Iðunn : nýr flokkur - 01.04.1926, Síða 53
IÐUNN
Knut Hamsun.
131
I þessu, sem hér er aðeins lauslega drepið á, er
falinn sá mikli munur, sem er á skáldinu Knut Hamsun
og ýmsum góðum samtímamönnum hans, t. d. johan
Bojer, sem oft er nefndur jafnframt honum. Hver sem
nennir að jafna saman Pan og t. d. Troens Magt eftir
Bojer eða Instu þránni, sem margir kannast við, mun
fljótt finna, að hér er um gerólíkan skáldskap að ræða.
Bojer tekur sálfræði-setningu, og sú setning er síðan
umgerð sögunnar, sem alt miðast við og verður að
lagast eftir. Alt er hér afmarkað, og búinn staður. Hér
er ekki gróska, en snið. Engar persónur, bara gerfi.
Ekki andi né líf, en nóg af bóklærðri speki!
Að lokum er vert að benda á það, að ekkert er fjær
sanni en það að telja frásagnarhátt Hamsuns klúran og
auk heldur siðlausan á köflum. Þeir menn er slíkt lesa
í bókum hans gera það á eigin ábyrgð og vissulega
ekki að ósekju sjálfum sér. Það er rétt, að hann segir
stundum frá mönnum, sem eru allmjög sér um sið, og
auk heldur siðspiltir. En lífspeki Hamsuns er langt of
skygn til þess að það dyljist, hvílíkir spellvirkjar slíkir
menn eru, eða geta orðið, heilbrigðu lífi. Og alt sem
því er fjandsamlegt er honum andstætt — að vísu ekki
af »tendens« heldur af nauðsyn — nauðsyn gróandans!
Þorkell Jóhannesson.