Morgunblaðið - 13.02.2009, Blaðsíða 33
Minningar 33
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. FEBRÚAR 2009
afi henni opnum örmum, svo vel að
Karen heillaðist af og uns yfir lauk
var Karen nánast farin að líta á þig
sem eigin ömmu, svo yndisleg
varstu við hana. Alltaf spurðirðu
hvernig hún hefði það og skilaðir
alltaf kveðju til hennar, henni þótti
mjög vænt um það. Hún kveður þig
nú, með söknuði.
Við biðjum Guð almáttugan um
að blessa minningu þína, að styðja
og styrkja Sigurð afa í þeirri miklu
sorg sem hann á við að etja um
þessar mundir og að hann finni frið
og huggun í sorg sinni, hann á mjög
erfitt þessa dagana og vona ég að
við niðjar hans verðum öll dugleg
að hugsa um hann þangað til hans
tími kemur. Blessuð sé minning
þín, elsku amma! Við kveðjum þig
nú með trega, en þó með þakklæti
allt!
Með ástarkveðju,
Kristján Snær og Sigurjón.
Elsku amma.
Það eru forréttindi fyrir borg-
arbörn eins og okkur tvær að hafa
átt samastað í sveitinni ykkar afa
innan um dýrin og náttúruna. Við
systurnar erum afar þakklátar fyrir
þær minningar og munum halda í
þær lengi. Ísköld mjólk, hlaðborð af
mat, heimalningar, heyskapur, fal-
legir steinar, góðlegt bros og hlýtt
faðmlag er meðal þess sem við
minnumst þegar við hugsum til þín.
Okkar tími saman er liðinn en and-
artakið lifir að eilífu. Megi Guð
styrkja þig, elsku afi, í sorg þinni.
Þar sem djúpa dalinn taka
dimmblá fjöll í arma sterka
og í brekkum birkilundir
blöðin rétta móti varma,
þar sem tærar, litlar lindir
ljósan þráð úr gulli spinna,
meðan eygló yfir brennur,
en um nótt úr skíru silfri, –
langar mig að minnast þín.
(Hulda)
Hjartanskveðjur, þínar
Sólrún og Eyrún.
Guð blessi Ellý, hetjuna okkar, og
fjölskyldu. Far í friði, kæri vinur.
Bjarni Bjarnason
og Emilía Ólafsdóttir.
Höfðingi er fallinn frá. Þegar við
hjónin minnumst Bjarna köllum við
fram mynd frá ferð okkar með
Bjarna og Ásgeiri syni hans til Flór-
ída. Bjarni tók gestgjafahlutverkið
alvarlega og sá til þess að ferðin var
okkur ógleymanleg.
Morgunleikfimi með Valdimar
Örnólfs, Bjarni fremstur í flokki.
Bjarni að setja tónlist á, og það
fór ekki á milli mála að þar fór mað-
ur með smekk fyrir góðri tónlist.
Honum var mikið í mun að fara
með okkur á sína uppáhaldsstaði.
Hann var hreinskilinn og lét okkur
heyra það þegar honum fannst við
vera að bruðla um of, eyða í dýran
bjór eða steik. Alltaf gekk hann frá í
eldhúsinu og vildi ekki þiggja aðstoð
okkar, útskýrði fyrir okkur að hann
vildi hafa hlutina á ákveðnum stöð-
um og einfaldasta leiðin til þess væri
að ganga frá sjálfur, svo brosti hann
út í annað.
Ég var tólf ára þegar ég flutti á
Seltjarnarnesið og kynntist Ásgeiri.
Við urðum strax heimagangar hvor
hjá öðrum og mynduðust sterk
tengsl milli mín og Bjarna þó svo að
ég hafi verið skíthræddur við hann
til að byrja með. Aðrir vinir mínir
töldu hann svaka strangan en ég
fann það fljótlega að þarna fór mað-
ur sem unni fjölskyldu sinni framar
öllu, var með sterka útgeislun og
hjarta sem var viðkvæmt og hlýtt.
