Morgunblaðið - 19.09.2009, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 19.09.2009, Blaðsíða 33
Minningar 33 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. SEPTEMBER 2009 að eiga sameiginlegt markmið og vinna heilshugar að því bindur fé- lagana vináttuböndum. Sameiginlegt markmið okkar klúbbfélaganna hefur alltaf verið að efla flug á Selfossi, búa í haginn fyrir framtíðina og styrkja Selfossflugvöll. En fyrst og fremst að sinna áhugamáli okkar og njóta líð- andi stundar. Siggi var athafnamaður og eldhugi. Hann lét verkin tala og var ávallt fremstur í flokki þegar mikið lá við. Hann var formaður flugklúbbsins ár- in 1996-2003. Það var tímabil mikilla framkvæmda á flugvallarsvæðinu og naut klúbburinn þá góðs af tækjum og tólum verktakafyrirtækis hans. Mest af þeirri vinnu var unnið í sjálf- boðavinnu og margir lögðu hönd á plóginn en ekki er ofmælt að segja að hlutur Sigga sé þar stærstur. Flug- áhugamenn og fjölmargir farþegar sem um völlinn fara árlega, njóta nú góðs af því. Siggi var farsæll og góður einka- flugmaður og sigraði m.a. tvisvar í ár- legri lendingarkeppni klúbbsins, Pét- ursbikarnum, árin 1991 og 2000. Líklegt er að flugáhugi hans hafi orð- ið til þess að tveir synir hans hafa þetta áhugamál föður síns að atvinnu. Siggi hætti að fljúga þegar heilsan gaf sig og ég trúi að það hafi verið erf- itt fyrir hann að sætta sig við það að vera upp á aðra kominn, ennþá á besta aldri. Hann var áfram tíður gestur á flugvellinum á meðan heils- an leyfði, gaf góð ráð og hvatti okkur áfram. Hann naut þess þá að eiga fjölda vina sem allir vildu aðstoða hann, þess vegna fljúga honum hvert á land sem var ef stemningin var þannig. Meira af vilja en mætti sá hann um malbikun og frágang á flug- plani síðasta haust og skilaði því verki af sér, eins og öllum öðrum verkum, með miklum sóma. Því verki var lokið á viljastyrknum einum saman. Siggi var ásamt tveimur öðrum fé- lögum í klúbbnum sæmdur Gullmerki Flugklúbbs Selfoss á árshátíð klúbbs- ins 19. september 2008 og var það í fyrsta skipti í 35 ára sögu klúbbsins sem Gullmerkið var veitt. Á þann hátt vildum við félagarnir heiðra hann og sýna honum þakklæti fyrir fórnfýsi og vel unnin störf í okkar þágu. Hans er sárt saknað en minningin um góð- an félaga mun lifa um ókomin ár. F.h. Flugklúbbs Selfoss, Helgi Sigurðsson. Sigurður Karlsson er farinn í sína hinstu flugferð. Himnarnir hafa stað- ið honum opnir þegar hann glaður og reifur gekk á drottins síns fund. Laus undan oki þess erfiða sjúkdóms sem lagði karlmennið að velli. Siggi Kalla var vaskastur allra manna til sjós og lands, góður tveggja manna maki, afrenndur að afli og honum fylgdi mikið lífsfjör og lífs- gleði. Það unnu allir í kringum Sigga og voru glaðir í lund. Ungur að árum varð hann stoð og stytta foreldra sinna, hjálpsamur og fullhugi til allra verka. Hann varð mikill áhugamaður um bíla og vélar og alla tækni. Kjartansstaðir standa í þjóðbraut og þar var rekin af foreldr- um Sigga umfangsmikil þjónusta við vegfarendur. Drengurinn stóð í sjoppunni ófeiminn og djarfur og lærði fljótt að bregðast við þeim vanda sem að höndum bar. Hann sá í rauninni vélaöldina renna í hlaðið. Hann heillaðist og vissi að tæknin var komin til að létta störf og efla dáð með þjóðinni. Það má segja að hann hafi ungur gengið henni á hönd. Skólaganga margra af kynslóð Sigga þykir ekki merkileg í dag. Stundum sagði hann við mig með kankvísu brosi: „Hann var góður skóli, háskólinn okkar í Þingborg.