Embla - 01.01.1949, Qupperneq 23
inni, hraktist manna á milli í misjöfnum stöðum, oft köld og
svöng. Æ, já, það er allt liðið, sem betur fer. Verst var, að ég
hændist ekki að neinum, og fáir virtust skilja, að ég þyrfti hlýlegt
atlæti eins og önnur börn.
Lengi fram eftir átti ég ekki nein föt til þess að fara í að heiman,
hvorki til kirkju né annað til skemmtunar, og seinna, eftir að ég
fór að vinna fyrir kaupi, var ég orðin svo einræn, að ég gat ekki
notið mín með ungu fólki. Og kæmi það líka fyrir, að ég hætti
mér eitthvað að heiman, fékk ég ævinlega versta hestinn — allt
var fullgott handa Dísu. Svo þeysti fólkið á undan mér, hlæjandi
og masandi, piltar og stúlkur saman. Enginn kærði sig um að
vera með mér. En oft horfði ég löngunaraugum á eftir fólkinu og
tárfelldi yfir vanmætti mínum og einstæðingsskap, því að ég hafði
mínar langanir og þrár eins og aðrar ungar manneskjur.
Þannig liðu árin fram að þrítugsaldri við gleðivana strit. Þá
var það eitt vorið, að ég var lánuð um tíma langt austur undir
fjöll, til systur luismóður minnar. Hún lá veik, var mannlítil, og
auk þess var verið að byggja þar upp bæinn.
Dísa gamla þagnaði skyndilega, og ég sá, hversu birti yfir and-
liti hennar við minningarnar. Ég laut niður að henni og hvíslaði:
— Og svo-------?
— Og svo, tók hún upp eftir mér, fer að líða að sögulokum,
eða öllu heldur að upphafinu að sögunni minni, því að þarna
kynntist ég honum.
Hann var smiður, kominn langt að úr ókunnu byggðarlagi og
hvarf heim aftur að loknu verki.
Ég ætla ekki að reyna að lýsa honum. Ég veit ekki, hvort hann
var fallegur eða glæsilegur. Ég hef ekkert til samanburðar. Hann
var mér eini maðurinn og hefur alltaf verið. Hann veitti mér
undir eins sérstaka athygli og leit til mín eins og pjltarnir heima
litu á hinar stúlkurnar. Ég fór að bera höfuðið hærra og fá löngun
til þess að ganga þokkalega klædd. Á morgnana, þegar ég kom út
fyrir allar aldir, hlustaði ég hugfangin á fuglasönginn og niðinn
í litla fossinum fyrir ofan bæinn, og nú fannst mér í fyrsta skipti á
ævinni, að raddir náttúrunnar hefðu eitthvað að segja mér.
Ég vildi svo gjarnan geta sagt þér greinilega frá vorinu mínu.
EMBLA 21