Hann talaði alltaf við mig eins og
faðir minn hefur talað við mig, með
umhyggju og virðingu, og mat ég
það mikils. Hann tók konu minni
einnig vel enda öndvegis kvenkost-
ur. Ég þakka fyrir að hafa kynnst
Bjarna og minnist hans alltaf með
hlýhug.
Elsku Ellý, Anna Rósa, Ásgeir,
Guðrún, Regína og fjölskyldur, Guð
veri með ykkur á þessum erfiðu tím-
um. Hugur okkar hjóna er hjá ykk-
ur.
Halldór Ragnar og Anna.
Yndislegi pabbi,
þakka þér fyrir allt
sem þú hefur kennt
okkur og gefið, en
mest þó fyrir að vera
sá sem þú varst.
Elskulegur pabbi, við systur erum
ákveðnar í að vera þakklátar fyrir
það sem við vorum svo lánsamar að
fá og að vera ekki reiðar yfir því sem
við fáum ekki breytt. Við höfum ver-
ið ótrúlega heppnar að fá svo ynd-
islega foreldra. Þið voruð með ein-
dæmum samhent hjón, vinir og
félagar. Ekki er hægt að alast upp
við betri aðstæður. Pabbi var okkur
systrum svo kær, hann náði að halda
alveg sérstöku sambandi við okkur,
hverja fyrir sig.
Það eru margar minningar sem
koma upp í huga okkar, öll ferðalög-
in sem við fórum í saman og þá að-
allega til útlanda, allar góðu stund-
irnar á laugardagskvöldum þegar
við systur og mamma klæddum okk-
ur upp því að þú varst að elda eða
grilla fyrir okkur stórsteik, en eng-
inn veitingastaður hefur getað fram-
reitt aðrar eins kræsingar að okkar
mati. Þú varst fyrirmyndarkokkur
og það var ótrúlega gaman að koma
með vini í mat til ykkar mömmu.
Reyndar var alltaf fjörugt á heimili
okkar því allir okkar vinir hafa ávallt
verið þar velkomnir og hafa sóst eft-
ir því að koma til ykkar.
Þú, elsku pabbi okkar, varst stór-
myndarlegur maður og mjög sjarm-
erandi og það fengum við systur að
heyra óspart í gegnum tíðina, þér
var jafnvel líkt við kvikmynda-
stjörnu.
Þú varst frábær afi, gafst þér tíma
til að spjalla við krakkana, smíða
með þeim og fara á rúntinn með þau,
á verkstæðið, í fjöruferðir og auðvit-
að að kaupa ís. Þið áttuð góðar
stundir í bílskúrnum þar sem allt var
til alls til að mála, smíða og fl. og þar
var nú alltaf hægt að finna smákökur
og annað góðgæti. Þú keyptir ekki
mikið af DVD-myndum en keyptir
þó Charlie Chaplin-disk sem þú
horfðir margoft á með þeim og hlóst
þá auðvitað manna mest.
Þú hélst á Baltasar Þór undir
skírn nú í sumar, mikið eigum við
góðar minningar frá þeim degi, þó
svo að þú værir orðinn veikur aftur
var athöfnin falleg og þú stóðst þig
með prýði. Við vitum að þú verndar
og styður Baltasar okkar og auðvit-
að krakkana alla um ókomna tíð.
Sumarbústaðaferðir okkar fjöl-
skyldunnar voru margar og
skemmtilegar og þá sérstaklega
ferðir í Krummshóla, alltaf fórum við
öll saman stórfjölskyldan. Það voru
skemmtilegar ferðir þar sem borð-
aður var góður grillmatur fram-
reiddur af meistaranum, spilað og
skemmt sér.
