Nýjar kvöldvökur - 01.04.1956, Síða 9
Nýjqr kvöldvökur
» Apríl—Júní 1956
XLIX. ár, 2. hefti
*
Sverrir Pálsson:
D A rv S A K
Erindi flutt í Gagnfræðaskóla Akureyrar.
I.
Mig langar að kynna ykkur ofurlítið eina
tegund íslenzkra bókmennta, sem lítill sómi
hefir verið sýndur, en er þó harla merkileg-
ur hlekkur í hinni óslitnu festi bókmennta-
sögunnar. Saga þessarar bókmenntagreinar
er í senn byltingasaga og baráttusaga, hófst
um það bil öld eftir að kristni kom á ísland
og sýrir íslenzkan kveðskap enn í dag, þótt
menn geri sér það almennt ekki eins ljóst
og vert er.
Þessari bókmenntategund hefir verið gef-
ið nafnið dansar. Eins og nafnið bendir til,
er það notað um vísur og kvæði, sem sung-
in hafa verið eða kveðin á danssamkomum
miðaldanna. Fátt var um hljóðfæri, a. m. k.
hér á landi, svo að dansfólkið varð sjálft að
sjá um hljóðfall og setning danssporanna
með því að syngja með dansinum. Þá var
eingöngu stiginn hópdans, þar sem allir
héldust í hendur. Var þá annað tveggja, að
fólkið dansaði í löngum röðum eða skipaði
sér í hring. Dansarnir nefndust eftir því
ýmist langdansar eða hringdansar. Þetta
dansform lifir enn víða um Norðurlönd,
þótt ekki sé nema skugginn af alþýðudöns-
um miðalda, t. a. m. má sjá fólk víða um
Svíþjóð dansa hringdans kringum maí-
stöngina á Jónsmessu. En beztu lífi lifir
liringdansinn í Færeyjum, þar sem fólkið
kann kynstrin öll af löngum og miklum
sagnakvæðabálkum, sem sungnir eru undir
færeyska dansinum — án hljóðfæris.
í heiðni kunnu Norðurlandamenn ekki
þá göfugu list siðmenntaðra þjóða að stíga
háttbundinn dans. Sú mennt lærðist fyrst
eftir kristnitöku með nánari samskiptum og
viðkynningu við menningarþjóðir Vestur-
Evrópu. Með danskunnáttunni komu svo
dansakvæðin, sem eðlilegt er. Eins og flest-
ar bókmenntanýjungar síðustu 10 alda
munu dansakvæðin eiga upptök sín á Frakk-
landi. Þaðan bárust þau til Þýzkalands og
Norðurlanda, svo og til Bretlandseyja.
Fræðimenn ætla, að þau hafi borizt til Is-
lands harla óvenjulega leið, þ. e. um Bret-
land og Orkneyjar. Annars er vaninn, að
franskar bókmenntahræringar berist hing-
að boðleiðina Þýzkaland—Danmörk—Nor-
egur—ísland eða Þýzkaland—Danmörk—
ísland.
Snemma höfum við spumir af trúðum