Kirkjuritið - 01.12.1949, Blaðsíða 62
316
KIRKJURITIÐ
Á hverju jólakvöldi var gamli maðurinn vanur að fara í
kyrrþey út úr borginni með fiðluna sína undir hendinni og
nam ekki staðar, fyrr en hann kom að tré einu, sem stóð þar
bert og blaðalaust úti á víðavangi, undir heiðum vetrarhimn-
inum.
Það var venja hans að bíða þarna rólegur, þangað til hann
sá ekki lengur neinn mann. Þá tók hann fram fiðluna sína og
strauk boganum um fiðlustrengina, og þegar í stað heyrðist
unaðslegur töfrahljómur, sem fyllti kalda vetrarloftið í kring
um hann. Svo hélt hann áfram að leika á fiðluna, og það var
allt í einu eins og tréð fyrir ofan hann vaknaði af svefni og
fór að hreyfast ofurlítið. Hvítir brumhnappar sáust á berum
svörtum greinunum og allt í einu opnuðust þeir og urðu að
yndislegum hvítum blómum. Og hvítu krónublöðin féllu niður
úr trénu og þöktu jörðina, svo að hún var sem klædd í drif-
hvítan kyrtil úr nýföllnum snjó. Og gamli maðurinn hélt áfram
að leika á fiðluna sína, þangað til hvítir ilmandi ávextir héngu
á trénu, þar sem áður voru blómin.
Nú breytti gamli maðurinn um tón í fiðlunni sinni. Það var
alveg eins og hann væri að kalla á einhvern. Og út úr borg-
inni kom hópur af börnum hlaupandi, þau hlógu og dönsuðu
og námu ekki staðar, fyrr en þau komu þangað, sem tréð stóð.
Þar tókust þau í hendur og mynduðu stóran hring og dönsuðu
hringinn í kring um tréð, meðan gamli maðurinn lék í ákafa
á fiðluna sína.
Allt í einu heyrðist hvell nóta, hljómurinn í fiðlunni þagnaði.
Það var eins og gefið hefði verið merki, og í sama bili féllu
hvítir ávextir til jarðar.
Á sama augnabliki slitnaði hringurinn, og börnin hlupu
hvert í kapp við annað til þess að ná í eina af þessum fallegu
hvítu jólagjöfum.
Gamli fiðluleikarinn brosti, þegar hann horfði á börnin snúa
aftur til borgarinnar, hvert með sinn fallega hvíta jólaböggul
undir hendinni. En það bezta við þessar jólagjafir var það,
að hvert barn fékk einmitt í jólagjöf það, sem það hafði helzt
óskað sér að fá.