Saga - 1995, Page 84
82
GUNNAR KARLSSON
með vistarskyldu." „Tilskipunin um lausamenn og húsmenn [1863]
var lagasmíð, sem hvorki var hrá né soðin, óréttlát í mörgum grein-
um og varla mannsæmandi í öðrum, svo sem þeirri ákvörðun að
bjóða vistlausa menn upp á manntalsþingum." Við umræður um
lagafrumvarp um húsmenn og þurrabúðarmenn 1887 gerir Sverrir
þessa athugasemd: „Svo stríðir hleypidómar eru ekki óalgengir í
þingskjölum og þingræðum þessara ára, er sjávarútvegurinn er far-
inn að teygja til sín sveitafólkið."10
Þessi skeleggi boðskapur Sverris Kristjánssonar kom ekki af stað
neinni hreyfingu í íslenskum sagnfræðirannsóknum næstu áratug-
ina. I Háskóla Islands var ekki, svo að ég viti, skrifuð námsritgerð
sem snertir efni Sverris, fyrr en Jón E. Böðvarsson skrifaði BA-rit-
gerðina Leysingu vistarbandsins árið 1972.* 11 Skoðanir Sverris skiluðu
sér ekki inn í söguyfirlit heldur. Þremur árum eftir að rit hans birt-
ist kom út í Sögu íslendinga fyrri hlutinn af sögu Iandshöfðingjatím-
ans eftir Magnús Jónsson. Þar er tíu blaðsíðna langur kafli um sveit-
arstjórn og félagsmál, þar sem drepið er á fátækraframfærslu og
vistarband, en ekki átökin um öreigagiftingar. Orð Magnúsar um
umræður um fátækraframfærsluna nægja til að sýna hversu dauft
rödd Sverris endurómar hjá honum:12
Á þessu tímabih koma fyrstu vísar að félagsmálum, og var
þá hreppsnefndum falin framkvæmd. Er það að vísu fátt og
lítið á þessu tímabili. Margt af því, sem stungið var upp á,
náði ekki fram að ganga, enda mundi sumt af því sjálfsagt
þykja sízt til framfara, eins og t. d. tilraunir til þess að auka
vald sveitarstjóma yfir þurfalingum o. s. frv. Er varla ástæða
til þess að skýra frá því, þó að það sýni oft furðuvel hugsunar-
hátt hvers tíma. Var hann yfirleitt frekar harðýðgislegur í
garð þeirra, er af sveit þáðu, enda ótti við það, að menn kærðu
sig ekki um að forðast sveitarstyrk, ef ekki fylgdu honum
vemleg óþægindi.
10 Jón Blöndal og Sverrir Kristjánsson: Alþingi og félagsmálin, 25-7.
11 Elísabet Ruth Guðmundsdóttir og Ingibjörg Amadóttir: Skrá um lokaverkefni í
sagnfræði við Háskóla íslands. [Háskólabókasafn] 1994,93.
12 Saga íslendinga IX. Timabilið 1871-1903. Landshöfðingjatímabilið. Samið hefir
Magnús Jónsson. Fyrri hluti: Þjóðmál - atvinnuvegir. Rv., Menntamálaráð og
Þjóðvinafélag, 1957, 176. - Magnús átti að vísu ekki að fjalla um tímann þegar
félagslegrar íhaldsemi gætti allra mest á þingi, milli 1860 og '70. En hann
seildist oft lengra til baka í frásögn sinni um það sem honum þótti frásagnar-
vert.