Saga - 1982, Page 160
158
SIGURJÓN SIGTRYGGSSON
27. Galeas ,,PAUST“ frá Haugasundi
Skip þetta rak upp í kletta og brotnaði mikið, svo það var talið
ónýtt. Skipstjórinn, E. Svanberg, virðist ekki hafa mætt fyrir rétti
og dómabækur hafa ekkert að segja um þetta strand. Flakið var
boðið upp 24. september og varð Baldvin Þorvaldsson á Böggvis-
stöðum hæstbjóðandi, galt 301 krónu.
28. Galeas ,,RAP“ frá Haugasundi
Skemmdir urðu á þessu skipi strax aðfaranótt 10. september.
Að sögn skipstjórans, O. Olsen, lá hann við Hrísey í strekkings-
vindi. Þá skeði það óhapp að skonert ,,Ansgarius“ frá Stafangri
dró legufæri sín og rakst á ,,Rap“ með þeim afleiðingum að stefn-
ið í ,,Rap“ klofnaði, bugspjótið brotnaði og talsverðar skemmdir
urðu á byrðingi. í rokinu mikla lá ,,Rap“ enn við Hrísey. Til þess
að forða honum frá strandi varð að höggva af honum reiðann.
Skipið hefur því þurft mikillar lagfæringar við og trúlega hefur
það ekki komist heim til Noregs á þessu hausti.
29. Fiskiskúta ,,RAP“ frá Björgvin
Þetta skip var á þorskveiðum við ísland. Skipstjórinn, Edvard
Santhal, kvaðst hafa siglt inn til Hríseyjar undan veðri 9. septem-
ber. Þar var lagst við tvennt innarlega á skipalæginu. Við stjórn-
borðsakker var 45 faðma löng keðja, en pertlína á bakborða.
Legufæri hafa því sýnilega verið léleg, enda fór skipið að reka að
landi strax og rokið skall á. Skipstjóri ákvað nú að losna við reið-
ann, en rekið var mjög hratt, og nokkurn tíma tók að höggva
mastrið. Það stóðst því á endum, að um leið og mastrið féll, tók
,,Rap“ niðri á klapparrifi og brotnaði strax svo mjög að skipið
fylltist af sjó á svipstundu.
Skipshöfnin ætlaði nú að bjarga sér að landi á skipsbátnum,
sem hékk aftan í skipinu. Þegar til hans átti að taka, var hann
sokkinn og maraði í kafi. Reynt var að draga hann að skipinu og
tæma hann þar, en ekki varð við neitt ráðið fyrir roki og sjógangi.