Saga - 2004, Page 147
H A L L D Ó R B J A R N A S O N
Yfirlitsritin:
Milli endurgerðar og afbyggingar
Síðustu misseri hefur Sigurður Gylfi Magnússon gagnrýnt það sem
hann kallar á einum stað yfirlitshugsunina í íslenskri sagnfræði. Á
hann þar bæði við vöxt yfirlitssöguritunar og ekki síður ýmis óæski-
leg einkenni slíkra yfirlita að hans mati, a.m.k. eins og þau hafa verið
skrifuð. Einkennin sem hann telur sig sjá eru hugmyndin um end-
ursköpun fortíðarinnar, málamiðlanir og afstöðuleysi höfunda, sem
og áhrif stórsagna, sem svo hafa verið kallaðar, í sögutúlkun.*
Ekki er ástæða til að amast við að yfirlitsritum í íslenskri sagn-
fræði hafi fjölgað að undanförnu eins og þau séu í sjálfu sér óæðri
eða ómerkilegri en önnur form sagnfræðirita. Raunar má halda því
fram að yfirlitsrit séu einhver mikilvægustu ritin sem sagnfræðing-
ar semja því að fá sagnfræðileg rit eru sennilega meira notuð. Skóla-
fólk og almenningur, sem og fræðimenn í sagnfræði og öðrum
greinum, eru allt saman notendur yfirlitsrita en sérrannsóknir eru
að jafnaði minna nýttar nema af sagnfræðingum.
Einnig má benda á hugmyndir hollenska sagnfræðingsins Frank-
lins R. Ankersmits um túlkanir, eins og Gunnar Karlsson gerir, og
segja að þær sögutúlkanir sem sagnfræðingar setja fram í yfirlitum
séu í sjálfu sér ekkert öðruvísi en túlkanir í sérrannsóknum.1 Það sem
skiptir öllu máli er hvernig yfirlitsrit, eins og önnur sagnfræðirit, eru
samin. Hér á eftir ætla ég að rýna í rök Sigurðar Gylfa og ræða þau.
Fortíðin, heimildirnar og sagnfræðingurinn
Sigurður Gylfi segir að hugmyndafræði yfirlitsritanna byggist á
þeim skilningi að sagnfræðin geti „endurgert fortíðina og fyllt upp
í þær eyður sem blasa við.“ Meiri rannsóknir leiði af sér meiri og
Saga XLII:1 (2004), bls. 147–157.
* Ég vil þakka Skúla Sigurðssyni vísindasagnfræðingi fyrir vandlegan yfirlestur
og gagnlegar athugasemdir, sem og Garðari Árnasyni vísindaheimspekingi.
1 Gunnar Karlsson, „Ég iðrast einskis: Um siðferði í sagnfræði og einokun ein-
sögunnar“, Saga XLI:2 (2003), bls. 135.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 147