnmálaskoðanir, þar til Jón Hafsteinn Jónsson réðist að
skólanum veturinn 1953, nýbakaður verðlaunahafi í
stærðfræði frá Kaupmannahöfn. Líklega var enginn sem gat
keppt við hann um stöðuna, en hafi nemendur vænst
afslappaðrar kennslu frá hans hendi urðu þeir hinir sömu
fyrir vonbrigðum.
Skólameistarí gætti sálarheillar
Skólameistari var á þessum árum Þórarinn Björnsson,
sem tekið hafði við af Sigurði Guðmundssyni árið 1947.
Þórainn var afar vökull stjórnandi, vakinn og sofinn yfir heill
skólans og nemenda eins og hann vissi réttast. Hann hafði
tekið ljúfmannlega á móti okkur bræðrum og fylgdist með
mér sem öðrum í heimavistinni. Þegar það nú spurðist á
kennarastofu að drengurinn frá Hallormsstað væri kominn í
slagtog við þá rauðu kallaði Þórarinn mig á beinið rétt fyrir
jólin. Þar áttum við samtal líklega á þriðju klukkustund þar
sem meistari lýsti miklum áhyggjum yfir sálarheilli minni ef
ég léti ánetjast sósíalistum. Ekki lét ég sannfærast af
fortölum hans þá eða síðar, en samtöl af svipuðum toga átti
Þórarinn við mig öðru hvoru veturna fram til stúdentprófs,
m.a. af ástæðum sem nú skal greina.
Atkvæði greidd með fótunum
Málfundafélagið Huginn var allvel lifandi á þessum árum
og beitti sér fyrir mörgum umræðufundum á vetri. Oft voru
þar á dagskrá pólitísk mál, sem t.d. snerust um hersetuna.
Tillögur voru fluttar og greidd atkvæði um þær, stundum
með fótunum á þann hátt að fólk gekk út sitt hvorum megin
á Sal og var talið við dyrnar svo ekkert færi milli mála. Á
sama hátt var hart barist um formennsku í félaginu. Komið
var að máli við mig um framboð og fór þar fyrir Lárus
Guðmundsson, fráfarandi formaður Hugins og síðar prestur.
Á móti var stillt Heimi Hannessyni síðar lögfræðingi.
Atkvæði féllu þannig að ég náði kjöri með 97 atkvæðum,
fáeinum atkvæðum yfir Heimi.
Formennska í málfundafélaginu var mér talsverður skóli
og ég reyndi að sinna því verkefni eftir getu. Efnt var til
bókmenntakynninga auk málfundanna og bryddað upp á
fleiru til tilbreytingar. Hefð var fyrir að skólameistari sæti í
stjórn málfundafélagsins. Af þeim sökum urðu kynni okkar
Þórarins meiri en ella. Eftir stjórnarfundi spjölluðum við oft
saman og þá átti hann það til að hrakyrða forystumenn
sósíalista. Hann virtist jafnframt trúa því að sumir róttækir
nemendur sætu á svikráðum við sig og skólann. Að þessu
leyti var hann haldinn móðursýki sem segir sitt um
andrúmsloftið á þessum árum. Mér þótti hins vegar nógu
vænt um Þórarin til að erfa þetta ekki við hann.
Að þjóna betur flokknum
Menntaskólinn á Akureyri var góður skóli á þessum árum
eins og löngum fyrr og síðar. Kennaraliðið var
undantekningarlítið traust og studdist við gamlar hefðir.
Þórarinn skólameistari var kennari af lífi og sál og kynntust
allir þeirri hlið á honum sem á annað borð náðu til
stúdentprófs. Einnig í því starfi var viðkvæmnin honum
styrkur gagnvart flestum. [ sjötta bekk leigði ég mér herbergi
úti i bæ hjá öndvegiskonum að Oddagötu 13. Þórarinn sagði
bekkjarfélögum mínum tiðindin þegar þeir heilsuðu upp á
hann um haustið: „Hjörleifur er fluttur út í bæ - til að geta
þjónaó betur flokknum!"
Þetta voru lífleg og góð ár þrátt fyrir kulda og harðar
andstæður í stjórnmálum. Tvívegis hef ég heimsótt minn
gamla skóla til að taka þar þátt í málfundum, nú síðast 5.
mars. Ramminn er annar en forðum en umræðuefnin þrýtur
ekki. Má ég biðja Munin fyrir bestu kveðjur í skólann, lika á
kennarastofuna, frá óforbetranlegum róttæklingi að austan.
Hjörleifur Guttormsson
MUNINN 1997 6l