Eimreiðin - 01.01.1929, Qupperneq 80
60
BÓKMENTAIÐJA ÍSL. í VESTURHEIMI
EIMREIÐIN
kné sín frammi fyrir gullkálfi Arons, meðan hún trúir á mátt
göfugra ljóða.
Eins og við má búast, eru sumir þeirra íslendinga, sem
vestur fluttust á bernsku-s'keiði, eða fæddir eru þeim megin
hafsins, farnir að iðka ljóðagerð á enska tungu. Eru þeir þó
fremur fáir, þegar þess er gætt, hve afar-skáldhneigðir íslend-
ingar eru í eðli sínu. Sumum hugsandi mönnum og þjóð-
ræknum hefur jafnvel orðið á að spyrja: Glataðist ljóðgáfan
við flutning manna úr heimalandinu á erlendar slóðir? Fram-
tíðin ein mun svara þeirri spurningu til fulls, en sjálfur trúi
ég því fastlega, að hinn vestur-íslenzki kynstofn eigi eftir að
leggja drjúgan skerf til þarlendra bókmenta, bæði í Kanada
og Bandaríkjum.
Laura G. Salverson, sagnaskáldið, sem áður var um talað,
er líka Ijóðskáld á ensku. Kom út eftir hana kvæðabók í
Toronto haustið 1925. Skáldkona þessi er, það er ég til veiL
hin fyrsta og eina af íslendingum, fæddum vestan hafs, sem
hefur gefið út ljóðasafn, frumsamið á ensku. Ekki hef ég séð
þessa bók hennar, en nokkur kvæða hennar hef ég lesið.
Þau bera vott um allmikla skáldgáfu, eru ljóðræn vel, með
undirstraumi næmra tilfinninga.1)
Annar Islendingur, sem mikið fékst við ljóðagerð á ensku, var
Christopher Johnston,2) er lézt á sjúkrahúsi í Chicago á miðju
sumri 1927. Hann var maður um fertugsaldur, fæddur á
íslandi (því miður veit ég eigi hvar), en fluttist til Vestur-
heims á bernskuskeiði. Fjöldi frumsamdra ljóða hans kom út
í ýmsum blöðum vestra, enskum og íslenzkum, mikill hluti
þeirra í >Minneota Mascot*. Ljóð hans eru mjög þýð og
laðandi, á fögru máli og látlausu. I þeim birtist ljóðelsk sáL
er ann fegurðinni í náttúrunni, í mannssálinni og í göfugum
hugsjónum. Christopher þýddi einnig mörg íslenzk ljóð á
ensku, er prentuð voru í íslenzku vikublöðunum í Winnipeg.
Meðal þeirra var uppáhaldskvæðið O, fögur er vor fósturjörð.
Er ljóðum þessum vandvirknislega snúið, og svo var þýðanda
1) Eitt af kvæðum Láru: „Svona er mín ást“, í þýðingu J. P. Páls-
sonar, var prentað í Eimreiðinni XXIX., b!s. 38.
2) Sjá um hann: Lögberg 1927, 51. tölubl.