Saga - 1982, Síða 58
56
GUÐRÚN ÁSA GRÍMSDÓTTIR
að vega bróðurbana sinn (s.r. 203), en Vigfús er talinn með í bar-
daga með Guðmundi biskupi (s.r. 282). í frásögn af Flugumýrar-
brennu er tekið fram um Jón prest Halldórsson, að hann hafi ekki
haft vopn sér til varnar, en Þórður djákni er sagður hafa varizt
þar með vopnum (Sturl. II, 197). í frásögn af Eyjólfi ábóta, þegar
hann var viðstaddur bardaga á Þveráreyrum 1255, sem varð milli
Hrafns Oddssonar og Þorgils skarða, segir, að þegar ábóta tókst
ekki að koma á sættum og sýnt var að bardagi yrði, þá hafi ábóti
kallað á klausturbræður og kennimenn, er fylgdu honum, beðið
þá frá að ríða og sagt ,, því at ekki vinnum vér hér ” (s.r. 267). í
frásögn af bardaga Órækju og Gissurar Þorvaldssonar í Skálholti
kemur og beinlínis fram, að lærðir menn þurftu leyfi biskups til
þess að berjast, þar sem segir, að Sigvarður biskup lofaði öllum
lærðum mönnum að berjast með Gissuri (Sturl. I, 563).
Af þessu ófullkomna yfirliti má greina, að einstakar sögur í
Sturlungu virðast leggja ríkari áherzlu á hlut presta að sáttum en
aðrar. Má þar einkum nefna Þorgils sögu og Hafliða,
Guðmundar sögu dýra og Þorgils sögu skarða. Einnig kom fram
mismunur á Króksfjarðarbók og Reykjarfjarðarbók þar sem hin
síðarnefnda og handrit frá henni ættuð eru fjölyrtari um
sáttastarf klerka. Ef til vill hefur sjónarmið þess sem tók saman
forrit Reykjarfjarðarbókar verið bundnara kirkjunni að þessu
leyti. í þessu samhengi má minna á, að í Reykjarfjarðarbók voru
bæði Árna saga biskups og Jarteinasaga Guðmundar Arasonar
biskups, en hvorug sagan hefur óyggjandi verið í
Króksfjarðarbók. Þessi samsetning Reykjarfjarðarbókar bendir
enn til kirkjulegrar tilhneigingar þeirra sem að forriti hennar
stóðu og er skaði, að þessi bók skuli ekki vera útgefin eins heil og
kostur er (sjá Sturl. I, XXXII; Björn M. Ólsen, Um Sturlungu,
293-97).
Dæmin sem rakin voru benda til þess að söguritarar hafi talið
rétt, að kennimenn sem leituðu um sættir milli manna, væru nafn-
greindir. Hvergi er sagt í Sturlungu, að það hafi verið regla, að
kennimenn bæru frið milli manna í stað þess að vega með vopn-
um. En dæmin benda til viðtekinnar venju á 12. öld og 13. öld um
að vígðir menn leituðu mjög oft sátta og griða og gerðu um sættir,