Saga - 1995, Side 230
228
RITFREGNIR
Ekki nenni ég að reka hnýflana í nokkur smáatriði, þar sem mér fannst
staðhæfingar höfundar eih'tið grunsamlegar og frásagnargleðin jafnvel hlaupa
með hann í gönur. Hinu er hins vegar ekki að neita, að í bókina vantar illi-
lega ýmsar beinharðar staðreyndir og þá einkum tölulegar. Til að mynda
hefði mikið gagn verið að því að fá töflur um íbúafjölda í bænum frá einu
ári til annars og sömuleiðis tölur um umfang verslunar og siglingar til
bæjarins, ef þær eru til. Slíkt efni hefði aukið á notagildi bókarinnar og
hefði sem hægast mátt birta það í bókarauka. Sama máli gegnir um bæjar-
stjóm og bæjarmál. Um þessa mikilsverðu þætti er, að mínum dómi, of lít-
ið fjallað og óskipulega.
Frágangur bókarinnar er víðast með ágætum og prentun góð. Ekki verð-
ur þó komist hjá því að geta þess, að í upphafi III. kafla, á bls. 116-17, hafa
tilvísananúmer ruglast illilega og myndatexti á bls. 130 er býsna torskil-
inn, svo ekki sé meira sagt. Þá er höfundur ansi ályktunardjarfur í mynda-
texta á bls. 255. Þar er birt mynd af tveim fiskverkunarkonum með tága-
körfur, sennilega í kaffitíma, og segir, að þótt ekki verði fullyrt að konum-
ar séu akureyskar, þá séu þær vísast norðlenskar. Vissulega getur þessi
ályktun staðist, en á myndinni er ekkert, sem bendir til þess, að konurnar
séu norðlenskar. Þær þurfa ekki einu sinni að vera íslenskar. Eftir búning-
unum að dæma gæti myndin allt eins verið tekin í Færeyjum eða á Jót-
landi.
Þetta eru þó smáatriði og niðurstaðan hlýtur að verða sú, að II. bindi af
Sögu Akureyrar sé á flestan hátt vel heppnað. Bókin er vel skrifuð og hefur
að geyma mikinn fróðleik um sögu bæjarins og bæjarbúa á því skeiði, sem
hún tekur til. Megingallinn er sá, að hún gagnast fræðimönnum verr en
skyldi. Þar veldur skortur á tölulegum upplýsingum miklu, auk þess sem
uppbygging ritsins er með þeim hætti að það getur engan veginn talist að-
gengilegt. Lesandi getur ekki flett upp í efnisyfirliti og séð í sjónhending
hvar upplýsingar um ýmsa grundvallarþætti í sögu Akureyrar sé að finna,
en verður að lesa síðu upp og síðu ofan. Þá er það og nokkur galli, að mínu
mati, að höfundur virðist líta á sögu Akureyrar sem einangrað fyrirbæri og
tengir hana lítt þróun mála annars staðar á Norðurlandi. Af þessum sök-
um er sagan slitin úr samhengi og gæti lesandinn fengið þá hugmynd, að
Akureyri hefði vaxið upp án nokkurra tengsla við það sem var að gerast i
nágrannahéruðum eða annars staðar á landinu. Þetta er óneitanlega ljóður
á riti, sem hlýtur að eiga að vera grundvallarrit um sögu höfuðstaðar Norð-
urlands.
Jón Þ. Þór