“ Þetta voru orð að sönnu. Stutt barna- skólanám sem byrjaði við tíu ára ald- ur og lífsins skóli með vinnu og skyld- um frá ungum aldri skilaði þjóðfélaginu fólki sem aflaði sér góðr- ar þekkingar, fólki sem hefur skilað samtíðinni miklu. Vel menntuðu fólki með mikla verkkunnáttu. Siggi sótti sitt nám í lífsins skóla, var þar öflugur nemandi á mörgum sviðum. Hann fór ungur til sjós og eignaðist fljótt vörubíl. Stofnaði verk- takafyrirtæki, stóð alls staðar í skil- um, var eldklár og kunni á mörgu skil. Orð hans stóðu og þétta höndin var næg trygging þess að allt gengi eftir sem um var talað. Hann var fé- lagslyndur og ósérhlífinn hvar sem hann kom að verki. Veikum var hann stoð og ef á einhvern hallaði var hans hjálp nærri. Hann var stór bæði í gleði og sorg. Í karlakórnum var hann lykilmað- ur og röddin mikil og góð en hann söng þar einsöng um tíma. Hann var einn fremsti baráttumaður Selfoss- liðsins í fótbolta. Það verður lengi til þess tekið að þegar strákarnir náðu upp í úrvalsdeild á dögunum kom Siggi helsjúkur austur, fór á rakara- stofu Björns Gíslasonar, vinar síns, lét snyrta hár sitt og skegg. Fór síðan á völlinn og hvatti strákana sína óspart, sigurinn varð þeirra. Flugklúbbur Selfoss átti hauk í horni í Sigga, þar kom hann mörgu í verk með félögum sínum og flaug svo frjáls um loftin blá. Með Sigurði Karlssyni er horfin mikil kempa af svæðinu. Okkur finnst skuggi hvíla yfir byggðinni og að köld haustskúr hafi fallið með fjallanna hring. En í sorginni liggur gleði okkar því hve- nær sem við minnumst Sigga Kalla er það af góðu einu. Hann vísaði veg- inn í sigurátt og sigraðist á hverri þraut. Sáttur hvarf hann héðan og vissi sem var að stundin var komin. Það er engin lognmolla yfir minning- unni um þennan mann. Við Margrét vottum ástvinum hans samúð okkar. Minningin lifir um góðan dreng og einstakan félaga. Guðni Ágústsson. Nú er farið að hausta. Sigurður Karlsson, þessi stóri og sterki maður, er farinn frá okkur. Þó veikindi hans væru mikil þá bar hann sig alltaf vel. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Sigurði er hann tók að sér framkvæmdir hjá mér fyrir löngu síðan. Við urðum strax mjög góðir vinir enda margt líkt með okkur. Við erum nákvæmlega jafn gamlir, fæddir sama dag á sama ári og við tókumst síðustu árin báðir á við sama sjúk- dóm. Við töluðum um þann mögu- leika að fara saman til Kína til lækn- inga en nú verður ekkert úr því. Kannski förum við saman í ferðalög þegar við hittumst hinum megin. Þó Sigurður væri lítillátur maður þá var hann í raun mikilmenni. Ævi- starf hans var stórbrotið enda sýndi hann gífurlega atorku við þau verk sem hann tók að sér. Hann var maður sem elskaði lífið og naut þess, þrátt fyrir veikindin nú síðustu árin. En eitt vorum við sammála um, hann og ég, að ekki skyldum við verða aftur börn. Sigurður var mannblendinn og mikill gleðimaður og fór vel með. Auk þess var hann söngelskur og söng með Karlakór Selfoss. Hann flaug flugvél í frístundum og kom oft fljúg- andi hingað í heimsókn til mín. Þegar hann vann við framkvæmdir hérna að Geysi fengum við okkur oft í staupinu eftir vinnu og tókumst jafn- vel á. Það voru skemmtilegar stundir. Í gegnum tíðina höfum við rætt um margt, bæði í gamni og alvöru og þegar á móti blés kom það fyrir að við spurðum hvor annan í hljóði hvort Guð væri orðinn gamlingi sem engu gæti stjórnað. Sigurður var vinur vina sinna og sýndi það í verki. Ég minnist þess þegar ég var í hjólastól á sjúkrahús- inu á Selfossi að næstum daglega kom hann í heimsókn til mín. Hann ók mér um og gaf mér mikinn tíma þó svo að hann væri önnum kafinn vegna