Saga - 1982, Page 327
RITFREGNIR
325
eða sérstök tækifæri: „Á mínum ungu árum var það úr gildi gengið hér í
sveit að „sitja í föstunni.“ En þó var það svo, að helst hefði Kristrún á
Kúskerpi viljað viðhafa þann sið, en var þó ekki ströng með það, hefur
ekki séð það til neins. En á föstunni nefndi hún oft klauflax og afrás, en
það þýddi kjöt og flot, sem ekki mátti nefna, þegar setið var í föstunni.“
(133-134.)
Persónulýsingar i bókinni eru einkar skýrar, og Ólína segir kost og löst
á fólki af hreinskilni. Fyrir vikið öðlast það líf á blöðum bókarinnar.
Steingrimur á Silfrastöðum og Sigurjón á Laxamýri eru ljóslifandi, hvor
með sínum hætti. Laxamýrarfrásögnin er annars með öðrum blæ en
lýsingin á Kúskerpisdvölinni og mótast af heimilisandanum; nyrðra var
gáski mikill á fjölmennu heimili Laxamýrarfeðga, svo Sigurjóni gamla
þótti stundum nóg um. Ef hjúin dönsuðu á kvöldin, þótti honum sem
þeim væri ekki haldið nógu vel að vinnu.
Dýrasögur Ólínu bera vott sömu hreinskilni og hófsemi og aðrir
bókarhlutar, en um fram allt eru þeir til vitnis um djúpa virðingu fyrir
lífinu, mönnum og málleysingjum. Bókinni lýkur á dagbókarbrotum, í
senn einlægum og ljóðrænum.
Nafnaskrá fylgir bókinni til mikils hægðarauka, en hún er naumast
nógu vel úr garði gerð, því upplýsingar um fólk eru af skornum skammti:
sums staðar er einungis tilgreint fornafn og staða. Bókarheitið get ég illa
sætt mig við. Það er bæði of langt og of hátíðlegt og stingur því i stúf við
hófsemi frásagnarinnar. Að öðru leyti er útgáfan prýðilega út garði gerð
og aðstandendum til sóma.
Um ritstörf sín segir Ólína: „Því fer fjarri, að ég hafi ætlað að rita
ævisögu mina. Þessir þættir eru skráðir fyrir þrásækni annarra, og varð
ég við því, vegna þess að mér þykir gott, ef hér varðveitist nokkur
fróðleikur, er ella félli fyrnskunni að bráð.“ (190-191.)
Þetta ætlunarverk tókst mætavel, því að minningar Ólínu Jónasdóttur
eru enn með því besta, sem út hefur komið af því tagi.
Sölvi Sveinsson.