Saga - 2004, Qupperneq 195
og að rétt sé vísað til heimilda. Um rugling á útgáfum má nefna að
ýmist er vísað til handritsins „Heiman ek fór“, eins og það hafi ekki
birst á prenti, eða útgáfu þess Heiman eg fór sem Halldór gekk frá
árið 1952.
Að taka kiljönskuna úr textanum
Fjórir fyrstu kaflarnir í bók Hannesar styðjast við jafnmargar minn-
ingabækur Halldórs Laxness, þar sem hver frásögnin rekur aðra í
endursögn, samantekt eða styttingum. Fyrsti kaflinn „Foreldrahús“
styðst við Í túninu heima, annar kaflinn „Skáld á skólabekk“ við
Sjömeistarasöguna, þriðji kaflinn „Á íslenskum skóm“ við Úngur eg
var og fjórði kaflinn „Ástir og ævintýri“ við Grikklandsárið.37 Einnig
er tekið úr skáldverkum Halldórs og úr ritum annarra höfunda.
Í eftirmálanum segist Hannes hafa tekið „þann kost að hafa text-
ann með samræmdri nútímastafsetningu nema það, sem haft er eft-
ir Kiljan: Það er allt með þeirri stafsetningu, sem hann gerði sér.“
(Bls. 619) Hér er ekki alveg ljóst við hvað er átt því að venjulega
nota fræðimenn þá stafsetningu sem er við lýði á hverjum tíma án
þess að gera sérstaka grein fyrir því. Líklega er Hannes því hér að
tala um þann texta sem hann tekur frá Halldóri og fellir inn í verk
sitt án auðkenningar, en þetta útskýrir hann svo í greinargerð sinni:
„Stundum hagræddi ég frásögninni ekki mikið, stundum meira,
allt eftir því hvað átti við. Þegar Halldór var hins vegar að segja frá
eigin skoðunum eða sálarlífi hafði ég orð hans sjálfs óbreytt með
stafsetningu hans og auðkenndi þau.“38 Þá er það ekki rétt að bein-
ar tilvitnanir í verk Halldórs séu allar með hans sérstöku stafsetn-
ingu. Á því er töluverður misbrestur. Til að mynda er titillinn Úng-
ur eg var alls staðar ranglega skrifaður „Úngur ég var“.
Aðferð Hannesar við textatökuna felst einkum í því að stytta,
fella úr, draga saman, breyta röð efnisatriða, skipta út orðum og
hnika til orðalagi hér og þar. Á þennan hátt tileinkar hann sér text-
ann og setur á hann sín persónulegu einkenni. Þau felast m.a. í leið-
réttingum á málfari Halldórs Laxness, þ.e. í því sem Halldór kallaði
M E Ð A L A N N A R R A O R Ð A 195
37 Bækurnar komu út í þessari röð: Í túninu heima (Reykjavík, 1975), Úngur eg var
(Reykjavík, 1976), Sjömeistarasagan (Reykjavík, 1978) og Grikklandsárið
(Reykjavík, 1980). Eftirleiðis verður vitnað til þeirra innan sviga fyrir aftan til-
vitnun í meginmáli þegar ljóst er við hvaða bók er átt.
38 Hannes Hólmsteinn Gissurarson, „Greinargerð“, bls. 28, dálkur 2.
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 195