Hlín - 01.01.1955, Side 130
128
Hlin
og reiðpilsið fyrir ábreiðu. — Ekki man jeg hvernig jeg svaf
þarna inst í tjaldinu. — Snemma næsta morgun var lagt af stað
í indælu veðri. — Venjulega tekur það marga tíma yfir Sandinn,
og í þetta sinn vorum við 14 tíma suður í Arnarfell, þar átti næsti
náttstaður að vera. — Astæðan fyrir þessari tímalengd var sú,
að einum manninum varð ilt á miðri leið, og þurfti að reiða hann
um tíma. — Ekki var þá búið að varða Sandinn, og engar götur,
aðeins stefnt suður. — Það var glampandi sólskin og yndislegt að
sjá jöklanna á milli, og var það sannarlega fögur og tilkomumikil
sjón. — Yfir ána fórum við í fleiri kvíslum, stutt frá Arnarfelli, —
I Arnarfelli var fagurt um að litast: Fellið fagurgrænt upp í topp
og jökulhringur að vestan. — Suður á sljettunum var urmull af
álftum þar á tjörnunum. Þær voru þá í sárum, og gátu því ekki
haft sig til flugs, en fallegur var sá hópur. — Næsti áfangi var suð-
ur að Sóleyjarhöfða, komum við þar kl. 2, og urðum að setjast
þar að og bíða eftir mönnum sunnan úr Hreppum, sem áttu að
fara í göngur, og með þeim áttu 3 af samferðamönnum mínum
að fara. — Næsta morgun var síðasti áfanginn til bygða. — Þá
vorum við aðeins 3. — A næstefsta bænum stönsuðum við og
fengum kaffi. Þótti mjer það furða, að okkur, sem komum af fjöll-
um ofan, skyldi vera borið aðeins kaffi og kandís, en ekkert
brauð, því hafði jeg ekki vanist í minni sveit, en þetta var siður
á Suðurlandi þá.
Þá var jeg komin í Suðurland, búið sólskinið, rigning og súld,
og jeg orðin áttavilt, og el?ki fanst mjer fallegt um að litast. —
Þó var haldið áfram og næst áð á Stóranúpi. Þar talaðist svo til,
að jeg yrði eftir, þar til rjettað yrði, gert ráð fyrir að eitthvað úr
Reykjavík yrði í rjettunum eftir venju, og gæti jeg þannig feng-
ið samfylgd. — A Stóranúpi var mjer tekið ákaflega vel. Þar
var í alla staði fyrirmyndarheimili, hjónin stór-höfðingleg og í
alla staði glæsileg. Síra Valdemar, þessi stórgáfaði maður, var
kátur og spaugsamur, eins og ungur væri, og stríddi mjer á því,
að við Þingeyingar tryðum aðallega á Guðmund Friðjónsson,
sem þá var nýlega farinn að láta á sjer bera.
Móðir síra Valdemars lá þá rúmföst, mjög gömul orðin, vildi
hún vera að lána mjer, til að lesa, ljóð eftir son sinn. -—• Jeg
galgopi, sem jeg var, hafði þá ekki vit á að meta alt það fagra
og göfuga, sem fram kemur í öllum hans sálmum og ljóðum. —
Þar eigum við dýrmætan fjársjóð, íslendingar.
Víst hef jeg verið þarna eina 3 daga, og var mjer sýnt það
merkilega, sem þar var að sjá, og sagði presturinn mjer margt
af jarðskjálftunum, sem þar geysuðu nokkrum árum áður, og