Saga - 2004, Síða 152
bandi koma kenningar Michels Foucaults frá síðustu áratugum um
samtengingu valds og þekkingar upp í hugann, sem og um hugs-
unarkerfi og orðræðuhefðir. Hugmyndir hans eru mjög gagnlegar
þegar fengist er við vald og valdaleysi í samfélögum, ekki síst
vegna þess að hann bendir á birtingarmyndir lárétts valds en ekki
bara lóðrétts valds eins og þess sem má finna í stigveldi. Sama má
segja um mátt og skorður hugsunarkerfa (fr. épistémè) sem mótandi
afls á hugsunarhátt samfélaga og orðræðuhefða (fr. discours) sem
mótandi afls innan hugsunarkerfa og mismunandi eftir t.d. við-
fangsefnum og stéttum.14
Hugmyndir Foucaults hafa haft áhrif beint og óbeint í kynja-
sögu og þjóðernisrannsóknum erlendis og hérlendis og úr því að
hægt er að nýta hugmyndir hans á frjóan hátt í sérrannsóknum
hvers vegna ætti það ekki að vera hægt í yfirlitsritum? Í raun má
segja að þjóðarsöguyfirlitsrit séu kjörinn vettvangur til þess að sýna
hina „flóknu flóru lífsins“ í fortíðinni. Nefna má þau átök sem áttu
sér stað milli þjóðfélagshópa, hugmynda og skoðana, og auk þess
birtingarmyndir valds og valdaleysis. Slík nálgun býður upp á það
að gerð sé grein fyrir ólíkum túlkunum sagnfræðinga á fortíðinni,
bæði nálægri og fjarlægri, sem og í sumum tilfellum framtíðar-
væntingum þeirra.
Það eina sem gæti hindrað slíkt er raunverulegur eða ímyndað-
ur ótti við afleiðingar þess að skrifa slíkt rit og sá ótti snertir hug-
myndir Foucaults. Samkvæmt hefðbundnum skilningi á tilgangi
yfirlita eiga þau að birta þann sannleika (að mati endurgerðar-
sinna) eða þá túlkun (að mati nýgerðarsinna) sem hefur hlotið
viðurkenningu í fræðasamfélaginu. Hvort heldur er, leggur sagn-
fræðingurinn beint og óbeint dóm á verk valdhafa og valdaafla.
Slíkt er vandasamt, fræðilega og persónulega, og því fremur ef fjall-
að er um nýliðna tíð og valdhafar samtímans hafa setið lengi, enda
hafa íslenskir sagnfræðingar ekki verið þekktir fyrir að taka mikið
á hitamálum nærri samtíma sínum í yfirlitum þótt sumir hafi gert
það í annars konar ritum. Útgefendur slíkra rita þurfa líka að geta
H A L L D Ó R B J A R N A S O N152
14 Garðar Árnason, „Vísindi, gagnrýni, sannleikur: Hugleiðingar um Michel
Foucault og vísindaheimspeki“, Hugur 15 (2004), bls. 197–215. — Michel
Foucault, „Skipan orðræðunnar“. Þýð. Gunnar Harðarson. Spor í bókmennta-
fræði 20. aldar: Frá Shklovskíj til Foucault. Fræðirit 7 (Reykjavík, 1991), bls.
191–226. — Útlistun á kenningum Foucaults í sagnfræði er t.d. að finna í bók
Aluns Munslows, Deconstructing History, bls. 120–139.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 152