Hlín - 01.01.1955, Qupperneq 139
Hlin
137
ur og einnig mætti ríkja í blessaða landinu okkar, þá yrði dásam-
leg dagrenning.
Norðlensk sveitakona skrifar á jólaföstu 1954: — Jeg þakka
þjer grein þína: Viðhorf gamla fólksins, í „Hlin“. — Jeg hafði
einmitt hugsað þetta sama, að það gæti orðið of mikið af því, eins
og öðru, að vilja helst koma öllum á einhver hæli. — Eðlilegast að
gömlu hjónin sjeu á sínu eigin heimili og áfram hjá börnum sín-
um, eða öðrum nánustu ástvinum. — Og mjer hefur sýnst það
muna um gamla fólkið með þennan brennandi áhuga að hjálpa
áfram heimilinu með öllu móti: Spinna og prjóna, hugsa um
barnabörnin, kenna að lesa og svo margt og margt. — Gamla fólk-
inu líður áreiðanlega best meðan það finnur að það getur gert
eitthvað til gagns. — Mjer finst að æska landsins hafi mikils
mist, ef afi og amma eru ekki lengur í heimilinu. — Það eru
margir, sem eiga sínar ljúfustu minningar frá afa og ömmu, um
leið og frá föður og móður. — Já, elli og æska á vel saman, og
best að sá hugsunarháttur haldist við, að því beri skylda að
hlynna hvað að öðru. — Elliheimilin eru auðvitað ágæt fyrir þá,
sem ekki eiga annars úrkosta.
Alt gott að frjetta frá okkur. — Núna farnar að berast smájóla-
sendingar frá börnum og öðrum ástvinum. — Jólabrjefin fáum við
aðallega með pósti á morgun. Það hugsar heim blessað fólkið, sem
fjarri er, og vill alt til gleði gera þeim, sem heima sitja, og við
hlökkum til jólanna. — Guð gefi að þau geti orðið gleðileg um
alla jörð!
Unglingspiltur skrifar haustið 1953: —- Jeg tók sæmilega gott
gagnfræðapróf í vor og hef góða atvinnu í sumar, ráðgeri svo að
fara í Samvinnuskólann í haust, ef jeg næ prófi.
Mjer varð ekki um sel á dögunum, þegar jeg fjekk brjef frá
skólanum, þar sem nemendum er gert að skyldu að þreyta próf
í námsgreinum, sem mjer, því miður, voru ekki vel kunnar áður.
— Það er ýmislegt í kristnum fræðum og bókmentum Islendinga.
— Brjefritarinn segir, að það sje ekki tilgangurinn að gerast
sálusorgari eða þ. 1., en það sje ekki vansalaust, að ungt fólk
kunni ekki skil á aðalatriðum kristinnar trúar og á þjóðlegum bók-
mentum.
Við eigum að kunna utanbókar: Faðir vor, hin 10 boðorð Móse,
Þjóðsöng Matthiasar, Fánasöng Einars Benediktssonar, Útfarar-
Ijóð Hallgrims Pjeturssonar og „Hvað er svo glatt“, eftir Jónas
Hallgrímsson. — Ennfremur er ætlast til, að væntanlegir nem-
endur hafi lesið Njálu með athygli, geti rakið söguþráðinn og gert
grein fyrir æfiatriðum helstu söguhetjanna.