Saga - 1999, Blaðsíða 256
254
RITFREGNIR
Umfjöllun um rekstrarlega þætti í starfsemi Innréttinganna byggist að
langmestu leyti á óprentuðum heimildum. Það eru aðallega 18. aldar skjöl
úr söfnum stjórnvalda, auk skjala sem varðveist hafa frá Innréttingunum
sjálfum og eru á handritadeild Landsbókasafns. Verulegur hluti þessara
heimilda hefur lítið verið notaður áður, eins og bókhaldsgögn og mánað-
arskýrslur úr atvinnurekstrinum. Nokkur galli er að ósamræmi í tilvísun-
um, sem kemur m.a. fram í að stundum er aðeins vísað í heila skjalakassa
sem ná til margra ára þegar í raun er notað ákveðið bréf. Það gerir einnig
öðrum erfitt fyrir við frekari eftirgrennslanir, en vikið er að mörgum þátt-
um sem líklegt er að veki áhuga til frekari rannsókna. Ritið ber þess
einnig nokkur merki að heimildasöfnun og ritun bókarinnar var að
mestu lokið fyrir allmörgum árum og því lítið um að teknar séu inn
nýjar rannsóknir. A síðustu árum hafa nokkrar lokaritgerðir verið skrif-
aðar við Háskólann sem tengjast starfsemi Innréttinganna, auk eldri
óprentaðra ritgerða, sem eru ekki heldur notaðar við skriftirnar.
Nokkrar missagnir eru í heimildaskrá varðandi útgáfuár rita. A köflum
er prófarkalestri nokkuð áfátt, sérstaklega í myndatextum.
Allmargar myndir eru í bókinni og skapa þær góða umgjörð um efnið.
Myndefnið tengist efni bókarinnar náið, sýnir staðhætti með kortum og
teikningum, myndir af áhöldum, tækjum, innsiglum og skjölum svo
dæmi séu nefnd. Athyglisvert er að sjá mynd af upphaflegu hlutabréfi
úr Innréttingunum, hinu eina sem vitað er til að hafi varðveist. Ekki er
síður áhugaverð mynd af fréttablaði Skúla Magnússonar sem hann hefur
sent til íslands, Sa Islendske Avis 1765. Einnig hefur verið leitast við að
birta myndir af sem flestum persónum sem koma við sögu, en þær er ekki
auðvelt að finna fyrir þessa öld sögunnar.
Sjónarhóll höfundar er að skoða efnið út frá hugmyndum um markað-
inn þrátt fyrir að um sé að ræða starfsemi og tímabil sem var allólíkt
markaðssamfélagi seinni alda. Við lýsingar á ástandinu á 18. öld eru
gjarnan notuð hugtök eins og hinn frjálsi markaður eða lögmál markaðar-
ins. Hugtakanotkun ber því mikinn keim af að litið er á starfsemi hlutafe-
lagsins sem sambærilega við fyrirtækjarekstur seinni tíma, og m.a. velt
fyrir sér leit að nýjum mörkuðum, markaðshópum og hagnaðarvon.
Þegar hugað er að skýringum og stærra samhengi getur þetta að sufflU
leyti verið villandi. Innréttingarnar störfuðu á tíma einveldis, starfsleyfa
og fríðinda konungs. Þannig skortir nokkuð á að gerð sé grein fyrir þvl
samhengi sem 18. aldar samfélagið setti starfsemi á borð við þessa, sam-
félagslegu og hugmyndalegu. Hvað varðar rekstur iðnaðarstofnananna
í þrengri merkingu nær höfundur betri tökum á heildarmyndinni og keni-
ur með gagnlegt sjónarmið út frá þátttakendum í starfseminni, þ.e. eig'
endum, starfsmönnum, iðnnemum og öðrum sem tengdust rekstrinum
og gátu ekki eingöngu haft viðreisn íslands að leiðarljósi.
Ahrifum hugmynda á framvindu sögunnar er gert hátt undir höfði og