Síðustu jól og áramót verða okkur
alltaf hugleikin, þú varst mikið veik-
ur, elsku pabbi, en barst þig vel, við
erum þakklátar fyrir að hafa haft
þann tíma með þér. Elsku mamma,
þú sinntir honum pabba af einstakri
ástúð, kærleika og umhyggju. Þú
gerðir honum kleift að vera heima
umvafinn ást og hlýju þinni allt til
síðasta dags. Þú hefur sýnt ótrúleg-
an styrk og dugnað.
Pabbi, við systur lofum þér að
hugsa vel um mömmu, fjölskyldur
okkar og hver aðra.
Stelpurnar þínar,
Andrea og Ásdís.
Stórt skarð er höggvið í raðir okk-
ar í Sóknarnefnd Lindasóknar við
fráfall Þorvaldar Ólafssonar. Á
stofnfundi sóknarinnar í febrúar
2002 bauð Þorvaldur sig fram til
sóknarnefndarstarfa og gaf þá til
kynna að honum væri umhugað um
Þorvaldur Ólafsson
✝ Þorvaldur Ólafs-son fæddist í
Reykjavík 21. nóv-
ember 1949. Hann
lést á Landspít-
alanum í Reykjavík
20. janúar síðastliðinn
og var jarðsunginn
frá Lindakirkju í
Kópavogi 30. janúar.
að leggja byggingu
kirkjunnar lið. Hann
var kjörinn til starfa
og sinnti því starfi
fram til hinstu stund-
ar. Fljótlega fékk
hann það verkefni að
sinna varaformennsku
í sóknarnefndinni.
Þegar kom að því að
velja í byggingarnefnd
kom ekkert annað til
greina en Þorvaldur
yrði formaður hennar.
Þessum störfum sinnti
hann ávallt af mikilli
alúð, áhuga og einstakri kunnáttu
enda húsasmíðameistari að atvinnu
og fagmaður fram í fingurgóma.
Þorvaldur skilur eftir sig margar
bjartar og góðar minningar með
okkur sem vorum svo lánsöm að fá
að kynnast honum og starfa með
honum. Þorvaldur var heill í öllu því
sem hann tók að sér, úrræðagóður
og hafði næma tilfinningu fyrir meg-
inatriðunum, kunni að greina kjarn-
ann frá hisminu. Hann var mjög
þægilegur maður, einlægur og hlýr í
viðmóti. Á fundum var það til dæmis
föst regla hjá honum að taka þétt-
ingsfast og af hlýju í höndina á
hverjum og einum. Ef einhver kom
eftir að fundur var hafinn þá stóð
Þorvaldur ætíð upp til þess að bjóða
viðkomandi velkominn með handa-
bandi. Oftast var stutt í bros og
glettni sem þó vék fyrir yfirvegun og
festu þegar ástæða var til. Bygging
Lindakirkju var Þorvaldi hjartfólgið
verkefni sem hann leiddi af öyggi til
hinsta dags. Það var okkur sem
störfuðum með Þorvaldi mikið gleði-
efni að hann skyldi eiga þess kost að
geta verið viðstaddur vígslu fyrsta
hluta Lindakirkju, hinn 14. desem-
ber sl. en á þeim tíma hafði heilsu
hans hrakað verulega.
Útför Þorvaldar verður fyrsta út-
förin sem gerð er frá Lindakirkju.
Þykir okkur dýrmætt að fá að kveðja
hann frá kirkjunni sem hann átt svo
mikinn þátt í að væri reist. Við þökk-
um Guði samfylgdina við Þorvald
Ólafsson og hans mikla og óeigin-
gjarna starf í þágu Lindasóknar. Við
finnum að við erum ríkari eftir að
hafa kynnst honum. Genginn er
mætur maður og biðjum við góðan
Guð að styðja og hugga Sigríði, eft-
irlifandi eiginkonu Þorvaldar, dætur
þeirra og ástvini. Minning Þorvaldar
mun lifa.
Fyrir hönd sóknarnefndar og
byggingarnefndar Lindasóknar,
Arnór L. Pálsson, formaður.
