Saga - 1982, Page 23
ÞJÓÐSKJALASAFN ÍSLANDS
21
lélegur, þótt dálítið hafi hann aukizt undanfarin ár. Gallinn er þó
sá, að aldrei hefur verið um neina markvissa söfnun nauðsynlegra
bóka að ræða. Það hefur því verið ýmsum tilviljunum háð, hvað
keypt hefur verið, og sitthvað annað hefur borizt safninu sem
gjafir. Þannig hefur safnið að vísu eignast allmargar þarfar og
nauðsynlegar handbækur, en margt hefur einnig rekið á fjörur
þess, sem það hefur lítið eða jafnvel ekkert með að gera. Hins
vegar vantar fjölmargar, bráðnauðsynlegar handbækur. Þetta
hefur raunar komið að mun minni sök vegna nálægðar Lands-
bókasafns. En eftir að þessi söfn skilja að skiptum, eins og ákveð-
ið hefur verið, verður Þjóðskjalasafnið afar illa sett. Verður þá
óhjákvæmilegt að sjá því fyrir nauðsynlegum bókakosti, eigi það
að vera starfhæft áfram.
3. Húsnæðismál
A. Safnahúsið áfangi í áætlaðri byggingarsamstæðu
Loks er að víkja að húsnæðismálum Þjóðskjalasafns. Talið
var, er Safnahúsið við Hverfisgötu var byggt, að það dygði hinum
tveimur söfnum (Landsbókasafni og Landsskjalasafni) næstu 50-
60 árin. Auk þess var Þjóðminjasafni, Náttúrugripasafni og vísi
að Listasafni ákveðið þar húsnæði fyrst um sinn. Lóðin var
ennfremur höfð nægilega stór til þess, að unnt yrði í framtíðinni
að byggja annað hús Lindargötu megin, sem gert var ráð fyrir, að
tengt yrði við gamla húsið með álmum, þannig að innangengt yrði
milli þeirra. Þessar viðbótarbyggingar voru, sem kunnugt er,
aldrei reistar. Lóðin, sem upphaflega var ætluð undir þær, hefur
verið tekin undir bílastæði. Nokkuð var lika orðið þröngt þar eftir
að tvær stórbyggingar, Arnarhvoll og Þjóðleikhúsið, höfðu verið
reistar á næstu grösum.
B. Geymslurými entist skemur en álitið var
Þjóðskjalasafnið fékk í sinn hlut vesturenda Safnahússins eða
um 1/3 hluta þess. Fyrstu tvo áratugina var vel rúmt þar um safn-
ið, tiltölulega rýmra en um Landsbókasafnið. Því var það ein af
röksemdum þeirra, sem vildu sameina þessi söfn undir einum og