Saga - 2004, Síða 154
um það hvernig maðurinn öðlaðist þekkingu í tímans rás og álykt-
aði að viðkomandi þekking væri gildur og réttlætanlegur kvarði og
æskilegt viðmið á sínu tiltekna sviði. Stórsögur eru með öðrum orð-
um sögur um meinta framþróun mannsins og lýsa heimspekileg-
um, stjórnmálalegum, efnahagslegum og menningarlegum fyrir-
bærum eins og upplýsingunni, hegelisma, marxisma, frjálslyndis-
stefnu, frjálsum markaði, túlkunarfræði, nútímavísindum (grund-
velli vísindalegrar þekkingar) og gagnsæi tungumálsins (einföldu
og tæru sambandi milli orða og merkingar).19
Sigurður Gylfi hefur lagt áherslu á að þessar stórsögur séu,
gagnstætt kenningum, iðulega ómeðvitaðar hjá sagnfræðingum.20
Skýringin á því er sú að stórsögurnar eru eins konar grundvallar-
sannleikur um fortíðina sem menn telji sig hafa komist að og þarf-
laust sé að efast um. Þetta hefur verið orðað svo: „Frumsögurnar
[þ.e. stórsögurnar] eru stefnuvitar sögunnar, túlkunarlíkön sem
móta sjálfsskilning fólks, störf þess og stefnu og alla þróun sögunn-
ar inn í heildarmynd sem er undanþegin gagnrýni [leiðr.: og] er
sjálfgefið viðmið.“21 Í ljósi þessara einkenna stórsagnanna er gagn-
rýni Sigurðar á ómeðvituð áhrif á verk sagnfræðinga þungvæg.
Hún snertir einnig grundvallarviðhorf sagnfræðinga til fræðigrein-
ar sinnar.
Í gagnrýni sinni í þessu efni hefur Sigurður Gylfi bæði beint
spjótum sínum að bók Helga Skúla Kjartanssonar, Íslandi á 20. öld
frá árinu 2002, og yfirlitsgreinum sem birtust í tímaritinu Sögu árið
2000. Þótt ég geti ekki tekið undir með Sigurði nema í sumum
dæma hans í þessu efni (ég er helst sammála honum varðandi bók
Helga Skúla) þá tel ég kjarnann í gagnrýninni réttmætan. Hann er
sá að varasamt sé að láta meira eða minna ómeðvitaðar og jafn-
framt ímyndaðar hugmyndir um rökvísi mannlegrar hegðunar,
röklegt samhengi atburða, sögulega nauðsyn (nauðhyggju), tækni-
hyggju, framfarahyggju og meint ágæti kerfa eins og frjáls mark-
aðsbúskapar hafa áhrif á túlkun sagnfræðinga.
H A L L D Ó R B J A R N A S O N154
19 Alun Munslow, The Routledge Companion to Historical Studies, bls. 155. „Frels-
unarhyggja“ er að því er virðist sterkt einkenni á sumum stórsögum, sjá Lyot-
ard í bók hans The Postmodern Explained to Children (London, 1992), bls. 36, til-
vitnað eftir Keith Jenkins, Why History?, bls. 82.
20 Sigurður Gylfi Magnússon, „Fanggæsla vanans“, bls. 389, 392, 396.
21 Úlfhildur Dagsdóttir, „Sæborgir og sílíkonur eða femínismi og póstmódern-
ismi“, Kynlegir kvistir tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri. Ritstj.
Soffía Auður Birgisdóttir (Reykjavík, 1999), bls. 108.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 154