Tímarit lögfræðinga - 01.12.2003, Page 43
anir sínar fyrir dómi. Ákvæðið lagði hins vegar fortakslaust bann við fyrir fram
tálmunum við prentfrelsinu og nefndi sérstaklega ritskoðun í því sambandi í
ljósi reynslunnar frá einveldistíma. Prentfrelsisákvæði 54. gr. stjskr. sótti fyrir-
mynd sína til þágildandi 86. gr. dönsku grundvallarlaganna frá 1866 sem reynd-
ar kvað á um að ritskoðun mætti aldrei innleiða á ný. Lágu ríkar ástæður að baki
því að afdráttarlaust bann var þar lagt við ritskoðun þar sem virk ritskoðun, þ.e.
fyrir fram yfirlestur alls prentaðs máls, hafði farið fram af hálfu einveldisstjórn-
ar í Danmörku allt fram til loka einveldistíma. Það má því segja að í ljósi sögu-
legra forsendna sem lágu að baki prentfrelsisákvæðinu í dönsku grundvallarlög-
unum hafi eitt helsta markmið þess verið að vernda hið formlega prentfrelsi og
afnema fyrir fram settar hömlur við útgáfu prentaðs máls en vernd hins efnis-
lega prentfrelsis hafi ekki verið sérstakt markmið.6
Þótt reglur væru settar hér á landi á einveldistíma með danskri tilskipun frá
1799, sem mælti fyrir um að ritskoðun skyldi fara fram og vera í höndum lög-
reglustjómarinnar, virðast þær og síðari reglur um framkvæmd ritskoðunar
aldrei hafa komist í framkvæmd.7 Því má segja að þau sögulegu rök og mark-
mið sem stefnt var að með prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, að afnema rit-
skoðun og banna til framtíðar, hafi ekki átt alls kostar við hér á landi.
2.2 Gildissvið prentfrelsisákvæðisins og heimildir til eftirfarandi
takmarkana á tjáningarfrelsi
í ljósi hins sögulega uppruna og afdráttarlauss orðalags prentfrelsisákvæðis-
ins var almennt litið svo á fram á síðari hluta síðustu aldar að vemd þess væri
bundin við þann eina tjáningarhátt sem getið var í ákvæðinu. Þessi skoðun
Olafs Jóhannessonar kom skýrt fram í riti hans Stjómskipun Islands sem kom
út árið 1960:
72. gr. tekur eigi til tjáningatfrelsis almennt. Hún á aðeins við um einn tiltekinn
tjáningarhátt. Ákvæði 72. gr. tryggja mönnum aðeins rétt til að láta í ljós hugsanir
sínar á prenti eða með öðrum hætti sem jafnað verður til prentunar, sbr. 1. 57/1956.
72. gr. myndi því t.d. taka til fjölritunar og ljósprentunar. Á hinn bóginn á 72. gr. ekki
við um aðra birtingarháttu, svo sem kvikmyndasýningar, sbr. um skoðun á þeim, 2.
mgr. 41. gr. 1 29/1947, leiksýningar og aðrar opinberar sýningar, svo sem ljósmynda,
málverka- og höggmyndasýningar, sbr. um athugun á þeim, 1. mgr. 41. gr. 1. 29/1947
og útvarpssendingar, sbr. 1. 68/1934, þar sem rfldsstjóminni er veittur einkaréttur til
að reka útvarp hér á landi. Og í 5. gr. síðast nefndra laga er útvarpsráði sérstaklega
falið ákvörðunarvald um það, hvað látið er koma fram í dagskrá. 72. gr. stjskr. tekur
eigi heldur til fyrirlestra eða annarra rœðuhalda. Skýringin á því, að 72. gr. er ein-
skorðuð við birtingu á prenti, er fyrst og fremst sú, að sá birtingarháttur var tíðastur
og skipti langmestu máli á þeim tíma er stjómarskrárákvæðið varð upphaflega til.
6 Alf Ross og Ernst Andersen: Dansk statsforfatningsret II, bls. 193. Sbr. einnig Henrik Zahle:
Dansk Statsforfatningsret 3, bls. 61.
7 Olafur Jóhannesson: Stjómskipun íslands, bls. 470.
377