Saga - 1982, Page 8
6
SIGFÚS HAUKUR ANDRÉSSON
Hilmar Finsen landshöfðingi fylgdi fyrrnefndri auglýsingu eftir
með bréfi til amtmanna, dagsettu sama dag (3.apríl 1882), og
hvatti þá til að fylgjast með því, að sýslumenn færu eftir henni.
Árangurinn varð sá, að næstu árin safnaðist svo mikið magn
skjala af ýmsum stöðum landsins í hina þröngu geymslu á lofti
dómkirkjunnar í Reykjavík, að í algert óefni var komið, er leið að
aldamótunum 1900. Og litlu betur var ástatt í geymslum hinna
embættanna.
Enginn hafði heildarumsjón með skjalasöfnunum á kirkjuloft-
inu, heldur sá hvert framangreindra embætta í Reykjavík sjálft
um skjöl sín og geymslu, en landshöfðingjaritari annaðist um
safnið utan af landsbyggðinni.
2. Staða landsskjalavarðar stofnuð.
Safnið flutt í Alþingishúsið
Árið 1899 þótti þáverandi landshöfðingja, Magnúsi Stephen-
sen, sem hafði talsverðan fræðaáhuga, ekki mega lengur við svo
búið standa. Hann gekkst þess vegna fyrir því, að Alþingi veitti fé
til þess að unnt væri að ráða sérstakan skjalavörð að safninu frá
og með byrjun ársins 1900 og koma því fyrir í betri húsakynnum.
Húsnæði fékk safnið á efstu hæð Alþingishússins, en Þjóð-
minjasafnið, sem hafði búið þar við þröngan kost, var flutt i
skárra húsrými á efstu hæð nýbyggðs húss Landsbankans. Skjala-
vörður var ráðinn dr. Jón Þorkelsson, sem var þá rúmlega fertug-
ur og hafði þegar glæsilegan fræðimannsferil að baki. Hann gekk
ötullega fram við að koma safninu fyrir í hinu nýja húsnæði og
setja innheimtu skjala frá opinberum embættum og stofnunum í
fastar skorður í samræmi við reglugerð, sem um það var sett árið
1900. Þótt þar væri eingöngu gert ráð fyrir söfnun embættis-
skjala, tók Jón einnig að safna ýmsum öðrum gögnum um ís-
lenzka sögu, svo sem jarðeignaskjölum, verzlunarskjölum o.fl.
3. Safnahúsið við Hverfisgötu byggt
Húsnæðið á efstu hæð Alþingishússins var ekki líklegt til að
endast safninu lengi, er það naut umsjár svo ötuls forstöðumanns