Morgunblaðið - 18.04.2009, Blaðsíða 47

Morgunblaðið - 18.04.2009, Blaðsíða 47
Minningar 47 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. APRÍL 2009 ✝ Gísli Jónssonfæddist í Holts- koti í Seyluhreppi 10. september 1926. Hann lést á heimili sínu að Miðhúsum í Akrahreppi þann 1. apríl síðastliðinn. Gísli var sonur Þrúðar Aðalbjargar Gísladóttur f. 1888, d. 1928, og Jóns Sig- fússonar f. 1901, d. 1989. Gísli var eina barn móður sinnar en hann á eftirlif- andi hálfsystur samfeðra, Sig- rúnu Jónsdóttur f. 1953. Eiginkona Gísla var Guðrún Stefánsdóttir frá Syðri-Bakka í Kelduhverfi, f. 9.11. 1926, en hún lést árið 2003. Börn þeirra Gísla og Guðrúnar eru Jón, f. 1950, Guðbjörg, f. 1952, Stefán f. 1954, Þrúður, f. 1961, og Gísli, f. 1969. Gísli og Guðrún eiga samtals 14 barnabörn og barnabarnabörn. Gísli var ársgamall tekinn í fóst- ur af afa sínum og ömmu í Miðhúsum, þeim Gísla Þorfinns- syni og Guðrúnu Jónsdóttur. Að þeim gengnum bjó Gísli hjá móðursystkinum sínum, Jóni og Aðal- björgu, sem þá bjuggu í Miðhúsum. Hann tók seinna við búinu og bjó þar alla sína tíð. Gísli út- skrifaðist sem bú- fræðingur frá Bændaskólanum á Hólum í Hjaltadal 1947. Hann stundaði alla tíð veiðimennsku af kappi, bæði skot- og stangveiði og var hann einnig virkur í kóra- starfi í Skagafirði áratugum sam- an. Gísli verður lagður til hinstu hvílu í sinni heimasveit en útförin fer fram frá Miklabæjarkirkju í Akrahreppi laugardaginn 18. apríl og hefst athöfnin kl. 14.00. Meira: mbl.is/minningar Elsku afi minn. Fráfall þitt bar snöggt að og þegar mér voru færðar þessar fréttir vildi ég ekki trúa mínum eigin eyrum. Mikill sársauki og sorg heltók mig en um leið hrönnuðust upp minningarn- ar um þig og þá var hreinlega ekki annað hægt en að brosa eða jafnvel hlæja. Já, þú varst ótrúlegur maður og alveg greinilega með munninn fyr- ir neðan nefið. Þú skófst sko ekki af hlutunum, alveg sama hvaða menn og málefni áttu í hlut. Þú hafðir algjört dálæti á að segja manni sögur og þá allra helst veiði- sögur því þar lá áhugamálið þitt. Ekki hef ég tölu á öllum þeim rifflum sem til voru í geymslunni inn af eld- húsinu í Miðhúsum, svo margir voru þeir. Þegar ég kom í heimsókn í sveit- ina þá oftar en ekki sýndirðu mér stoltur safnið þitt. Þá fengu nokkrar veiðisögur að fjúka. Mér fannst alltaf svo mikið sport að koma í sveitina til ykkar ömmu þegar ég var lítil, það var alltaf svo líf- legt. Þú varst annað hvort að dytta að skotfærunum eða hnýta flugur, veiði- mennskan átti jú hug þinn allan. Amma var þá á meðan uppi í stofu, annað hvort að hekla eða sauma út. Bæði vilduð þið ólm kenna mér þessa hluti og lærði ég að hekla hjá ömmu en tækninni á fluguhnýtingunni náði ég nú aldrei. Þú kenndir mér hins vegar að drekka kaffi. Þá var ég aðeins 5 ára gömul og var stödd í sveitinni hjá ykkur ömmu. Þú náðir í stóra könnu handa mér og var hún fyllt með bragðgóða kaffinu sem amma hafði sérstakt lag á að hella upp á. Sett var örlítið af mjólk og nokkrum kúffull- um teskeiðum af sykri hrært saman við. Þetta