Saga - 2004, Síða 155
Gott dæmi um stórsögu er framfaratrúin sem enn þá gegnsýrir
samfélag okkar þótt hún hafi e.t.v. örlítið dofnað á síðustu áratug-
um, a.m.k. í fræðaheiminum. Þetta er trúin á mátt og skynsemi vís-
indanna, mátt og áhrif tækni og véla og „framfarirnar“ af völdum
þessara afla og vanmat á þætti tilviljana.22 Vísindin hafa fært okkur
tortímingu eins og allir vita, tæknin er verkfæri í höndum valdaafla
samfélagsins hverju sinni og spyr ekki um réttlæti eða jöfnuð og
„framfarirnar“ kosta alltaf einhverja eitthvað sem sagnfræðingar
spyrja of sjaldan um. Eða hvað skyldu „tækniframfarir“ í skipastól
og veiðiaðferðum á Íslandi á 20. öld hafa kostað þjóðina ef dæmið
væri gert upp með „grænum“ þjóðhagsreikningum? Ef umhverfis-
spjöll, sóun við nýtingu fiskaflans og þrældómur sjómanna, sem
voru útslitnir menn um aldur fram fyrir tíma vökulaganna 1921,
væru metin til fjár eða eftir einhverjum öðrum mælikvarða mundu
„framfarirnar“ sennilega fá á sig annan blæ.23
Af hverju hafa sagnfræðingar verið svo andvaralausir gagnvart
þessu? Þeir eru að sjálfsögðu börn síns tíma og þá um leið dæmi
þess hve erfitt er að komast undan gildismati síns eigin samfélags
og hversu erfitt er að ætla að standa utan við það, jafnvel í fræði-
mennsku. Smæð fræðasamfélagsins og stutt saga fræðastarfsemi á
Íslandi kemur hér líka til. Hvað sem veldur er staðreyndin sú að í
fáum sagnfræðilegum sérrannsóknum mun þessi kostnaður „fram-
faranna“ vera ræddur. Það er samt ekki nægjanleg réttlæting fyrir
höfunda yfirlita að vekja naumast eða alls ekki athygli á gjaldinu
sem „framfarirnar“ kostuðu. Hægur vandi er að benda á þessa hlið
málsins með fullum rökum og dæmum til að koma þeirri hugsun
Y F I R L I T S R I T I N 155
22 Um þetta efni sjá t.d. Stefán Pálsson, „Af þjóðlegum orkugjöfum og óþjóðleg-
um: Nauðhyggjan í íslenskri orkusögu“, 2. íslenska söguþingið 30. maí – 1. júní
2002. Ráðstefnurit II. Ritstj. Erla Hulda Halldórsdóttir (Reykjavík, 2002), bls.
254–267. — Skúli Sigurðsson og Stefán Pálsson, „Foruga fagra borg“, Borgar-
brot: Sextán sjónarhorn á borgarsamfélagið. Ritstj. Páll Björnsson (Reykjavík,
2003), bls. 85–86, 88–90. — Skúli Sigurðsson, „Höfum við gengið til góðs göt-
una fram eftir veg? Vísindasaga, nútímaþjóðfélag og trúin á framfarir“, Sagn-
ir 14 (1993), bls. 31–33.
23 Um umhverfisspjöll nægir að benda á að botnvörpur slétta með tímanum
hafsbotninn og gera lífsskilyrði fisksins verri. Varðandi hráefnið má benda á
að öðru slógi en hrognum og lifur var lengi vel hent af togurum en komið
með það í land á árabátum og það notað til áburðar. Um þrældóm sjómanna
og afleiðingar hans má t.d. lesa lýsingu sjómanns í: Jónas Árnason, „Bíddu nú
hægur, lagsmaður“, Heiðurskarlar: Þættir af fimm mönnum sem heiðraðir hafa
verið á sjómannadaginn (Reykjavík, 1964), bls. 162–165, 182–185, 197.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 155