Saga - 1982, Page 248
246
EINAR MÁR JÓNSSON
handtók alla íbúana í einu. Síðan yfirheyrði hann hvern einasta
þeirra mjög rækilega um öll smæstu smáatriði í lífi hans, hvort
sem það voru dagleg störf, ástamál, æviatriði eða hugarheimur,
til að finna öll merki um villutrú, hve lítil sem þau væru. Yfir-
heyrslurnar voru þýddar orðrétt á latínu og skrifaðar þannig upp-
Le Roy Ladurie fór nú að kanna þessar einstöku heimildir og
reyndust þær svo auðugar að hann gat rannsakað lífið í þorpinu
svo til eins nákvæmlega og hann hefði verið mannfræðingur og
starfað þar sjálfur árið 1315 eftir itrustu reglum þeirrar fræði-
greinar. í því riti sem hann gaf út um þessar rannsóknir 1976 og
bar einfaldlega heitið Montaillou lýsti hann jafnhliða atvinnulífi.
þjóðfélagsbyggingu, undirferli, ástalífi og hugmyndaheimi þorps-
búa frá sem víðustu sjónarhorni og reyndi að finna samhengi allra
þessara atriða. Þetta rit er eitt hið sérkennilegasta i franskri sagn-
fræði um langt skeið og er því ekki að furða þótt það hafi orðið
metsölubók í Frakklandi, þótt það sé mjög fræðilega skrifað og
því allþungt aflestrar.
Montaillou er gott dæmi um það viðhorf sem þriðja kynslóð
Annála-hreyfingarinnar hefur til hugmyndasögu. En þar sem bók-
in er algerlega samin í því sem kallað hefur verið „mannfræði-
legur nútími“, þ.e.a.s. þorpslífinu er lýst eins og það sé samtími
höfundar og lítil eða engin tengsl rakin til annarra tímaskeiða,
fjallar hún ekki um þróun hugmynda né það vandamál hvernig
hin ýmsu fyrirbæri þróast saman. í bók sinni Lögstéttirnar þrjár,
sem út kom 1978, reynir miðaldasagnfræðingurinn Georges Dubý
hins vegar að fjalla um samspil hugmyndasögu og stjórnmála-
sögu, þ.e.a.s. fyrirbæra sem tilheyra langtíma og skammtíma.
Tekur hann sér fyrir hendur að lýsa uppruna þeirrar frægu kenn-
ingar miðaldamanna, að þjóðfélagið sé þrískipt eins og guðdóm-
urinn sjálfur og skiptist í þrjár stéttir, klerka, hermenn (riddara)
og bændur. Duby rekur ýmis atriði í hugmyndaheimi 11. og 12-
aldar, segir frá ýmsum atburðum stjórnmálasögunnar og skýrir
hvernig þessar þjóðfélagshugmyndir spruttu af samspili ýmissa
ólíkra þátta. En þegar hugmyndafræðin var einu sinni komin a
kreik reyndist hún ótrúlega lífseig, hún tilheyrði eftir það bylgju'