kaffi drakk ég með bestu lyst, enda besta kaffið. Þetta man ég eins og gerst hafi í gær. Önnur minning um þig er mér einnig ofarlega í huga, þá var slát- urtíð í sveitinni og tókst þú auðvitað þátt í henni eins og sönnum bónda sæmdi. Þér til hjálpar voru Jónsi og pabbi. Ekki var nú mikið gagn að mér en ég hafði ofsalega gaman af því að skottast í kringum ykkur og spyrja út í hitt og þetta. Þegar herlegheitunum var lokið greipstu þér hrútspung í hönd og sagðist mundu henda honum í mig. Ég fölnaði upp og varð skelf- ingu lostin, enda ekki nema svona 10 ára gömul þá. Þú eltir mig um hlaðið og náðir að króa mig af við austur- veggin á húsinu og hentir pungnum í mig. Þetta fannst þér fyndið og hlóst alveg ógurlega með þínum smitrandi hlátri. Ekki var ég nú eins kát með þetta en í dag finnst mér þetta að sjálfsögðu algjör snilld, það sem þér datt til hugar að brasa. Nú er ég búin að nefna tvær sögur úr minningabankanum um þig og finnst mér þær lýsa þér vel. Fyrri sagan lýsir góðmennsku þinni að blanda alveg magnað kaffi handa 5 ára gamalli stelpuskottu. Seinni sag- an lýsir stríðni þinni sem gekk út á að henda glóðvolgum hrútspung í afa- barnið þitt. Já, margar minningarnar geymi ég um þig og eru þær eins fjölbreyttar og litir regnbogans. Elsku afi. Nú ertu farinn til himna og ekki efa ég að þar taki hún elsku- lega amma mín á móti þér með sínum margrómaða myndarskap. Ég bið Guð að styrkja okkur fjöl- skyldu þína í sorginni, missirinn er mikill meðal okkar allra. Hvíl í friði, afi. Sara Katrín. Skýrasta minningin um afa í Mið- húsum er hvar hann stendur einhvers staðar sunnan við efri bæinn, í brún- um jakka, með húfu sem rétt nær nið- ur að eyrum. Það er haustmorgunn og hann er að fara að eiga við fé. Tún og móar eru farin að sölna og sólin gægist upp fyrir Akrafjallið. Hann er með filterslausa sígarettu í munnvik- inu og hund eða tvo með sér. Amma er nýbúin að ganga frá í eldhúsinu og komin út, í vínrauðu hettuúlpunni með appelsínugula prjónahúfu. Hers- ingin gengur af stað suður eftir veg- inum og í hópinn slást kollótt kind með tvö lömb, gamall heimagangur, og með henni er veturgömul dóttir hennar, einnig tvílembd, þau eru öll að fara í fjárhúsin. Þau lifðu marga svona morgna og minningin um þau er umvafin sömu kyrrðinni og hlýjunni sem þessir morgnar bera með sér. Þau voru af kynslóð sem vílaði ekki fyrir sér erf- iðisvinnu dag eftir dag og tókust á við annríki þessa fábreyttu daga með stóískri ró. Við erum svo rík að hafa kynnst þessu fólki. Þau voru ólík, og ekki alltaf sammála. En það var allt í lagi, vegna þess að á milli þeirra var ást og hlýja sem okkur fannst geta unnið bug á ýmsum vandamálum. Amma flissaði yfir ruglinu í afa og fannst hann alltaf jafn fyndinn. Afi stríddi ömmu og hafði gaman af því að koma henni til að hlæja. Hann var fiðrildið á meðan hún var tréð. Afi var ævintýramaður, Indiana Jones síns tíma. Hann var vel liðinn og greiðagóður, mikið náttúrubarn og veiðimaður af lífi og sál. Okkur var hann alltaf innan handar þótt það