Kirkjuritið - 01.12.1949, Blaðsíða 34
288
KIRKJURITIÐ
Alvarleg veikindi sóttu heimili þeirra hjóna heim, og áttu
þau þrem börnum sínum á bak að sjá. Það andstreymi,
sem mætti séra Vigfúsi, mimdi án efa hafa bugað margan,
lamað þrek og lífsgleði. En séra Vigfús snerist á annan
veg gagnvart erfiðleikunum. Það varð eigi á honum séð
annað en að allt léki jafnan í lyndi, þótt hinsvegar væri
hann tilfinningaríkur og viðkvæmur að eðlisfari.
Og þá vaknar þessi spurning hjá okkur: Hvaða máttur
var það, sem gaf þessum manni þrek til að varðveita þá
lífsgleði og þann kjark, sem einkenndi hann til hinztu
stundar? Hvers vegna var þessi margreyndi öldungur
jafnan hinn glaðasti í kunningjahópnum og hvers vegna
æðraðist hann ekki eða sýndi þreytumörk?
Ég ætla eigi, að ég sé fær um að svara þessum spurn-
ingum, en vil þó nefna tvennt, sem ég veit, að gefið hefir
honum ómetanlegan styrk. Hann var sá gæfumaður að
eignast ágætan lífsförunaut, sem bar með honum byrð-
arnar og stóð við hlið hans í blíðu sem stríðu. 1 langri
og kærleiksríkri sambúð við konu sína, frú Sigurbjörgu
Bogadóttur, fann hann ómetanlegan styrk, því að hjóna-
band þeirra var bæði farsælt og ástríkt.
Hitt atriðið er trúarlíf séra Vigfúsar. Hann var mikill
og einlægur trúmaður, og í Ijósi trúarinnar hefir honum
tekizt að líta rás viðburðanna á réttan hátt. Hann átti
glöggan og vakandi skilning á því, að „vort líf, sem svo
stutt og stopult er, það stefnir á æðri leiðir.“ 1 trúmálum
var séra Vigfús frjálslyndur og víðsýnn, og andi hans
var ætíð síungur, þótt árin væru orðin mörg, á okkar
mælikvarða, sem hann átti að baki. 1 öruggri trúarvissu
lifði séra Vigfús, og í þeirri vissu yfirgaf hann jarðlífið
og hvarf á braut yfir til landsins, sem bíður okkar allra
handan við tjald dauðans. —
Séra Vigfús var mjög listhneigður maður, hafði góða
söngrödd og lék vel á hljóðfæri. Hann kenndi ýmsum að
leika á orgel, þar á meðal núverandi organistum við Hey-
dala- og Stöðvarkirkju.