Þegar ég minnist Þorvaldar kem-
ur upp í hugann æskuheimili okkar í
Keflavík. Þorvaldur var fæddur árið
1949 og ég fjórum árum síðar. Það
sem einkenndi Keflavík á þessum ár-
um var gríðarlegur fjöldi barna og í
hverri götu voru leikfélagar og vinir.
Og í þessum suðupotti, sem Keflavík
var, varð til sköpunargleði, kraftur
og bjartsýni, en þessi lýsingarorð
fóru Þorvaldi vel. Tíðarandinn á
þessum árum var þannig að börn
fóru snemma til vinnu, og var Þor-
valdur þar engin undantekning. Ég
stóð spenntur á hliðarlínunni og
horfði á Þorvald oft þreyttan en
blómstra samt sem áður. Eitt það
fyrsta sem hann keypti sér var út-
varp í herbergið okkar og sjónvarp
fyrir heimilið. Við krakkarnir í göt-
unni höfðum þann sið að hópast að
stofuglugga Sigga og Stínu á númer
10 og horfa á okkar uppáhaldsþætti
en nú fækkaði þar um tvo.
Þorvaldur átti fjölmörg áhugamál
á þessum árum, hann smíðaði til
dæmis brjóstnælur og hálsmen úr
tekki handa stelpunum. Ljósmynd-
un átti hug hans alla tíð. Ungur tók
hann mikið af myndum sem hann
framkallaði sjálfur. Mótorhjólið og
þegar aldur leyfði bíllinn. Að loknu
námi í trésmíði starfaði Þorvaldur
hjá slökkviliði Keflavíkurflugvallar
og í hjáverkum byggði hann hús
þeirra Siggu. Þorvaldur fann ástina
sína snemma, hana Sigríði Kjartans-
dóttur og með forsetabréfið í vas-
anum gengu þau í hjónaband hún
átján og hann tvítugur. Samband
þeirra var sterkt og farsælt. Þor-
valdur og Sigga stofnsettu Tré-
smiðju Þorvaldar Ólafssonar og var
íbúð þeirra, sem var í bílskúr, breytt
í trésmíðaverkstæði. Faðir okkar
Ólafur Þorvaldsson og ég störfuðum
með Þorvaldi í um tuttugu ár. Og
litla verkstæðið breyttist í glæsilega
verksmiðju áður en yfir lauk. Það er
með þakklæti og virðingu sem ég
kveð bróður minn Þorvald. Þakklæti
fyrir ekkert nema góðar minningar.
Elsku Sigga, Krissa, Sigurjón,
Andrea, Bjarni, Ásdís og Bjössi. Guð
gefi ykkur styrk á þessari erfiðu
stundu. Megi minningin um einstak-
an mann og föður lifa.
Karl Emil Ólafsson
Þorvaldur Ólafsson var ekki bara
glæsilegur á velli, hann var líka ein-
staklega ljúfur og hlýr vinur. Við
Krissa dóttir hans kynntumst þegar
fjölbrautaskólaárin voru að renna
sitt skeið á enda en á heimili þeirra
Þorvaldar og Siggu voru vinir dætr-
anna alltaf aufúsugestir. Ég minnist
þess að þau hjón voru einhverju
sinni nýkomin heim frá útlöndum,
sólbrún og sæl en við vinkonurnar
höfðum komið heldur fölar undan
vetri. Þorvaldur bauðst til að hrista
handa okkur drykk í tilefni þess að
leiðin lá út á lífið síðar það kvöld.
Drykkurinn sem hann galdraði fram
handa okkur var að sjálfsögðu
„White lady“ í stíl við litaraftið, bor-
inn fram af miklum virðuleika í
bland við glettni eins og Þorvaldar
var von og vísa.