örl- aði stundum á óþolinmæði þegar við vorum yngri. Hann bætti það alltaf upp á einn eða annan hátt. Fram til síðasta dags mátti sjá lífsgleðina í augunum, sérstaklega þegar hann sagði okkur sögur. Þá var hann í ess- inu sínu og gaman að hlusta á hann, því hann hafði lag á að segja sögur. Amma hræddist margt í þessum heimi en var samt sterkari en nokkur sem við höfum kynnst, alltaf róleg og hógvær. Hún reyndi að passa upp á ungana sína í öllum landshlutum með óborganlegri yfirvegun og jafnvægi, fylgdist með hvernig gekk og var svo ótrúlega stolt af því hvernig börnum og barnabörnum reiddi af í leik og starfi. Alltaf tók hún á móti okkur eins og við værum týndu börnin að koma heim og sagði oftast að þeir væru sjaldséðir hvítu hrafnarnir nú- orðið. Loksins komin heim, heim í öruggt umhverfi þar sem nóg var til af hafrakexi og kanelsnúðum og mjólk sem einhvern veginn bragðað- ist aldrei betur en akkúrat þar. Þessi heiðurshjón sem nú eru bæði fallin frá voru fyrirmyndir sem við gleymum aldrei og ekki væri ólíklegt að þau fylgdust ennþá með. Afa gæti dottið í hug að stríða okkur. En amma væri í uppbyggilegum hlutum. Við ólumst upp við gleði og hlýju í öruggu umhverfi. Þetta eru atriði sem við höfum reynt að halda í heiðri á okkar heimilum. Það er eftirsókn- arverður hlutur að sjá lífið á jákvæð- an hátt glaður í bragði, eins og amma og afi gerðu. Takk fyrir okkur, amma og afi uppfrá, og þakkir fyrir það veganesti sem við fengum frá ykkur, það endist okkur alla ævi. Kveðja, Garðar, Guðrún, Stefán og fjölskyldur. Gísli gamli í Miðhúsum var góður vinur minn og félagi. Fundum okkar bar fyrst saman þegar ég var sendur með mat til hans á greni fyrir ofan Flatatungu. Mér fannst mikið til þess koma að hann lofaði mér að prufa riff- ilinn sinn og talaði við mig eins og fullorðinn mann, þó ég væri innan við fermingu. Við deildum síðan þessu áhugamáli okkar beggja, veiði- mennskunni, þar sem eftir var. Gísli var óþreytandi við að svara öllum mínum spurningum þegar ég fór sjálfur að liggja fyrir tófum og kunni lítið til þeirra verka. Stangveiði var honum jafn mikið áhugamál og skotveiðin og kenndi hann mér ófáar kúnstirnar í þeirri listgrein. Gísli var ákaflega skemmti- legur veiðifélagi, óeigingjarn með eindæmum. Það var sama hvar við veiddum saman, alltaf sagði hann „kasta þú fyrst“, sem lýsir manngerð hans vel. Það er stórt skarð fyrir skildi þeg- ar Gísli frændi minn í Miðhúsum er farinn og ekki hægt að skreppa og setjast við eldhúsborðið og spjalla. En það eru allar skemmtilegu minn- ingarnar sem lifa og þú fylgir mér áfram á til veiða. Hafðu það sem best á hinum eilífu veiðilendum, frændi. Kári Gunnarsson. Látinn er Gísli Jónsson bóndi í Miðhúsum í Blönduhlíð á 83. aldurs- ári. Okkur systkinunum, Ragnheiði Dóru og Sigfúsi Jóni Árnabörnum, er ljúft og skylt að minnast þessa góða og glaðbeitta frænda og vinar og þakka samfélagið og samvistirnar við hann og fjölskylduna í Miðhúsum. Bæði nutum við hans, Ragnheiður sem barn og unglingur í Miðhúsum, Sigfús sem granni