Tímarit lögfræðinga - 01.11.1980, Blaðsíða 32
um hvað mál fjallar, og annað það, er nauðsynlegt má teljast, til að
hann geti gætt réttar síns á sem bestan hátt. Aðili á rétt á að kynna
sér flest gögn og upplýsingar, sem máli skipta við ákvörðun stjórn-
valds, nema ákvæði um þagnarskyldu varðandi nánar tilgreind atriði
banni.
I Danmörku hafa ekki verið sett almenn stj órnsýslulög og andmæla-
reglan er því ekki almennt lögfest þar, en hana er hins vegar að finna
í einstökum lagaákvæðum. Af þeim eða dómapraksis hefur ekki verið
talið að leiða megi slíka almenna reglu. Víst er þó, að andmælaregl-
unnar er gætt í stjórnsýslunni í Danmörku í ríkari mæli en beinlínis
er mælt fyrir um í lögum (Bent Christensen bls. 402). Fræðimenn
eru og almennt á því, að margt mæli með því, að stjórnvöldum sé
almennt skylt að gæta andmælaréttar aðila, sbr. m. a. Poul Andersen
í „Dansk Forvaltningsret“ (1965) bls. 339 og Niels Eilschou Holm í
doktorsritinu „Det kontradiktoriske Princip“, bls. 357. Hann telur,
að á vissum sviðum stjórnarfarsréttar megi telja andmælaregluna
grundvallarreglu, þó að hún sé ekki lögfest.
1 enskum rétti byggist andmælareglan á rótgróinni réttarvenju.
Er þar um að ræða formreglur, sem taldar eru gilda um málsmeðferð
stjórnvalda og nefndar eru „natural justice“, einkum „audi et alteram
partem“. Fela þessar reglur í sér samskonar atriði og þau, sem er að
finna í stjórnsýslulögum Norðmanna og Svía og gerð hefur verið
grein fyrir.
I bandarískum rétti er andmælaregluna m. a. að finna í svoköll-
uðum „due process“ greinum stjórnarskrár Bandaríkjanna. Skv. 5.
viðaukagrein hennar verður enginn „deprived of life, liberty or
property without due process of law“. Reglan kemur líka fram í 14.
viðaukagrein og í „Administrative Procedure Act“, sem fjalla um máls-
meðferðina fyrir alríkisstjórnvöldum.
III. ISLENSKUR RÉTTUR.
a) Lagaákvæði.
I íslenskum stjórnarfarsrétti gildir engin almenn lögfest regla um
rétt aðila til að tala máli sínu, áður en stjórnvöld taka ákvörðun. Hins
vegar er slík ákvæði að finna í ýmsum lögum. Lagaákvæði þau eru
misjafnlega ítarleg og kveða ýmist á um skýlausan rétt aðilum til
handa eða að andmælaréttar skuli gætt ef við verði komið.
154