Morgunblaðið - 15.12.2009, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 15.12.2009, Blaðsíða 29
Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. DESEMBER 2009 „Þú Drottinn, átt það allt, sem öðlumst vér á jörð.“ Eitt það verðmætasta sem við þiggjum úr hendi Drottins er vinátta góðra manna. Við vorum svo lánsöm að þiggja slíka gjöf þegar við eignuðumst Lauf- eyju að vini, leiðir okkar lágu fyrst saman í kirkjukór Seljakirkju þar sem við sungum saman í árafjöld. Þarna bundumst við og eiginmenn okkar ævarandi vinaböndum. Laufey var ákaflega sterk og raunsæ kona eins og best kom fram í veikindum hennar, hún var ekki að væla eða vorkenna sjálfri sér, hún hafði meiri áhyggjur að ástvinum sín- um í þessum aðstæðum. Margar ógleymanlegar ferðir höf- um við farið, bæði innanlands og ut- an. Gott er að minnast heimsóknar til þeirra Hannesar í sumarbústaðinn í Bjarnafirði, veiðiferðanna í Land- brotið og nú seinni árin í kjötsúpu og dansleikjaferð í Grímsnesið og svona mætti lengi telja, þetta eru allt perlur í minningasjóðinn sem við erum svo lánsöm að eiga. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan við hittumst síðast og áttum saman eina af okkar ljúfu stundum, þar sem ákveðið var að fara í leikhús í janúar. Enn einu sinni erum við minnt á að mennirnir áætla en Guð ræður, og nú fannst honum greini- lega nóg á hana lagt og gaf henni lausn frá veikindabölinu. Við trúum því og treystum að hjá honum sé hún aftur glöð og frjáls. Þakka þér Guð fyrir að hafa fengið að eiga hana að vini. „Hver gjöf og fórn, sem færum vér, er fátæk þakkargjörð.“ Hannes, kæri vinur, við vottum þér og fjölskyldunni okkar innilegustu samúð, megi góður Guð gæta ykkar og hugga á þessum erfiðu tímum. Bára, Eiríkur, Hjördís, Þórhallur, Ingibjörg, Eyjólfur, Kristín og Guðmundur Heiðar. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífs þíns nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði nú sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Elsku Hannes, Hjalti, Ómar, Sigga, Sigríður, fjölskylda og vinir, missir ykkar er mikill og vottum við ykkur okkar dýpstu samúð á þessum erfiðum tímum. Minningin um góða konu lifir áfram. Guðrún Inga og fjölskylda. Ekkert er jafn óumflýjanlegt og dauðinn. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær. Hann var þó full- snemma á ferðinni í tilfelli Laufeyjar vinkonu okkar. Vegslóðar okkar og Laufeyjar hafa verið nálægir stærst- an hluta ævinnar og aldurinn rétt að segja sá sami. Fyrstu kynnin voru þegar við vorum herbergisfélagar á Kvennaskólanum á Blönduósi. Eftir að við stofnuðum heimili og börnin tíndust í heiminn varð sam- gangur æ meiri. Öll erum við fædd og uppalin í sveit, sitt hvorum megin við Húnaflóann, Laufey og Matta á Ströndum en Hannes og Ingimundur í Húnavatnssýslu. Áhugamálin voru nokkuð svipuð. Koma þá ferðalög í byggðum og ekki síður óbyggðum upp í hugann. Sumar eftir sumar var lagt af stað í ævintýraferðir með bíl- ana hlaðna börnum og vistum til margra daga. Í þessum ferðum hafa æði margir staðir verið kannaðir og náttstaðir oft verið víðsfjarri manna- byggðum. Þar má nefna Þórsmörk, Fjallabaksleiðir, Kjöl, Stórasand, Sprengisand, Gæsavatnaleið og er þó fátt eitt talið. Laufey naut sín vel í svona lífsmáta hvort heldur var sem kortalesari, kokkur eða í að skipuleggja ferðirn- ar. Í þessum hópi var ekki verið að gera veður út af því þó eitthvað óvænt kæmi uppá. Síðar tóku við ut- anlandsferðir bæði á eigin vegum og í kórferðum með Kór Átthagafélags Strandamanna þar sem Laufey var kórfélagi í mörg ár. Okkur er líka minnisstæð ferð okk- ar fjögurra með Norrænu til Norð- urlanda árið 2007 þar sem rigndi því- lík ósköp að elstu Skánarbúar mundu ekki annað eins, enda flutu dýnur á tjaldstæðum og heyrúllur niður elfar. En sólin skein á milli og þrátt fyrir það að veikindin væru þá farin að ágerast hjá Laufeyju, heyrðist aldrei kvörtunartónn. Og við skemmtum okkur öll vel. Við gerðum