hans á Miklabæ. Gísli bar feikilega líflegan persónu- leika, og engum leiddst í návist hans. Hann var hýr og hlýr í lund og hjarta og enginn bölmóðsmaður, hraust- menni til lífs og sálar. Af honum hefði mátt gera marga menn og alla góða. Hann hafði ágætt tóneyra og hafði hljóð úr hvers manns barka, eins og reyndar fleiri afkomendur Þrúðar gömlu í Miðhúsum. En það átti ekki fyrir honum að liggja að lenda í slagtogi með þeim stöllunum, frú Músíku og Þalíu, held- ur varð hann búfræðingur frá Hólum og tók við búi í Miðhúsum af móð- ursystkinum sínum, Aðalbjörgu og Jóni, sem fóstruðu hann upp frá eins árs aldri, og þar bjó hann ævilangt. Konu sína, Guðrúnu Stefánsdóttur, sem var Keldhverfingur, yfirveguð kona, músikölsk og merk, missti hann fyrir nokkrum árum. Barnalán þeirra Miðhúsahjóna var mikið. – Í hópi vina var Gísli ákaflega skemmtinn sagna- maður, þar sem gamansemin hafði oft blessunarlega betur en alvaran. Þess vegna voru það nánast dauðar manneskjur, sem ekki gengu glaðari í lund af góðra vina fundi með Gísla. – Hann var vinafastur og vinmargur og greiðamaður mikill við vini sína og granna. Veiðimaður var hann að upp- lagi og af ástríðu, veiddi fugl og fisk, og grenjaskytta var hann lengi. En fyrst og síðast var Gísli í Miðhúsum yndislega skemmtinn og kátur karl. Við systkinin og makar okkar þökk- um allar yndisstundirnar með hon- um. Minningarnar um hann munu fylgja okkur svo lengi sem við lifum. Við blessum þær allar og sendum ykkur, börnum hans og fjölskyldum ykkar, innilegar samúðarkveðjur. Vermi lífsins og ljóssins Guð minn- ingar ykkar um Gísla. Ragnheiður Dóra Árnadóttir, Sigfús Jón Árnason. Gísli í Miðhúsum var maður þeirr- ar gerðar að eftir honum var tekið hvar sem hann fór og geymdist glöggt í minni samferðamanna. Af Gísla hefði mátt gera marga menn, líkt og sagt var um biskupinn til forna, því að hæfileikar hans lágu til margra hluta. Hann kaus sér starf bóndans, sem átti að mörgu leyti vel við hann auk þess sem hann mun hafa verið til þess hvattur af móðursystk- inum sínum Jóni og Aðalbjörgu, sem ólu Gísla upp. Til þess að búa sig undir það starf sem hann hafði valið sér nam hann búfræði við Hólaskóla og brautskráð- ist þaðan búfræðingur. Skólaárin urðu honum til farsældar, ekki aðeins um menntun, heldur og vegna þess að þar kynntist hann ungri og gjörvi- legri stúlku, Guðrúnu Stefánsdóttur, þingeyskrar ættar. Heitbundin komu þau frá Hólum og hófu brátt búskap í Miðhúsum. Guðrún í Miðhúsum var ein af fimm þingeyskum blómarósum sem ungum mönnum í Blönduhlíð lánaðist að flytja heim í sveitina um svipað leyti og allar reyndust mannlífi og starfi í Akrahreppi til mikilla heilla. Gísli í Miðhúsum var karlmenni að burðum líkt og frændur hans margir í föðurætt. Hann var hagur bæði á tré og járn og verklaginn svo að segja mátti að allt léki í höndum hans. Hann var veiðimaður af Guðs náð, fiskinn vel á öngul og skytta svo af bar. Annaðist grenjavinnslu um ára- bil í hreppnum. Hann var oft fenginn til að fella ótamin hross á færi sem kallað var