Þorvaldur og Sigga urðu ekki síðri
vinir mínir en Krissan þeirra og
áhugi þeirra á því sem maður var að
bjástra við á hverjum tíma sannur og
einlægur. Ég veit að kletturinn hún
Sigga verður áfram á sínum stað og
að maður á kaffibolla vísan þegar
maður á leið um.
Það vakti strax athygli mína hvað
Þorvaldur og Sigga voru einstaklega
samhent í öllu sem þau tóku sér fyrir
hendur og hversu mikil vinátta og
virðing einkenndi fjölskyldulífið allt.
Krissa vinkona mín hefur verið stór
hluti af þeirri samheldni enda hefur
hún unnið með pabba sínum frá því
hún var barn að aldri. Vönduð sér-
smíði var þeirra sérgrein og verður
örugglega áfram í höndum þeirra
Krissu og Sigurjóns. Alltaf fékk
maður hlýjar móttökur á verkstæð-
inu og alltaf gaf Þorvaldur sér tíma
til að smella kossi á kinn og spyrja
frétta. Þeir kossar verða víst ekki
fleiri í bili.
Ég hitti Þorvald síðast að kvöldi til
um miðjan desember. Hann hafði
barist hetjulega við krabbamein um
þó nokkurt skeið og var heldur af
honum dregið en dagurinn hafði ver-
ið viðburðaríkur. Safnaðarsalur
Lindakirkju hafði verið vígður fyrr
um daginn en hin síðustu ár sat hann
í sóknarnefnd og byggingarnefnd
kirkjunnar sem nú rís í Hádegishól-
unum í Kópavoginum. Það vantaði
þó ekkert upp á hlýjuna og elskuleg-
heitin frekar en fyrri daginn og sá
Þorvaldur sem ég kynntist fyrir um
margt löngu var enn á sínum stað.
Eftir hann standa margir glæsilegir
minnisvarðar, dætur hans, hver ann-
arri betur gerð, barnabörnin fallegu,
að ekki sé talað um lífsstarfið sem
líklega má finna í vandaðri sérsmíði
Tré-X víða um land.
Ég vil, um leið og ég þakka fyrir
að hafa fengið að eiga vináttu Þor-
valdar, senda Siggu, Krissu, Andreu,
Ásdísi og fjölskyldum þeirra mínar
dýpstu samúðaróskir. Minning um
góðan vin lifir áfram í hjörtum okkar
Gulla.
Helga Sigrún Harðardóttir.
Í dag kveð ég elskulegan frænda
minn, Þorvald Ólafsson. Við erum
systrasynir, báðir elstir í systkina-
hópnum. Þegar við vorum guttar var
hann í mínum huga „stóri frændi“
sem ég leit mjög upp til, enda fannst
mér hann bestur í öllu.
Á tímamótum sem þessum, leitar
hugurinn til þess tíma í Keflavík er
við þurftum ekki að hafa áhyggjur af
öðru en því hvernig við ætluðum að
leika okkur og minningabrotin sem
koma upp í hugann eru mörg. Leik-
svæði okkar strákanna í þá daga var
fyrst og fremst Smáratúnið, Hátún-
ið, Jónsmiðin, trönurnar og heiðin
fyrir ofan. Við smíðuðum vörubíla og
lögðum vegi um alla heiðina við
vatnstankinn og þar í kring. Alls
staðar þar sem voru tún eða gras-
blettir útbjuggum við fótboltavelli,
smíðuðum mörk úr spírum og feng-
um gefins net í mörkin. Í desember
var svo safnað í brennur og lengi vel
var aðalbrennustæðið okkar þar sem
Heiðarbrúnin er núna. Á veturna,
þegar snjórinn var sem mestur, var
mesta fjörið í brekkunni efst í Tjarn-
argötunni, er krakkaskarinn renndi
sér þar á sleðum. Þá var ekki um
neitt annað fyrir lögregluna að gera
en loka götunni fyrir allri bílaum-
ferð.