auðvitað margt annað saman en að ferðast. Ekki var langt á milli heimila okk- ar og Laufeyjar og Hannesar, stund- um röltum við á milli til að ræða mál- in yfir kaffibolla að ógleymdum höfðinglegum veislum sem Laufey var þekkt fyrir. Laufey stóð upprétt til síðasta dags en nú skilja leiðir. Við minnumst hennar með söknuði sem sterkrar og góðrar konu sem gott var að eiga að vini. Við þökkum góða samfylgd og sendum fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðar- kveðjur og biðjum Guð að veita þeim styrk. Þú leiðir oss, Drottinn, að lindunum hreinu, þú ljósið þitt kveikir við himnanna stól. Um tíma þó syrti, þá brátt aftur birtir, þú breiðir út þinn faðm og veitir oss skjól. (Óskar Ingimarsson.) Matthildur Sverrisdóttir og Ingimundur Benediktsson. Við munum ekki eftir okkur án þess að Laufey hafi verið hluti af til- verunni. Það var bara svo sjálfsagður hlutur. Það hefur ávallt verið mikill samgangur milli fjölskyldna okkar. Á okkar yngri árum ferðuðumst við mikið saman, gjarnan um hálendið. Þetta voru alltaf mjög skemmtilegar ferðir og góð stemning í hópnum. Þau eru mjög eftirminnileg gamlárs- kvöldin sem fjölskyldur okkar nutu saman á uppvaxtarárum okkar og það situr eftir hvað Laufey var gest- risin og hversu ríkulegar veitingarn- ar voru. Enda var þetta kona sem gekk rösklega til allra verka og var ekkert að tvínóna við hlutina eða velta þeim fyrir sér. Það var fyrir unga drengi eins og að vera í æv- intýri að vaka langt fram eftir í stóra húsinu þeirra í Giljaseli. Eftir erfið veikindi er þrautaganga Laufeyjar nú á enda. Það eru forrétt- indi að hafa fengið að kynnast þessari sómakonu. Við viljum þakka sam- fylgdina öll þessi ár og minnast henn- ar með gleði. Kærum vinum okkar, Hannesi, Hjalta, Ómari, Siggu Hörpu, Siggu ömmu og fjölskyldum þeirra sendum við innilegar samúð- arkveðjur. Magnús og Sverrir Ingimundarsynir. Þetta er svo sorglegt. Að Laufey, besta vinkona fjölskyldunnar, hafi þurft að ganga í gegnum þessa miklu erfiðleika. Að hún hafi svo verið tekin frá okkur hinum sem þótti svo ótrú- lega vænt um hana. Elsku Laufey. Ég hef þekkt hana alla mína ævi og þessi staðreynd þykir mér óendan- lega erfið. En ég á margar góðar minningar sem ég geymi í hjarta mínu og á eftir að hugsa til um ókom- in ár. Laufey var mér sem móðir. Hún var yndisleg kona sem tók mér alltaf opnum örmum og var mér svo góð. Fjölskyldur okkar fóru í ótal ferða- lög saman, þá sérstaklega í útilegur um allt Ísland. Ég hef oft hugsað til þess hversu dýrmætar þær ferðir eru mér, þar sem þau sváfu í tjaldvagn- inum og við í bílnum. Talað var sam- an í talstöðvum á milli bílanna og brunað yfir ár og læki og alloft yfir Krossá í Þórsmörk. Þetta var ynd- islegur tími þar sem aðalmálið var að ganga á fjöll, grilla góðan mat og hafa gaman saman. Það var alltaf mikill samgangur á milli fjölskyldnanna. Það var alltaf svo gott að koma til Laufeyjar og Hannesar. Bæði svo traust og hjartahlý. Þau hafa fylgt okkur í gegn um stóra sem smáa áfanga í líf- inu og fagnað þeim með okkur. Lauf- eyju mun alltaf vanta í öll boð í Lind- arselinu hér eftir. Hvort sem það er í kvöldkaffi eða veislur. Söknuðurinn er svo mikill, tárin streyma. Ég trúi því varla enn að hún sé farin frá okkur. Þetta er svo sárt. En henni líður vel á himninum með hinum englunum, stjörnunum og Guði. Guð geymi þig, elsku Laufey mín. Elsku hjartans Hannes, Hjalti, Ómar, Sigga Harpa, amma Sigga og fjölskyldur: Guð styrki ykkur í þess- ari miklu sorg. Þórdís Hlín Ingimundardóttir. Elskuleg vinkona mín og nágranni til margra ára er látin. Ég kynntist Laufeyju fyrir rúmlega 30 árum þeg- ar við fluttum í Giljaselið. Við urðum fljótt mjög góðar vinkonur, enda með börn á svipuðum aldri. Minningarnar streyma fram í hugann. Það var gott að eiga Laufeyju og Hannes fyrir ná- granna, enda leituðum við mikið til hvor annarra eins og þegar eitthvað stóð til í fjölskyldunni eins og ferm- ingar og útskriftir barna okkar