starfa sinna. Sigurður naut þeirrar gæfu að eiga góða konu og syni sem hugsuðu vel um hann. Ég votta Ingunni og sonum þeirra og fjölskyldu hans allri, samúð mína og bið Guð að vera með þeim, ef hann er ekki orðinn of gamall. Ég þakka þér, kæri vinur, fyrir samverustundirnar í blíðu og stríðu og hitti þig fljótlega aftur. Takk fyrir komuna í gær, þegar þú komst til mín og sagðir að ég yrði góður. Ég veit þú tekur á móti mér þegar ég fer sömu leið og þú hefur nú farið. Már Sigurðsson, Geysi. Við stöndum nú á vegamótum þeg- ar lífsbók okkar kæra vinar, Sigga Kalla, var hallað aftur 10. september síðastliðinn, allt, allt of fljótt. Siggi var þrekinn og mikill á velli með stórar hendur, en fallega rit- hönd. Hann var með mikið og stórt hjarta sem bar ótakmarkaða vináttu. Vinir, sem voru margir, nutu greiða- semi hans, glaðværðar og dillandi hláturs. Siggi hafði ótrúlega mikið vald yfir íslenskri tungu og mikinn orðaforða sem unun var á að hlýða. Það kom best í ljós er hann fór á kost- um að ræða hag lands og þjóðar og um alla þá sem stjórna þessu landi, vinir og vandamenn fengu einnig sitt. Hann gerði oft góðlátlegt grín að sér og sínum, hafði góðar gáfur, mikinn húmor og frásagnarhæfileika. Það komust ekki margir að með sínar skoðanir þegar Siggi var í þessum gír. Hann hafði lifandi og skemmti- legar hugsjónir sem sýna manni hvað tilveran getur verið dásamleg. Siggi Kalla var afburðagóður söngmaður og hafði unun af að syngja. Við hefð- um viljað vera á hótelinu á Kúbu þeg- ar hann sat úti í garði og hóf upp raust sína og allar svaladyr hótelsins opnuðust og fólk þusti út til að hlýða á þennan stórtenór frá Íslandi. Lífsins skóli var hans skólaganga fyrir utan barnaskólanám í Hraun- gerðishreppi. Hann fór ungur til sjós, síðan tóku vörubílarnir og Verktækni ehf. við, það voru oft langir vinnudag- ar. Siggi skilaði sínum verkum vel og sagði oft brosandi með glettnis- glampa í augum: „Aldrei, aldrei að gefa sig.“ Síðastliðin ár hefur Siggi glímt við óboðinn gest, Parkinson. Hann von- aði að góð lyf og færni lækna héldi Parka í skefjum svo hann sjálfur gæti verið skipstjórinn áfram eins og hann komst að orði. En það er annar sem ræður för okkar allra. Nú, þegar lífsbók Sigga er full- skrifuð verðum við að láta okkur duga að blaða í minningabrotum sem eiga eftir að ylja okkur og veita mikla gleði og vekja hlátur um ókomin ár. Þannig eru minningar okkar Bjössa um þennan höfðingja. Við erum þakklát Guði fyrir að hafa átt hann að stórvini í öll þessi ár. Við vottum Ing- unni, Bellu mömmu, börnum, tengdabörnum, barnabörnum, systk- inum og öðrum ættingjum og vinum dýpstu hluttekningu. Svava og Björn. Við flugum austur yfir sandana þar sem Eyjafjallajökull í sinni miklu mynd blasti við okkur. Í suðri sáum við Surtsey en Heimaey var hulin mistri. Flugmaðurinn vissi þó hvað hann söng sem endranær, því innan stundar létti til svo leggja mátti á sundið. Og svo skemmtileg var ferðin að flugmaðurinn söng og sjálfur raul- aði ég með. Söngurinn yfirgnæfði ómþýðan slátt hreyfilsins því ekkert skákar Undir Dalanna sól, laginu sem Sigurði Karlssyni var svo kært. Á flugvellinum í Eyjum hittum við nokkra úr hópi heimamanna og með- al þeirra, eins og annars staðar þar sem við höfðum viðkomu í þessari ferð, átti okkar maður sviðið. Hafði lausnir á heimsins vanda á hraðbergi, baðaði út öllum öngum og mælti fram á slíkri gullaldaríslensku að mótrök- um varð ekki hreyft. Allt frá því ég man eftir mér hefur Sigurður Karlsson verið nálægur í minni tilveru. Kunningsskapur Sigga og föður míns