Saga - 2004, Side 134
um kynjasögu væri að ræða en ekki kvennasögu. Kvenna- og kynja-
sagan hafði þannig færst úr hlutverki gagnrýnandans í hlutverk
gerandans.
Gro Hagemann, prófessor við Óslóarháskóla og einn höfunda
bókarinnar, varði áherslur ritstjóra og höfunda og sagði að höfuð-
markmið þeirra hefði verið að beina athygli lesenda að stofnunum
samfélagsins og gildum, að þeim karllægu viðmiðum sem enn
lægju til grundvallar hinum stóru frásögnum sagnfræðinga.
Hagemann sagði að í þessu samhengi væri það mikilvægt kynja-
sjónarhorn (ekki kvennasjónarhorn) að beina sjónum að konum.
Þannig væri athygli vakin á hlutdeild þeirra í efnahagsmálum, at-
vinnumálum, stjórnmálum og menningu þar sem þær höfðu
sjaldnast verið viðmiðið (eða normið). Jafnframt væri með þessu
sett spurningarmerki við þau viðmið sem allajafna lægju til grund-
vallar, þau gerð sýnilegri, skoðuð, skilgreind og gagnrýnd.4
Lengi vel dreymdi kvennasögufræðinga um að skrifa konur
„inn í söguna“. Frumkvöðlar á þessu sviði töldu að niðurstöður
rannsókna þeirra myndu smám saman birtast á síðum yfirlitsrita;
sögum tímabila, þjóða, landshluta og heimshluta, en að þessu leyti
hafa kvenna- og kynjasögufræðingar ekki uppskorið eins og til var
sáð. Konur hafa birst í sérköflum sem út af fyrir sig mörkuðu tíma-
mót.5 En hins vegar virðist ganga illa að skrifa sögu kvenna inn í al-
menn yfirlitsrit og sögubækur yfirhöfuð. Það sýnir auðvitað að þótt
fræðimenn segist ætla að skrifa almennt yfirlitsrit, þá verður árang-
urinn oft sá að horft er fram hjá mörgum mikilvægum þáttum, t.d.
konum og kyngervi.
Þá hafa verið skrifuð sérstök yfirlitsrit í kvennasögu (norsk,
dönsk, sænsk, evrópsk) og þannig annars vegar leitast við að gera
konur sýnilegar í sögunni og hins vegar brugðist við því hve hægt
gengur að skrifa konur inn í söguna. Ekki hefur þó verið skrifað ís-
lenskt yfirlitsrit í kvennasögu þótt öðrum þræði megi fella sum rit
undir þá skilgreiningu. Þar má nefna sögu Kvenréttindafélags Ís-
E R L A H U L D A H A L L D Ó R S D Ó T T I R134
4 Gro Hagemann, „Kommentar til Jørgen Lorentzen,“ Apollon 4/99. Sjá slóðina
http://www.apollon.uio.no/boknytt/kommentar.shtml [sótt 18/10 2003]. —
Sjá einnig inngang að bókinni Med kjønnsperspektiv på norsk historie, bls. 9–15.
5 Ég minnist þess t.d. hvað mér þóttu nýstárlegir og skemmtilegir sérkaflar um
konur í mannkynssögubókinni sem ég las á fjórða ári í menntaskóla. Reyndar
var fleira nýstárlegt í þeirri bók, bæði efnistök og myndefni, sem hvort tveggja
var til þess fallið að vekja áhuga nemenda. Sjá: Asle Sveen og Svein A. Aastad,
Mannkynssaga eftir 1850. Sigurður Ragnarsson þýddi (Reykjavík, 1985).
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 134