og vissi ég aldrei til að hon- um geigaði skot. Á þeim árum sem Gísli sat í hreppsnefnd var það eitt af verkum hreppsnefnda að leggja á útsvar og fasteignaskatta. Á niðurjöfnunar- fundum hafði Gísli gjarnan það starf að skrifa út álagningarseðla, þar eð hann hafði fallegustu rithönd nefnd- armanna. Gísla voru gefnir ómældir tónlistarhæfileikar og hefði getað náð langt á því sviði hefði hann lagt stund á. Hann þurfti ekki að heyra lag nema einu sinni þá gat hann spilað það nóturétt á harmoniku sína eða orgel. Ég vil þakka mætum sveitunga áratuga samferð og samstarf um margháttuð mál sveitar okkar og hér- aðs og ekki síður tveggja áratuga tómstundagaman við söng í karlakór- unum Heimi og Feyki. Fjölskyldan í Flatatungu þakkar vináttu Miðhúsahjóna, Gísla og Guð- rúnar, hrærðum huga. Blessuð sé minning þeirra. Börnum þeirra og öðrum aðstandendum votta ég dýpstu samúð. Gunnar Oddsson. Kvöldblíðan hefur kysst Gísla í Miðhúsum hinsta kossi. Hann mun ekki framar ganga út úr húsi sínu, horfa á Vötnin og velta fyrir sér hvort bleikjan sé gengin eða hvort gæsin sé komin í túnin. Hann kvaddi lifið í hinsta sinn keikur og óbugaður. Gísli var alltaf í Miðhúsum, þar var hann bóndi, ekki af því búskapur væri hans draumur, heldur af því það þótti sjálfsagt að einhver tæki við. Gísli sinnti búskapnum eins og þurfti, en hafði áhuga á veiðum og var afburða skytta og þótti gaman að fanga fisk, bæði í vatni og sjó. Gísli sá um grenja- vinnslu í mörg ár, kunni ótal sögur af lágfótu og dáðist að því hvað rebbi gat verið slyngur. Gísli kunni margar sögur og sagði, sumar svo skemmti- lega að maður fékk verk í magann af því að hlusta. Gísli var afburða söngmaður og hafði undurfagra bassarödd og söng í kórum til fjölda ára. Gísli var glett- inn, hafði gaman af að stríða mönnum og var með glettna hrekki, meinlausa en markvísa. Gísli gat átt það til að vera mjög virðulegur, þegar hann var kominn í sparifötin með hatt og sól- gleraugu var maður ekki lengur viss um hvort maður væri að tala við ís- lenskan mann eða útlendan. Gísli í Miðhúsum var heimsborgari á vissan hátt. Ég gekk um Ódáinsvelli í París og hugsaði um Gísla. Mér hefði ekki brugðið þótt ég hefði séð hann sitja við borð undir Sigurboganum með vindil og lítið staup í hendi, Hann hefði glott út í annað og rekið upp litla hlátursroku þegar Parísarbúinn hefði ekki skilið sögurnar af tófunni við Landsendahnjúkinn. Gísli las mikið og var vel að sér um aðskiljanlegustu málefni. Ég hitti Gísla fáum dögum áður en hann kvaddi. Hann leit inn í heim- sókn, við fengum okkur staup og kaffibolla, við ræddum um lífið, vor- um sammála um að í lífi manna þyrfti frelsi að ríkja og vorum sannfærðir um að bráðum kæmu nýir dagar með nýju frelsi. Það var gott að þekkja Gísla. Minn- ingin um hann fær mig til að brosa með lífinu. Öllu Miðhúsafólki flyt ég kveðju mína. Agnar á Miklabæ. Utan Kúskerpismelana kemur jeppi. Grár Willysjeppi. Hann fer ekki mjög hratt og það er eins og hann sé að lesa í landið. Þetta er löngu fyrir malbik og það er