réð því að ég kynntist honum fljótt og áhugi minn á flugi, sem vaknaði snemma, tengdi okkur sömuleiðis saman. Forvitinn strákur fór líka fljótlega að fylgjast með þeim framkvæmdum á Selfossi sem Siggi stóð fyrir, þar sem hann var á vett- vangi með skófluna, vann á við þrjá og stjórnaði verkamönnum sínum rétt eins og herforingi. „Komdu með okkur í kaffi, lagsmaður,“ sagði Siggi og ég slóst með í hópinn. Í kaffi- skúrnum fengu viðstaddir síðan dýrðlega sögustund; þar sem innan- sveitarkróníkan, landsmálin, heims- pólitíkin og kristindómurinn voru reifuð með heimspekilegu ívafi og ótrúlegum lýsingum. Og oft reyndist Siggi hafa á réttu að standa í þessum umræðum, þegar dómur tíma og sögu lá fyrir. Nokkur ár eru liðin síðan Siggi hóf baráttu sína við erfiðan sjúkdóm. „Hvað getur unnið á þessu heljar- menni?“ Svo spurði ég sjálfan mig þegar nöpur staðreynd sjúkdóms- greiningar lá fyrir. Veikindin eirðu þó engu og fyrr en varði mörkuðu þau Sigga af dráttum sínum og skarpar eftir því sem árin liðu. Þótt oft væri sláttur og fyrirferð á mínum manni duldist engum að Sig- urður Karlsson hafði stórt hjarta. Hann var ósínkur á kærleik sinn. Eftir ferð sína austur til Taílands fyrir nokkrum árum lýsti hann fyrir mér af fjálgleik útför sem hann var viðstaddur, þar sem innfæddir tendruðu bálköst og stigu dans í minningu hins látna. Nafna mínum varð þessi athöfn umhugsunarefni og þá guðdómurinn í sinni víðustu mynd. Sagði mér síðan að líkast til mætti segja að trúin, af hvaða meiði sem hún væri sprottin, hefði það grundvallarinntak „að við eigum að vera góð hvert við annað“, eins og hann komst að orði. Oft hefur mér orðið hugsað til þessara orða og tæra sannleiks sem í þeim felst. Við eigum að vera góð hvert við annað og í því efni var Sig- urður Karlsson einstök fyrirmynd. Einmitt þess vegna kveðjum ég og margir aðrir þann góða dreng, Sigga Kalla, af sárum söknuði, en engin þó meira en fjölskylda hans sem ég votta mína dýpstu samúð. Sigurður Bogi Sævarsson. Kynni mín af Sigurði Karlssyni hófust er hann var ungur drengur í foreldrahúsum að Kjartansstöðum í Hraungerðishreppi. Seinna kynntist ég Sigurði sem verktaka þegar hann og aðrir vörubílstjórar unnu að gerð flugvallar við Selfoss og smituðust af þeirri hugsjón, sem rak þá fram- kvæmd áfram. Þar á ég við það að þeir verðlögðu vinnuframlag sitt ekki í samræmi við viðurkennda gjaldskrá vörubílstjóra heldur lægra. Sigurður gerðist félagi í Flug- klúbbi Selfoss, lærði að fljúga og eignaðist flugvélina TF- HAL 4 sæta Cesnu. Þetta varð til þess að í dag eru tveir synir Sigurðar þeir Dagur og Gauti atvinnuflugmenn. Þegar Jón I. Guðmundsson, fyrsti formað- ur flugklúbbsins, féll frá eftir rúm 22 ár sem formaður tók Sigurður við og var í 7 ár. Sigurður var skemmtilegur félagi, hress og kátur í framkomu og átti marga vini og kunningja og þótti gaman að skemta sér með þeim og vildi gjarnan hafa þá í kringum sig. Í sumar hringdi Sigurður í mig og spurði mig að því hvort ég vildi koma með honum til Akureyrar, en hann hafði fengið ungan mann til að fljúga flugvélinni sinni. Ég þáði boðið og við áttum saman góðan dag. Fyrir nokkru átti Sigurður leið framhjá húsi okkar á rafmagnsfjór- hjóli. Við hjónin vorum svo „heppin“ að hjólið bilaði við hliðið. Þetta varð til þess að við áttum góða stund sam- an og gátum veitt þá aðstoð sem þurfti. Einn hæfileika hafði Sigurður um- fram aðra, en það var söngur. Hann hafði mikla og bjarta rödd. Sigurður var félagi í Karlakór Selfoss og söng l. tenór með honum um árabil. Að leiðarlokum viljum við