Saga - 2004, Page 80
ónulega, karllæga guðshugtaki, sem annars er ríkjandi í dagbókar-
færslum hans og kristinni guðrækni almennt um hans daga, en
ræddi þess í stað um ókynbundna, óþekkjanlega veru.81 Í því virð-
ist koma fram „mýstískur“ og tilfinningalegur þáttur í trú hans sem
beinist að „veru“ sem aðeins verður skynjuð en ekki skilin á vits-
munalegan hátt. Má líta svo á að guðsmynd Hálfdánar hafi með ár-
unum fremur þróast í óhefðbundna og ódogmatíska átt en hitt án
þess að það verði rakið til „frjálslyndrar“ guðfræði. Þvert á móti
skiptir sú tilfinningahyggja sem víða verður vart hjá Hálfdáni
mestu máli í þessu efni. Guðsmynd hans og guðssamband réðst
fremur af tilfinningum hans, innsæi og reynslu en af vitsmunaleg-
um og trúfræðilegum þáttum. Í síðari færslunni 1863 lýsti Hálfdán
Guði hins vegar sem besta föður sem opinberaði sig í lífi einstak-
lingsins Hálfdánar með því að auðsýna honum sömu náð og hand-
leiðslu dag hvern.82 Nú kom því að nýju fram sú spenna milli hins
hulda og opinberaða Guðs sem um var rætt hér að framan.
Afstaða hins aldraða Hálfdánar til jarðlífsins kemur einnig ber-
lega í ljós í þessari færslu. Hann áleit það vera útlegð úr „föðurlandi
hinna útvöldu“.83 Hér kemur því ef til vill fram ný og neikvæð
skýring á því hvers vegna afmælið skipaði eins áberandi stöðu í
dagbók og trúarlífi Hálfdánar og raun ber vitni. Það undirstrikaði
að enn eitt útlegðarár væri að baki! Sá neikvæði lífsskilningur sem
þannig kom vissulega fram hjá Hálfdáni leiddi þó ekki til lífsleiða
þar sem hann bað ekki um skjótan endi æviáranna. Þvert á móti var
honum í mun að fá að enda hvert byrjað æviár sem hann þakkaði
fyrir og leit á sem gjöf Guðs. Vera má að sterk sköpunartrú hans og
traust til skaparans hafi átt nokkurn þátt í að afstýra þessum nei-
kvæðu afleiðingum „útlegðarhugsunarinnar“.84 Þessarar afstöðu
H J A LT I H U G A S O N80
81 Hálfdán tók líkt til orða um guðdóminn er hann kallaði hann „heilaga Guð-
dóms persónu, hjálpara, huggara og leiðtoga [sinnar] vesölu sálar“. Sama
heimild, 5.6.1865.
82 Sama heimild, 28.2.1863.
83 Sama heimild, 28.2.1863. — Sjá og sömu heimild 15.10.1865 sem er lokafærsla
í bókina en Háfdán lést tæpum mánuði síðar.
84 Hér hefur þó skapgerð Hálfdánar einnig haft sitt að segja en henni lýsti Sig-
hvatur Grímsson Borgfirðingur svo: „Hálfdán prófastur var … með létt og
glaðlegt yfirbragð, var jafnan bjart yfir honum. Hann var jafnan fjörmaður …
Hann gat verið glaðvær í viðræðum, en gætti jafnan hinnar mestu kurteisi og
háttprýði, fáorður jafnan og orðvar.“ ÞÍ. Lbs. 2368 4o. Sighvatur Grímsson
Borgfirðingur, „Hálfdán Einarsson 1848–1865“, bls. 697–698.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 80