Saga - 2004, Qupperneq 240
ævi Jóns hafi komið mér verulega á óvart — enda er kannski ekki við því
að búast meira en heilli öld eftir andlát hans — en hér er þó ýmiss konar
fróðleikur dreginn saman í skipulega heild og því ber að fagna.
En Jón Sigurðsson vekur ekki áhuga nútímamanna fyrir ævintýralegt
lífshlaup, heldur fyrst og fremst fyrir þá sök að hann var snjall stjórnmála-
maður sem mótaði íslenska pólitík í áratugi. Það er því stjórnmálastarfið,
skoðanir Jóns og baráttumál, sem skiptir máli fyrir eftirkomendur, en lýs-
ingar á lífsháttum Jóns og heilsufari eru fyrst og fremst krydd sem lífgar
upp á lesturinn. Ævisaga Guðjóns Friðrikssonar fjallar því skiljanlega að
mestu um þennan þátt í lífi Jóns og bætir hún reyndar miklu við þekkingu
okkar á stjórnmálamanninum Jóni Sigurðssyni, og þá ekki síst um sam-
hengi skoðana hans og stjórnmálaþróunar í Danmörku. Í því sambandi má
benda á greinargóða lýsingu Guðjóns á viðhorfum Íslendinga í Kaup-
mannahöfn til viðburða byltingarársins 1848 (fyrra bindi, bls. 395–433) og
umfjöllun hans um persónuleg tengsl Jóns við danska stjórnmála- og emb-
ættismenn, allt frá Carli Plough, ritstjóra málgagns þjóðernisfrjálslyndra,
Fædrelandet, til A. F. Kriegers lagaprófessors, ráðherra og eins höfunda
stöðulaga. Hér nýtur Guðjón þess að sjálfstæðisbaráttunni við Dani er
löngu lokið og engin þörf er því lengur á að draga fjöður yfir þau marghátt-
uðu áhrif sem dönsk stjórnmál höfðu á skoðanir Jóns Sigurðssonar eða vin-
áttu hans við danska ráðamenn. Athyglisverð er líka sú tilgáta Guðjóns að
loforð dönsku stjórnarinnar um starfsframa Jóns, ef málefni Íslands og
Danmerkur hefðu leyst á haganlegan hátt, hafi legið að baki andstöðu hans
við róttækar tillögur Þingvallafundar sumarið 1873 (síðara bindi, bls.
479–488), en þessi afstaða hetjunnar hefur lengi valdið fræðimönnum heila-
brotum. Dæmigert er að Páll Eggert Ólason skýrði málið þannig að Jón hafi
í raun verið sömu skoðunar og hinn róttæki meirihluti fundarmanna —
Páli Eggerti þótti einfaldlega útilokað annað en að Jón væri sama sinnis og
þeir sem lengst vildu ganga í sjálfstæðisbaráttunni — en afstaða Jóns hafi
verið mistúlkuð í lýsingum blaða af fundinum (Jón Sigurðsson. Ævisaga 5.
bindi (Reykjavík, 1933), bls. 162–179). Guðjón hefur aðeins óljósar heimild-
ir fyrir tilgátu sinni, og því er útilokað að slá nokkru föstu um hvað vakti
fyrir Jóni þegar hann lagði til að kröfur Þingvallafundar um stjórnfrelsi
yrðu mildaðar, en hún sýnir þó glöggt að Guðjón lítur á þjóðhetjuna sem
breiskan mann frekar en flekklausan dýrling.
Svipaða endurskoðun má greina í þeirri einkunn sem Guðjón gefur
andstæðingum Jóns meðal íslenskra samtímamanna hans. Hingað til hafa
menn á borð við Gísla Brynjúlfsson, Arnljót Ólafsson og Grím Thomsen
fengið heldur bágt fyrir andspyrnu sína gegn stjórnmálabaráttu forsetans,
enda hafa ævisagnaritarar Jóns venjulega gengið út frá því sem vísu að Jón
hafi haft rétt fyrir sér í öllu því sem sneri beint að íslenskri sjálfstæðisbar-
áttu, og andskotar hans hafi því, eðli málsins samkvæmt, vaðið í villu og
svíma. Þótt Guðjón geri ekki skipulega rannsókn á viðhorfum þessara
R I T D Ó M A R240
Saga 2004 - NOTA 1.12.2004 9:40 Page 240