langt í reglugerðir. Ég stend lítill pjakkur á hlaðinu heima og fylgist með. Niðri á eyrunum teygja tvær gæsir hálsinn, þær kannast við jeppann. Svo rífa þær sig upp og fljúga vestur yfir Vötn með öndina í hálsinum. Jeppinn hæg- ir örlítið á sér en heldur svo áfram og hverfur bak við fjárhúshlöðuna. Kemur svo í ljós sunnan við afleggj- arann og nálgast Landið helga; túnið sem var friðað fyrir fjórfættum skepnum. Það grænkaði snemma og var því vinsælt hjá gæsum. Og Land- ið helga var grátt af fugli þennan dag og var ekki laust við að smákurr kæmi í hópinn og hálsar á loft þegar jeppinn nálgaðist. En þá brá svo við að það var eins og jeppanum kæmi hópurinn á túninu alls ekki við. Hann greikkaði frekar sporið og hvarf ofan í Bóluhvarfið. Ég beið enn á hlaðinu, beið eftir að sjá hann renna upp Bólu- brekkuna. En ekkert gerðist. Hópur- inn á túninu róaðist, hálsarnir sigu og sólin skein. Ég gerðist óþolinmóður. En allt í einu bergmáluðu fjöllin. Eft- ir augnablik er hann mættur heim á hlað með skyggnishúfuna, kátur til augnanna, og upp í kaffi og sögur og ég litli pjakkurinn hlusta opinmynnt- ur. Svo líða mörg ár. Ég sit í eldhúsinu í Miðhúsum. Gunna hellir í bollann og það er sögustund. Gilli segir sögur. Veiðisögur. Og engum liggur á. Það er eins og tíminn hverfi fram á Mið- dalsgreni og maður fylgist spenntur með hvernig meistarinn ber sig að, snarast upp á steininn og sér í bakið á læðunni Hann bíður við steininn á Grjótárgreninu og það er varla hagla- færi í grenið og refurinn heima. Og kvöldsólin leikur um fjöllin. Það var ekki nóg með að Gísli í Miðhúsum væri einstakur veiðimað- ur heldur sagði hann þannig frá að fjöllin komu til manns og allt varð ljóslifandi, eins og á tjaldi. Og hann sagði stundum sömu söguna. En það gerði ekkert til, manni fannst hún alltaf ný. Og hún var alltaf eins. Þess vegna vissi maður að hún var sönn. Því var það ekki ónýtt að eiga Gísla að þegar ég hafði þann virðingarsess að vera tófuskytta í Akrahreppi. Hann taldi í mann kjark. Kenndi manni trixin. Sagði manni hvernig maður ætti að hafa kallana góða. Sagði manni frá öllum grenjum og hvar væri best að liggja. Hvar væri best að tjóðra hvolpa. Hann skildi hvað logn- ið var mikilvægt þegar maður var að stilla kíkinn á rifflinum. „Nágrann- arnir halda stundum að ég sé kolvit- laus, því þegar lognið dettur á hætti ég stundum að snúa og fer að skjóta í mark.“ Hann virtist hafa endalausan tíma fyrir mann. Enda þegar ég og félagi minn í grenjaleitinni, Albert Geirsson, komum af greni var oft rennt í hlað í Miðhúsum og bónda gef- in skýrsla. En nú ekur ekki lengur grár Will- ysjeppi fram Kúskerpismelana. Gæs- irnar bíta rólegar á Landinu helga. Niðurinn í malbikinu kallast á við Vötnin. En uppi á Grjótárgreni stendur refur. Hann lítur yfir dalinn. Gaggar. Læðan kemur skokkandi upp brekkuna. Svo kemur vor. Eyþór Árnason. Gísli Jónsson  Fleiri minningargreinar um Gísla Jónsson bíða birtingar og munu birt- ast í blaðinu næstu daga.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.