Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1984, Blaðsíða 18
16
Árbók Háskóla íslands
Afhending prófskírteina 22. október 1983
Agœtu kandidatar, góðir gestir og há-
skólamenn.
Það segir sína sögu, að brautskráning að
hausti hefur nú verið flutt úr hátíðasal
háskólans yfir í Háskólabíó. Hefur það
vart farið fram hjá neinum, að háskóla-
nemum hefur fjölgað um þriðjung á þrem-
ur— Ijórum árum, en samt hefur tala
brautskráðra frá Háskóla íslands verið
nær óbreytt. Nú fer hins vegar hið aukna
aðstreymi að skila sér í meira útstreymi,
eins og vera ber. Auðvitað vill háskólinn
skila sem flestum frá sér. Með veitingu
prófgráðu tryggir hann ákveðin gæði
menntunar, en það fer að sjálfsögðu m. a.
eftir mannafla, aðstöðu og Qárveitingum
hverju sinni og svo ágæti efniviðarins —
nemenda — hve mikil „framleiðsluafköst-
in“ verða.
Ég ætla ekki að ræða þennan þátt há-
skólastarfs frekar að þessu sinni. Mig lang-
ar hins vegar að fara nokkrum orðum um
þær breytingar sem eru að verða á háskól-
um eða fyrirsjáanlegar eru á þeim. Þessar
breytingar eiga vitaskuld rót sína að rekja
til þess, að þjóðfélögin eru á hreyfingu,
m. a. vegna hagnýtingar á nýrri tækni og
þekkingu sem oft er komin frá háskólun-
um. Því er um að ræða hringrás eins og í
efnahagslífinu, þar sem stundum er erfitt
að greina upphaf og endi, orsök og afleið-
ingu.
Eftir því sem framfarir eru örari þeim
mun fyrr úreldast hugmyndir og þekking.
Þetta táknar ekki að það taki því ekki að
afla sér þekkingar eða miðla henni. Hins
vegar bendir þetta til þess, að reisa eigi
nám á traustum fræðilegum grunni og
sjálfstæðri hugsun nemandans.
Vegna þess að jafnframt ber að leitast
við að tengja fræðin við nýjustu tækni og
vísindi, verður oft erfitt að meta hvað taka
skal með af námsefni og verklegum æfing-
um í tilteknu námi. Reyndar held ég að
tilhneiging sé til að auka námsefni og
hraða yfirferð, þar sem samanlagður þekk-
ingarforði eykst stöðugt svo og fjölbreytni
þeirra starfa sem bíða nemenda að námi
loknu. Tengsl háskóla og atvinnulífs eru
því til umræðu víða um heim um þessar
mundir, bæði í einstökum löndum og al-
þjóðasamtökum.
Ástæður þessa eru einkum þær, að dreg-
ið hefur úr hagvexti og atvinnuleysi hefur
vaxið, jafnframt því sem samkeppni hefur
harðnað og ýmsar þjóðir hafa ekki getað
haldið stöðu sinni í fremstu röð á sviði
tækninýjunga. Samtímis hafa miklar
sviptingar átt sér stað vegna nýrra viðhorfa
um orkuöflun og orkuverð. Þannig er t. d.
mikill hörgull á verkfræðingum á þessu
sviði í Noregi og Bandaríkjunum.
Við þessar aðstæður er því annars vegar
litið til háskóla sem sökudólga, en hins
vegar reynt að ná þaðan vinnuafli strax
eða siðar og njóta góðs af rannsóknum sem
þarfarafram.
Ef við lítum í eigin barm, er greinilegt að
Háskóli íslands hefur fyrst og fremst séð
atvinnuvegunum fyrir menntuðu starfsliði
á ýmsum sviðum. Einnig hafa háskóla-
kennarar tekið að sér margs konar störf
sem koma atvinnuvegunum að gagni. Þeg-
ar rætt er um tengsl iðnaðarins við háskól-
ann, hygg ég að aðallega séu hafðar í huga
þjónusturannsóknir og ráðgjöf, sem vissu-
lega kveður nokkuð að, en vilji er til að
auka.
Víða úti í heimi hafa sprottið upp sér-
stök fyrirtæki við háskólana til að þróa
nýjar hugmyndir, og samstarf milli sveit-
arfélaga og háskóla hefur aukist. í þessa átt
stefnir einnig hér á landi. Reyndar er þegar
hafið samstarf milli Háskóla íslands og
Reykjavíkurborgar til eflingar háþróuðum
tækniiðnaði o. fl. Unnið er að ýmsum