Embla - 01.01.1949, Blaðsíða 57
Uppi á lofti, næst svefnherbergi hjónanna, var stofa, sem nefnd
var „hornstofan". Það var setustofa systranna, — dætra hjónanna,
og þar kenndu þær þeiin stúlkum, sem komið var til þeirra til
hannyrðanáms. Þær systur voru ágætir kennarar eins og faðir
þeirra. Þær kunnu að vekja áhuga og starfsgleði. En þó var ekki
minna vert um þau áhrif, sem þær höfðu á unglinga með hátt-
prýði sinni, sem var óviðjafnanlega fast mótuð, og með hlýleika
og gæðum, sem aldrei bar neinn skugga á. í hornstofunni var oft
glatt á hjalla, þó að ekki væri slegið slöku við það, sem átti að
gera. Ógleymanlegar verða þær stundir, sem maður naut þar,
ekki sízt rökkurstundirnar, þegar ekki var farið út á skíði. Þá tók
Ástríður, dóttir hjónanna, gítarinn sinn og lék uppáhaldslögin og
hinar systurnar sungu með, en hugfangnir unglingar gleymdu
stund og stað.
Hve sæl, ó, hve sæl er hver leikandi lund.
En lofaðu’ engan dag fyrir sólarlagsstund.
Nokkur ár liðu, með óbreyttum önnum og starfi hinna full-
orðnu, með vonum og gleði hinna ungu. Systkinin í Ólafsdal
voru flest orðin fulltíða, en hin yngstu á unglingsaldri, glæsilegur
hópur afbragðs mannsefna, sem virtust eiga bjarta framtíð í
vændum. En svo kom tímabil þeirrar reynslu, sem engan hafði
órað fyrir. Fyrsta sorgarfregnin barst heim, að látinn væri Karl,
sonur þeirra hjóna, sem stundaði nám við háskólann í Kaup-
mannahöfn. Svo leið eitt ár, en á næstu fjórum árum þar á eftir
misstu þau eina dóttur hvert árið. Tvær dóu heima, Sigríður og
Ástríður, en tvær á sjúkrahúsum, Ingibjörg og Þórdís. Margir
foreldrar myndu hafa orðið bugaðir eða niðurbrotnir af slíkri
reynslu. En lijónin í Ólafsdal reyndust sterk og sameinuð í sorg-
inni eins og í gleðinni. Þau báru harma sína í hljóði, en húsmóð-
irin sagði eitt sinn: „Með Torfa er hægt að bera allt“. En enda
þótt húsbændurnir reyndu að halda uppi sama glaða heimilisanda
og áður, þá fundu allir, sem kunnugir voru, hve mikils heimilið
hafði misst af því, sem það áður átti. Og nú var „hornstofan"
lokuð og ekki um hana gengið.
Tíu ár liðu, sem ég var fjarri Ólafsdal. En þá fluttist ég aftur í
F.MBLA