Tímarit lögfræðinga - 01.05.1995, Blaðsíða 59
Reykholtskirkju. En þannig er þetta ekki skráð heldur segir að kirkjan eigi
Geitland með skógi. Eftir situr þá sú óleysta gáta af hverju þörf hafi verið á því
að tilgreina skóginn sérstaklega, ef kirkjan átti landið hvort eð er? Varpa má
fram þeirri tilgátu eða hugmynd að svo kunni að vera vegna þess að um verð-
mætustu réttindin á þessu landsvæði hafi verið að ræða og því sérstök ástæða
talin til að tilgreina þau eða að aðrir aðilar hafi gert tilkall til skógar í Geitlandi,
hugsanlega í formi ítaks, og því talin sérstök þörf á að árétta að eignarréttur
kirkjunnar næði, auk annars, til skógar á svæðinu. Hér er þó ekki um að ræða
vel ígrundaðar kenningar, heldur miklu frekar hugleiðingar eða tilgátur, settar
fram án „frekari ábyrgðar“.
Ástæða er til þess að geta þess að tilgreining á eignarheimildum kirkjunnar yfrr
Geitlandi er nánast óbreytt frá fyrstu heimildum allt þar til því er afsalað 1928.18
Það verður því að telja það orðalag ónákvæmt í forsendum Hæstaréttar þegar þar
segir svo um afsalið frá 1928: „ekki verður ráðið af afsalinu hvort Geitland telst
þar [leturbr. mín] afréttur eða eignarland“. Af afsalinu verður þvert á móti ráðið
að þeir aðilar, sem að því standa, telja sig vera að höndla með landsvæði sem er
háð beinum eignarrétti, hvort sem sú var þó raunin eða ekki. I umræddu afsali
undanskilur ráðherra námuréttindi og vatnsafl, auk þess sem Geitland er beinlínis
kallað jörð, sbr. þinglýsingabók Borgarfjarðar.19 Vissulega er Geitland líka kallað
afréttarland í nefndu afsali, en taka verður undir þá skoðun héraðsdómarans, að sú
tilgreining skeri ekki að neinu leyti úr hinni eignarréttarlegu stöðu landsvæðisins,
enda er hugtakið notað í víðtækri merkingu, samanber skilgreiningu hér að framan.
Þannig getur notkun hugtaksins afréttur bæði vísað til ákveðinnar notkunar, sem
og þess að veita vísbendingar um Ibnn eignarhalds.
Einn þátt málsins enn er áhugavert að skoða, en það eru heimildir um nýt-
ingu Geitlands í gegnum tíðina. Af forsendum héraðsdóms og Hæstaréttar fæst
ekki séð að neinar heimildir þar að lútandi hafí verið fyrir hendi við úrlausn
málsins. Svo sem fram hefur komið hér á undan hafa bæjarrústir fundist í Geit-
landi, en engin byggð virðist vera þar í lok 12. aldar, þegar Geitland er fyrst til-
greint sem eign kirkjunnar í Reykholti. Munnmælasögur hafa þó varðveist
meðal Borgfirðinga um byggð og búskap í Geitlandi mun lengur, allt fram undir
aldamótin 1600.20 Heimildir fyrir slíku eru þó ekki traustar og í Jarðabók Árna
18 í Vilkinsmáldaga frá 1397 er þó talað um Geitland allt með skógi og í landamerkjaskrá frá
1898 er sérstaklega tekið fram að Geitland sé land allt milli Hvítár og Geitár að undanskildu
Torfabœli.
19 Þess ber að geta að á þessum tíma höfðu menn orðið talsvert mótaðar hugmyndir um þann
mun, sem kynni að vera á á eignarhaldi að einstökum landsvæðum, sérstaklega viðurkenndum
eignarlöndum, afréttum og almenningum, m.a. í kjölfar rannsókna og athugana Fossanefndar,
samanber Bjarni Jónsson frá Vogi, Almenningar og afrjettir, nefndarálit meirihluta Fossa-
nefndar(B), Reykjavík 1919.
20 Kristleifur Þorsteinsson: Úr byggðum Borgarfjarðar 1, Reykjavík 1944, bls. 11.
163