Saga - 2004, Blaðsíða 142
að lýsa. Það segir sig sjálft að því stærra sem viðfangsefnið er því
yfirborðslegri verður umfjöllun sagnfræðingsins og því erfiðara er
að koma til skila fjölbreytni og dýpri merkingu þess. Einsagan eða
smásæissagan hefur hins vegar þá kosti að geta dregið athyglina að
fjölbreytileikanum og flóknu samspili á mjög hlutstæðan hátt sem
ekki er hægt að koma við í yfirlitssögunni. Í þessu sambandi tel ég
mestu máli skipta að sagnfræðingurinn velji efnistök og aðferð út
frá viðfangsefnum og rannsóknarspurningum sínum. Sagnfræðin
er í þeirri eftirsóknarverðu stöðu að notast við fjölbreyttari aðferðir
en flestar félagsvísindagreinar. Pirringur Sigurðar Gylfa út í „að-
ferðarfræðilega fjölhyggju“ sagnfræðinnar ber að minni hyggju
vott um einsýni sem er í undarlegu ósamræmi við fræðilegt fjöl-
lyndi hans að öðru leyti.
Ég kannast ekki við þá mynd sem Sigurður Gylfi dregur upp af
sagnfræði og sagnfræðingum. Ég spyr: Hversu lengi ætlar Sigurð-
ur og póstmódernistar á hans bylgjulengd að gera sagnfræðingum
upp þá skoðun að þeir séu á valdi stórsagnanna, að þeir þykist
hafa öll réttu svörin, að þeir trúi á óhagganlegar niðurstöður rann-
sókna og endanleg sannindi, einu sönnu túlkunina eða kenning-
una um atburði, fólk og fyrirbæri? Það má vera að þeir sagnfræð-
ingar fyrirfinnist sem trúi á endanlegan sannleik í sögunni, að
söguleg þekking hlaðist upp eins og forði sem vex frá þeim degi
sem byrjað er að afla hennar og allt þar til við höfum skilið fortíð-
ina til hlítar, en að þetta eigi við stóran hóp sagnfræðinga á okkar
tímum, það er af og frá. Slíkir sagnfræðingar heyra 19. öldinni til,
menn á borð við Ranke, Gardiner og Acton, svo að þrír frægir
sagnfræðingar séu nefndir. Og jafnvel þeir sem talið hafa sagn-
fræðina til vísinda hafa ekki gert það í náttúruvísindalegum skiln-
ingi þar sem hin „vísindalega aðferð“ er hin eina sanna aðferð. Fáir
sagnfræðingar hafa talið sig leita að endanlegum sannindum, hvað
þá lögmálum sögunnar, heldur telja þeir sig fremur afla sagnfræði-
legrar þekkingar með aðleiðsluaðferð, sem þó er skilyrt og sett
fram með fyrirvörum. Gagnstætt mörgum póstmódernistum telja
flestir sagnfræðingar að hægt sé að skilja fortíðina og að það geri
þeir með því að setja fram skynsamlegar og sennilegar frásagnir
eða kenningar um hana. Flestir sagnfræðingar hafa ekki gengið
lengra en að safna, vinna úr og túlka staðreyndir í anda raun-
hyggju, empírisma, og setja fram rökræna frásögn eða kenningu
sem aðrir geta lagt áreiðanleikamat á með viðurkenndum aðferð-
um sagnfræðinnar. Að veruleikinn sé félagslega skilyrtur merkir
G U Ð M U N D U R J Ó N S S O N142
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 142