Þar sem Þorvaldur var þremur ár-
um eldri en ég, má segja að hann hafi
rutt brautina varðandi ýmislegt hjá
mér. Til dæmis þegar ég vildi kom-
ast í vinnu við uppskipun tók hann
mig oft með sér niður á bryggju og
veit ég að það var oftast fyrir hans
tilstilli, allavega til að byrja með, að
ég fékk vinnu í skipunum. Snemma
kviknaði mikill áhugi hjá Þorvaldi
fyrir ljósmyndun og þegar hann var
14 eða 15 ára hafði hann keypt sér
ágætis ljósmyndagræjur og fékk
hann aðstöðu til að framkalla myndir
í kjallaranum hjá afa og ömmu á
Tjarnargötunni. Þar vorum við
löngum stundum og framkölluðum
myndir sem við höfðum tekið. Þessi
ljósmyndaáhugi fylgdi honum lengi
og má í þessu sambandi geta þess að
hann tók allar fermingarmyndirnar
af mér og systkinum mínum. Þegar
við Inga Mæja giftum okkur tók
hann náttúrlega brúðarmyndina af
okkur og var bakgrunnurinn veggur
með stórri skógarmynd heima hjá
honum.
Á árunum eftir 1972 var það nán-
ast regla að við komum saman á ára-
mótunum heima hjá Þorvaldi og
Siggu á Smáratúninu ásamt fleira
góðu fólki. Þá voru þau ófá spila-
kvöldin sem við Inga Mæja áttum
með þeim á Drangavöllunum. Sam-
band okkar Þorvaldar var alltaf náið
og gott og held ég að við höfum skilið
hvor annan mjög vel. Eftir því sem
árin liðu dró nokkuð úr sambandi
okkar en þær stundir sem við áttum
saman voru þeim mun innilegri og
dýrmætari. Mér er bæði ljúft og
skylt að geta þess, að á meðan for-
eldra minna naut við voru þau au-
fúsugestir hjá Þorvaldi og Siggu,
sem reyndust þeim vel í hvívetna, þá
sérstaklega í veikindum móður
minnar. Er ég þeim ævinlega þakk-
látur fyrir það.
Elsku Sigga, Krissa, Andrea, Ás-
dís, Edda og fjölskyldur. Við Inga
Mæja vottum ykkur okkar dýpstu
samúð. Ykkar missir er mikill, en ég
veit að góður Guð mun veita ykkur
styrk í sorginni.
Minningin um góðan dreng lifir.
Gunnar Þór Jónsson.
Margar góðar minningar um Þor-
vald geymi ég í hjarta mínu, en kveð
hann með þessum línum.
Nú komið er að kveðjustund,
frændi minn, vinur kæri.
Far í friði á Guðs þíns fund,
frelsari þína sálu næri.
(Gógó.)
Elsku Sigga, Krissa, Andrea, Ás-
dís, Edda og fjölskyldur, við Bíi
sendum ykkur okkar innilegustu
samúðarkveðjur. Megi Guð og góðar
minningar gefa ykkur ljós og styrk í
sorginni.
Guðbjörg Irmý Jónsdóttir.
Það er ótrúlegt að hugsa til þess,
elsku Andrea, að það séu meira en
tuttugu ár síðan við kynntumst. Við
höfum gengið í gegnum ýmislegt og
alveg sama hvað hefur gengið á í
okkar lífi þá höfum við alltaf verið til
staðar hvor fyrir aðra, þess vegna
finnst mér svo erfitt að geta ekki
verið með þér nú. Ég vildi óska að ég
gæti tekið utan um þig. Vildi óska að
ég gæti faðmað mömmu þína og
systur þínar og vottað fjölskyldu
þinni samúð mína. Ég verð bara að
láta mér nægja að skrifa nokkrar lín-
ur. Ég hugsa til ykkar allra meðan
ég strýk yfir magann minn, það er
stutt á milli gleði og sorgar.
SJÁ SÍÐU 34