Þórunn þakka vináttuna og um leið votta eig- inkonu Sigurðar, Ingunni Guð- mundsdóttur, og börnum Sigurðar af fyrra hjónbandi innilega samúð. Jón Guðbrandsson. Stórt skarð hefur verið höggvið í vinahópinn við fráfall Sigurðar Karlssonar. Hetjulegri baráttu hans við illvígan sjúkdóm er nú lokið og hann eflaust hvíldinni feginn. Siggi var hlýr og góður vinur sem við vor- um svo lánsöm að kynnast vel þegar hann hóf sambúð með Ingunni vin- konu okkar. Hann féll strax inn í hópinn og auðgaði samverustundirn- ar með návist sinni. Hann hafði sér- staklega skemmtilega frásagnar- gáfu, litaða frábærum húmor sem var hans aðalsmerki. Við yljum okk- ur við minningar um ferðir okkar um heiminn og veiðiferðir í íslenskri náttúru. Kæri vinur, við þökkum þér sam- fylgdina hingað til og biðjum þig að bíða rólegan, við vinahópurinn eig- um eftir að safnast til þín á heilagar grundir og þá tekur Smári upp gít- arinn, þú verður forsöngvarinn og við syngjum saman Rósina og öll hin lögin sem við elskum. Elsku Ingunn, okkar kæra vin- kona, við biðjum góðan Guð að geyma þig og vottum þér og fjöl- skyldunni allri okkar dýpstu samúð. Jarðþrúður, Sigurbjörn, Ólöf, Smári, Sigurbjörg, Valur og Vilborg. Það eru stór skörð höggvin í kunn- ingjahópinn á Selfossi þessi misser- in. Nú síðast er það Sigurður Karls- son sem fallinn er frá, langt um aldur fram. Við kynntumst Sigga Kalla á unglingsárum og höfum verið sam- ferða meira og minna allar götur síð- an. Leiðir lágu ósjaldan saman í gegnum íþróttaiðkun sona okkar og síðar á öðrum sviðum. Þegar ég gekk til liðs við Karlakór Selfoss var mér vísað í öftustu röð, þar voru fyrir Siggi Kalla og fleiri góðir. Siggi alltaf með gamanyrði á vörum og söng svo unun var á að hlýða. Hann valdist í einsöngshlut- verk og tvísöng á tónleikum og svo á geisladiskum kórsins. Og ég hef séð ófáar konurnar tárast af hrifningu við að hlusta á Sigga Kalla. Eftir- minnilegt er þegar kórinn var í Þýskalandi 1999 og Sigurður söng ásamt Jónasi Lilliendahl lag Björg- vins Þ. Valdimarssonar „Stúlkan mín“ hve þjóðverjarnir voru hissa. Þeir virtust ekki trúa eigin eyrum og síðan brutust út fagnaðarlæti og auðvitað uppklapp. Það var alltaf eins og Siggi hefði nægan tíma, alltaf var pláss fyrir eina sögu enn. Þegar við t.d. vorum samferða heim af söngæfingum var oft staldrað við og sagðar gamansög- ur og þegar Siggi sagði frá hló hann manna mest. Sigurður rak verktaka- fyrirtæki sitt, Verktækni, með myndarbrag. Hann var greiðvikinn og ráðagóður og hlóðust á hann verkefni. Hann gerði okkur mikinn greiða eitt sinn, en við höfðum ámálgað að lagfæra bílaplanið við Heiðarveg og koma upp körfubolta- spjaldi. Siggi kom á föstudegi og sagði: Við erum á milli verka á mánudaginn, er þá ekki rétt að leggja á planið? Strax var brugðist við og annar öðlingur á Selfossi sem einnig er fallinn frá, Þórir Gunnars- son, sauð saman staur og grind undir körfuboltaspjald og það var tilbúið er Siggi Kalla mætti með sinn mann- skap. Bílaplanið mokað upp, fyllt af grús, þjappað og malbikað. Allt gert á svipstundu og vel gert. Nú, þegar leiðir skilur er okkur efst í huga þakklæti fyrir ótaldar ánægjustundir sem við hjónin áttum með þeim Ingunni og Sigga Kalla. Minning um góðan dreng mun lifa. Við sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Hafdís Marvinsdóttir og Valdimar Bragason.  Fleiri minningargreinar um Sig- urður Snorra Þór Karlsson bíða birt- ingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.                         

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.