Tímarit lögfræðinga - 01.09.1994, Page 60
1. INNGANGUR
Tæpast hefur það farið framhjá nokkrum í lögfræðingastétt að viðamiklar
breytingar voru gerðar á réttarfarslöggjöf samhliða aðskilnaði dómsvalds og
umboðsvalds í héraði á miðju sumri 1992. Hafa þessar breytingar mætt mönn-
um víða í erli hversdagsins.
Hér verður fjallað um nokkur álitaefni er þessum breytingum tengjast. Sum
þeirra snúa beint að efni laganna en þó fleiri að framkvæmd. Því fer fjarri
að um einhvers konar heildarúttekt sé að ræða á nýjum réttarfarslögum heldur
er tilgangurinn sá að koma á framfæri gagnrýni og að vekja umræður um
nokkur afmörkuð atriði. Þar sem höfundar hafa í störfum sínum sýslað við
heimtu fjárkrafna er helst horft til meðferðar slíkra mála. Fyrst verður vikið
að meðferð dómsmála, þá fjallað um aðfarargerðir og að síðustu um nauð-
ungarsölu.
Rétt er að geta þess sérstaklega að um ýmis umfjöllunarefni er vitnað til
greinargerða með frumvörpum að réttarfarslögum og var í slíkum tilvikum
stuðst við útgáfur dómsmálaráðuneytisins.
2. ÁKVÆÐI EINKAMÁLALAGA
Hér er sjónum einkum beint að þeim ákvæðum laga um nteðferð einkamála
nr. 91/1991, EML, sem snúa að meðferð einfaldra skuldamála. Lúta þau atriði
helst að undirbúningi málshöfðunar.
2.1 Frágangur stefnu til birtingar
Einkamálalögin gera ráð fyrir allviðamiklum frágangi á stefnum sem óskað
er birtingar á. I 84. gr. laganna er kveðið á um að sá sem óskar birtingar
verði að afhenda frumrit stefnunnar til þess sem birtir auk samrita fyrir hvern
stefnda og loks umslög fyrir þá og sjálfan sig.
Rök fyrir þessu má ráða af greinargerð með frumvarpinu og eru þau einkum
að skapa verklagsreglur vegna afhendingar stefna í ábyrgðarpósti og auk þess
að óviðeigandi sé að efni stefnu verði þeim kunnugt sem birt er fyrir ef það
er ekki stefndi sjálfur.
Þessu ákvæði 84. gr. um frágang hefur ekki verið fylgt út í æsar enda sá
galli á að til trafala er að afhenda frumritið þeim sem birtir ef stefndu eru
margir og búa í fleiri en einu umdæmi. Ekki ætti að vera mikil hætta á réttar-
spjöllum þó að fellt yrði niður ákvæði um sendingu frumritsins fram og til
baka.
Þá ætti að vera óhætt að sleppa umslagi með nafni stefnanda til endursend-
ingar. Hvorki ætti það að vera ofrausn að ætla birtandanum, sem fær greitt
fyrir að birta, að kaupa umslag né að ætla honum að rita nafn stefnanda og
heimilisfang utan á það. Þá er algengt að lögmenn stefnenda óski birtinga á
mörgum stefnum í einu sem síðan má senda til baka í einu og sama umslaginu
og spara þannig bæði það fé sem umslögin kosta og eina trjágrein.
126