Tímarit lögfræðinga - 01.10.1998, Blaðsíða 45
óskilorðsbundna refsivist allt að sex mánuðum, eru í miklum meirihluta allra
þeirra dóma, þar sem slík viðurlög eru dæmd. Hér er því um afar mikið og
vandmeðfarið vald að ræða. Ennfremur verður að líta til þeirrar staðreyndar, að
samkvæmt umræddum lagaákvæðum er fangelsisyfirvöldum falið mat á ýms-
um atriðum, þegar tekin er afstaða til, hvort við beiðni um samfélagsþjónustu
er orðið, án þess að um opna og vandaða málsmeðferð sé að ræða.
Dómstólar standa iðulega frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun að meta, hvort
dæmd verði óskilorðsbundin refsivist eða skilorðsbundin. Verður því að telja
það afar sérkennilegt, að dómstólar eigi þess ekki kost að dæma sakboming í
samfélagsþjónustu, í stað óskilorðsbundinnar refsivistar, telji þeir fyrrnefnda
kostinn frekar við hæfi, á sama tíma og framkvæmdavaldinu er falið endanlegt
ákvörðunarvald um að breyta refsiákvörðun dómstóla og ákveða önnur og væg-
ari viðurlög en dómstólarnir hafa kveðið á um.
Um valdmörk stjórnvalda skal hér getið dóms Hæstaréttar íslands frá 29.
mars 1994, sem er að finna í dómasafni réttarins frá því ári á bls. 748.
I stuttu máli voru málsatvik þau, að yfirfangavörður hafði úrskurðað, að
fangi skyldi sitja í einangrun í 10 daga vegna agabrots (vegna neyslu vímuefnis
innan fangelsis). Var þeim tíma bætt við refsivistina. Byggðist það á 3. mgr. 26.
gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, þar sem sagði meðal annars: „Sá
tími, sem fangi er hafður í einangrun, telst ekki til refsitímans“. í umræddri
lagagrein voru ennfremur ákvæði um, að fyrir brot á reglum fangelsis mætti
beita agaviðurlögum, þ.á m. einangrun, og skyldi forstöðumaður ákveða þau. í
dómi Hæstaréttar segir meðal annars svo:
Samkvæmt 2. gr. stjómarskrárinnar fara dómendur með dómsvaldið. í því hlutverki
felst meðal annars að ákvarða mönnum refsivist vegna ólögmætrar hegðunar, og eru
ekki aðrir handhafar ríkisvalds bærir til þess. Er það grundvallarregla íslensks réttar,
sem meðal annars á sér stoð í 65. gr. stjórnarskrárinnar, að enginn verður sviptur
frelsi sínu nema úrskurður dómara komi til. Jafnframt verður málsmeðferðin, sem
leiðir til þess úrskurðar, að uppfylla ákveðin skilyrði, sem nú koma aðallega fram í
lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en á þeim tíma er getur í málinu í
lögum nr. 74/1974 um sama efni. Akvæði 26. gr. laga nr. 48/1988, er lengdi refsivist
og fékk forstöðumönnum fangelsa ákvörðunarvald þar um, var því í andstöðu við
framangreind ákvæði stjórnarskrár.
Eigi skal því slegið alveg föstu í greinarkorni þessu, að áðurnefnd löggjöf
stangist á við 2. gr. stjómarskrárinnar eða 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála
Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar eiga dóm-
stólar úrskurðarvald um embættistakmörk yfirvalda og þar á meðal, hvort lög
era að efni til andstæð ákvæðum stjómarskrár. Á hinn bóginn tel ég augljóst, að
slíkt fyrirkomulag er með öllu óeðlilegt og samrýmist ekki nútímaviðhorfum í
réttarfari og stjórnskipunarrétti.
Til þess að taka upp fyrirkomulag, er gengur þvert á það, sem tíðkast í þeim
Evrópulöndum, þar sem samfélagsþjónusta hefur verið lögleidd sem ein tegund
213