var þægilegt að fara í næsta hús og flytja húsgögn og annað á milli. Á heimili Laufeyjar og Hannesar var mjög gestkvæmt, enda voru þau bæði fædd og uppalin úti á lands- byggðinni, og dvöldu því margir ætt- ingjar þeirra hjá þeim í lengri og skemmri tíma, bæði ungt fólk í námi í höfuðborginni og aðrir. Þessu fólki kynntist ég mjög vel, allir voru vel- komnir til Laufeyjar. Við Laufey gerðum margt skemmtilegt saman, stundum gátum við bara setið lengi og talað um lands- ins gagn og nauðsynjar, einnig vor- um við fyrir nokkrum árum duglegar að sækja alls konar föndurnámskeið eins og jólaföndurnámskeið o.fl., enda höfðum við báðar áhuga á öllu jóladóti og að skreyta húsin okkar hátt og lágt fyrir jólin, einnig var allt- af siður hjá okkur að koma og smakka smákökur fyrir jólin þegar bökunarlyktin barst á milli húsanna okkar. Laufey átti mörg áhugamál, t.d. lestur góðra bóka, hún hafði líka un- un af allri handavinnu, enda voru það henni mikil vonbrigði þegar hún gat ekki lengur gert neitt í höndunum vegna sjúkdómsins, sem nú hefur lagt hana að velli allt of fljótt. Þetta ár hefur verið mjög erfitt fyrir alla fjölskylduna enda hrakaði heilsu hennar mjög síðustu mánuði, hún var samt algjör hetja sem barðist fram á síðustu stundu, og aldrei heyrði mað- ur hana kvarta. Elsku Laufey mín, ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þér, og átt þig fyrir nágranna öll þessu ár, þetta var dýrmætur tími sem ég geymi í hjarta mínu. Ég sendi Hannesi, börnum þeirra, barnabörnum, aldraðri móður og öllum öðrum ættingjum og vinum innilegustu samúðarkveðjur. Ég bið guð að styrkja þau í þeirra miklu sorg. Kallið er komið, komin er nú stundin, vinaskilnaðar viðkvæm stund. Vinirnir kveðja vininn sinn látna, er sefur hér hinn síðsta blund. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (Vald. Briem.) Þín vinkona, Karen. Minningarkort 535 1825 www.hjarta.is 5351800 ✝ Ástkær eiginkona mín, ERNA MATTHÍASDÓTTIR, lést á Landspítalanum fimmtudaginn 10. desember. Útförin verður gerð frá Fossvogskirkju fimmtu- daginn 17. desember kl. 13.00. Loftur Þorsteinsson, Þorsteinn Loftsson, Hanna Lilja Guðleifsdóttir, Matthías Loftsson, Kolbrún Þorsteinsdóttir, Ingibjörg Loftsdóttir, Trausti Sigurjónsson, Páll Loftsson, Anna Pála Vignisdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, ÁRNI JÓHANNSSON bóndi, Teigi í Fljótshlíð, verður jarðsunginn frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð miðvikudaginn 16. desember kl. 14.00. Blóm vinsamlegast afþökkuð, en stuðningur við Krabbameinsfélagið er vel metinn. Jónína Björg Guðmundsdóttir, Hrafnhildur Árnadóttir, Páll P. Theódórs, Guðbjörn Árnason, Hlín Hólm, Árni Björn Pálsson, Sylvía Sigurbjörnsdóttir, Fannar Pálsson, Hlynur Pálsson, Anna Þrúður Guðbjörnsdóttir, Helga Hólm Guðbjörnsdóttir, Hugi Hólm Guðbjörnsson. ✝ Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, ARNÓR SIGURÐSSON frá Hnífsdal, síðast til heimilis Dvalarheimilinu Felli, Reykjavík, lést sunnudaginn 13. desember. Útförin verður auglýst síðar. Guðmunda Arnórsdóttir, Björn Ástmundsson, Málfríður Arnórsdóttir, Sigurður Arnórsson, Sigríður Kristjánsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir og afi, HERMANN HELGASON, Hólmgarði 53, Reykjavík, lést á Landspítala, Fossvogi, sunnudaginn 13. desember. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju mánudaginn 21. desember kl. 13.00. Oddný Jónasdóttir, Sigríður Helga Hermannsdóttir, Ian David McAdam, Guðbjörg Edda Hermannsdóttir, Helga Solveig, Davíð Þór og Oddný Sjöfn. ✝ Ástkæra móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, SVANBJÖRG EIRÍKSDÓTTIR, Hlíðargötu 28, Sandgerði, lést fimmtudaginn 10. desember. Jarðarförin fer fram frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði fimmtudaginn 17. desember kl. 14.00. Ása Sigríður Sveinsdóttir, Pétur Friðrik Sveinsson, Linda Ósk Sveinsdóttir, Steinþór Einarsson, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.