Saga - 2004, Síða 63
árum síðar gekk hann að eiga Guðrúnu Vernharðsdóttur, ekkju for-
vera síns á Brjánslæk. Hálfdán lést 8. nóvember 1865 og er út frá
honum kominn merkur ættbogi í íslenskri prestastétt.16
Dagbókina hóf Hálfdán að rita árið 1825 þegar hann var Hafnar-
stúdent og hélt því áfram til æviloka. Í upphafi er fremur um minnis-
bók að ræða en frá 1826 er bókin færð sem dagbók og nær hún allt
fram í október haustið sem Hálfdán lést tæpum fjörutíu árum síðar.
Hér verður hugað að færslum Hálfdánar á afmælisdaginn með það
í huga að kanna hvaða ljósi þær varpa á afmælishald hér á landi á
öðrum og þriðja fjórðungi 19. aldar en jafnframt á tímaskilning, lífs-
sýn og einstaklingsvitund Hálfdánar sjálfs.
Við undirbúning þessarar greinar voru dagbókarfærslur Hálf-
dánar á tímaskipta- og merkisdögum kannaðar og kom í ljós að
færslur á afmælisdegi hans voru einna stöðugastar slíkra færslna.17
Er sumardagurinn fyrsti eini dagurinn sem kemst til jafns við hann.
Sá dagur virðist lengi hafa verið haldinn hátíðlegur hér og um
miðja 19. öld mun mönnum hafa borið saman um að hann væri
mesta hátíð ársins að jólum einum undanskildum. Þá skipuðu og
misseraskipti eða mót sumars og vetrar æðri sess í huga fólks en
áramótin.18 Hálfdán færði dagbók sína á sumardaginn fyrsta frá
upphafi til loka að undanteknum fjórum stökum árum. Afmælis-
dagafærslurnar hófust ári síðar og þar vantar einnig fjórar færslur.
Lengsta eyðan er 1831–1833 þegar Hálfdán var 30–32 ára. Árið 1828
vantar einnig færslu þennan dag og árið eftir mundi Hálfdán ekki
eftir afmælinu fyrr en að áliðnum degi. Þessi stöðugleiki sýnir að
Hálfdán hefur talið fæðingardaginn mikilvægan. Gildi afmælisins
hefur einnig aukist með árunum. Þessi vitund fyrir afmælisdegin-
A F M Æ L I S H A L D O G S J Á L F S V I T U N D 63
16 Æviágrip Hálfdánar er byggt á eftirfarandi heimildum: ÞÍ. Sérskjöl. Hannes
Þorsteinsson, „Hálfdán Einarsson“. — Lbs. Lbs. 2368 4o. Sighvatur Grímsson
Borgfirðingur, „Hálfdán Einarsson 1848–1865“, bls. 691–703. — ÞÍ. Ministeri-
albækur Múlakirkju (BA/2), Grundarþinga (BA/3) og Ögurþinga (BA/1). —
Sálnaregistur Grundarþinga (BC/1). — Manntal á Íslandi 1816, bls. 951. — Jón
Helgason, „Helgi lektor Hálfdánarson“, bls. 1–4. — Páll Eggert Ólason, Ís-
lenzkar æviskrár I, bls. 116–117, 356 og 388; II, bls. 235–237; III, bls. 189; IV, bls.
178; og V, bls. 17. — Björn Magnússon, Guðfræðingatal 1847–1976, bls. 126,
162–163 og 468–469. — Jón Þ. Þór, Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna, bls.
83–84, 101–142, 189–242, 244, 248 og 265–267.
17 Eftirtaldir dagar voru kannaðir: Nýársdagur, afmælisdagurinn, fyrsti og síð-
asti dagur sumars og vetrar, fyrsti sunnudagur í aðventu og gamlaársdagur.
18 Árni Björnsson, Saga daganna, bls. 14 og 36.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 63