Saga - 2004, Page 238
Guðjón Friðriksson, JÓN SIGURÐSSON. ÆVISAGA I–II. Mál og
menning. Reykjavík 2002–2003. 565 og 635 bls. Heimilda-, mynda- og
nafnaskrár.
Honum hefur einatt verið lýst eins og nærfellt fullkomnum og galla-
lausum, hann hafi alltaf haft á réttu að standa, og til hans var lengi
vitnað í tíma og ótíma, stundum til framdráttar andstæðum skoðun-
um. Allt þetta getur verið erfitt að fyrirgefa, og ekki nema hressandi
að heyra menn reyna að hrista af sér ok þessarar „persónudýrkunar“,
þótt lítt sé enn kveðið upp úr með það opinberlega. Einna algengast
mun vera að kvarta yfir því, að Jón hafi verið leiðinlegur, þurrskyn-
samur þjarkur, ráðríki hans þröngsýni — hann hafi vantað húmor og
fjölbreytni gáfna, hann eigi sér varla neina þroskasögu, eins og hann
væri fæddur gamall, hann sé of ómennskur til þess að unnt sé að þykja
vænt um hann (Sigurður Nordal, „Úr launkofunum. Af Jóni Sigurðs-
syni“, Mannlýsingar III. bindi. Svipir (Reykjavík, 1986 [birtist fyrst
1969]), bls. 28).
Þessi ummæli Sigurðar Nordals um Jón Sigurðsson lýsa ágætlega stöðu
forsetans meðal kynslóðarinnar sem komst til manns á fyrstu árum 20. ald-
ar. Fyrir henni var þjóðhetjan nærfellt yfirþyrmandi, sífellt nálæg í orðræðu
sjálfstæðisbaráttunnar, en þó um leið óendanlega fjarlæg og upphafin. En
með sigri í baráttunni fyrir fullveldi við lok fyrri heimsstyrjaldar stóð fátt
eftir af Jóni annað en orðmargar og tyrfnar stjórnmálaritgerðir hans sem
áttu fæstar greiða leið að síðari tíma lesendum — og reyndar má deila um
hversu rækilega þær voru lesnar á meðan Jón lifði. Segja má því að Jón Sig-
urðsson hafi dagað uppi einhvern tíma á fyrri hluta 20. aldar sem þögul
„standmynd, sem steypt er í eir“, svo vitnað sé til hugleiðinga Steins Stein-
arr um styttu Jóns á Austurvelli („Eir“, Kvæðasafn (Reykjavík, 1964), bls.
209).
Það er á þessari ímynd sem Guðjón Friðriksson virðist vilja vinna í nýrri
tveggja binda ævisögu Jóns Sigurðssonar, þótt honum verði hvorki tíðrætt
um markmið sín né vinnuaðferðir. Fölskvalaus aðdáun fyrri ævisagnaritara
á Jóni þykir ekki sérlega trúverðug lengur og því er tilhlýðilegt að reisa for-
setanum nýjan minnisvarða ef hann á ekki að verða gleymsku og áhuga-
leysi að bráð. Þessu fylgir þó margháttaður vandi sem allir þeir sem skrifa
um Jón Sigurðsson verða að glíma við. Í fyrsta lagi þykir ekki viðeigandi að
fjalla um þjóðhetjur af léttúð. Mannlýsing Guðjóns ber keim af þessu; hann
vill greinilega skyggnast á bak við helgimyndina af Jóni Sigurðssyni, en
honum er alls ekki í mun að brjóta hana. Sá Jón Sigurðsson sem birtist okk-
ur í ævisögu Guðjóns er ekki jafn óskeikull og foringinn mikli í búningi Páls
Eggerts Ólasonar, en hann heldur þó virðingu sinni óskertri. Í öðru lagi lít-
R I T D Ó M A R238
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 238