Sjómaðurinn - 01.12.1940, Side 41
S JÓM AÐURINN
33
Stjáni blái bjóst til ferðar,
bundin skeið í lending flaut.
Sjómenn spáðu öllu illu:
Yzt á Valhúsgrunni braut,
kólgubólginn klakkabakki
kryppu upp við hafsbrún skaut.
Stjáni setti stút að vörum,
stundi létt og grönum brá,
stakk í vasann, strauk úr skeggi,
steig á skip og ýtti frá,
hjaraði stýri, strengdi klóna,
stefndi undir Skagatá.
Æsivindur lotulangur
löðri siglum hærra blés,
söng í reipum, sauð á keipum,
sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði fyrir Keilisnes.
Sáu þeir á Suðurnesjum
segli búinn lítinn knör
yfir bratta bylgjuhryggi
bruna hratt sem flygi ör,
— siglt var hátt og siglt var mikinn
sögðust kenna Stjána för.
Vindur hækkar, hrönnin stækkar,
hrímgrátt særok felur grund,
brotsjór rís til beggja handa,
brimi lokast vík og sund.
Stjáni blái strengdi klóna,
stýrði beint á drottins fund.
Drottinn sjálfur stóð á ströndu:
Stillist vindur! Lækki sær!
Hátt er siglt og stöðugt stjórnað,
stýra kantu, sonur kær.
Höi*ð er lundin, hraust er mundin,
hjartað gott, sem undir slær.
Heill til stranda, Stjáni blái,
stíg á land og kom til mín.
Hér er nóg að stríða og starfa,
stundaðu sjó og drektu vín.
Kjós þér leiði, vel þér veiði,
valin skeiðin bíður þín.
Horfi ég út á himinlána,
hugur eygir glæsimynd:
Mér er sem ég sjái Stjána
sigla hvassan beitivind
austur af sól og suður af mána,
sýður á keipum himinlind.