Saga - 2004, Page 200
Haft fyrir satt
Þrátt fyrir „misminni“ Halldórs Laxness og þá yfirlýsingu hans að
minningabækurnar séu ritgerðarskáldsögur lítur Hannes á þær
sem sagnfræðilegar heimildir og moðar ómælt úr þeim. Þegar þær
stangast á við aðrar heimildir hliðrar Hannes þeim aðeins til eða
jafnvel breytir. Í Í túninu heima minnist Halldór á skáldsögu sína
„Aftureldíngu“ sem hann skrifaði ungur en týndi svo. Um þetta
segir hann: „Handritið hefur enn verið til um 1930, því það ár rendi
Erlendur Guðmundsson yfir það augum og sagði að ég hefði 12 ára
dreingur skrifað einsog Kristín Sigfúsdóttir“ (bls. 148). Hjá Hannesi
verður þetta: „Einn vinur Halldórs renndi líka augum yfir handrit-
ið um 1930 og sagði honum, að hann hefði á fjórtánda ári skrifað
eins og Kristín Sigfúsdóttir.“ (Bls. 63) Hér breytir Hannes texta
Halldórs með því að leggja vininum þau orð í munn að Halldór hafi
verið „á fjórtánda ári“ þegar hann skrifaði söguna. Þetta útskýrir
Hannes neðanmáls og segir: „Skv. Í túninu heima, 148. bls., sagði
vinurinn, Erlendur í Unuhúsi, að vísu tólf ára drengur, en Halldór
hlýtur að hafa skrifað bókina veturinn 1915–1916, þegar hann var
þrettán ára og varð fjórtán ára um vorið, svo að því er hér breytt til
samræmis.“ (Bls. 566, nmgr. 11) Það er rétt hjá Hannesi að Halldór
skrifaði söguna fyrsta veturinn sinn í Reykjavík en hann getur ekki
haft orð Erlends sem heimild fyrir því.
Með leiðréttingum sínum reynir Hannes að sveigja minningar
Halldórs undir sagnfræðina. Þetta skapar þversögn í heimildarýni,
þar sem sumu er trúað og öðru ekki. Þannig hafnar Hannes frásögn
Halldórs af Svölu Benediktsson í Úngur eg var þar sem hún „virðist
ekki vera sannleikanum samkvæmt […]. Henni er því sleppt hér.“
Um þetta vitnar hann til bókar Gylfa Gröndal, Dúfa töframannsins, án
frekari upplýsinga um þá bók, hvenær hún kom út eða hvað þar seg-
ir. (Bls. 583, nmgr. 10) Hins vegar trúir Hannes frásögn Halldórs af
bróður Svölu, Má Benediktsson, í sömu bók og fellir í heilu lagi inn í
rit sitt. (Bls. 127–128) Þetta gerir hann jafnvel þótt hann taki það fram
neðanmáls að margir hafi „mótmælt skrifum Halldórs um Má Bene-
diktsson, þ.á m. Hrefna Benediktsson í Dúfu töframannsins […]“.46
H E L G A K R E S S200
46 Hannes getur ekki heimilda um frásögn sína af Má, en hún er tekin úr Úngur
eg var, bls. 91–92. Sjá einnig bls. 570, nmgr. 9, þar sem Hannes gerir eftirfar-
andi grein fyrir heimildarýni sinni: „Þótt ýmis skrif Halldórs um Svölu Bene-
diktsson virðist ekki vera sannleikanum samkvæmt, enda ekki stuðst við þau
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 200